Í skáldsögu sinni al-Subar, lýsir palestínski rithöfundurinn Sahar Khalifeh samtali milli Palestínumanns, sem var að snúa aftur heim frá útlöndum, og ísraelsks hermanns. Hermaðurinn hefur stöðvað Palestínumanninn, beðið um skilríki og spurt hvert ferðinni sé heitið. Palestínumaðurinn segist ætla að heimsækja móður sína. Eins og kemur fram í samtali nota þeir ólík orð til að lýsa sama bænum þar sem móðir Palestínumannsins býr:
„Ég flutti fyrir fimm árum, þremur mánuðum eftir hernámið. Við áttum heima í Tulkarm, en þegar faðir minn lést þá flutti móðir mín til Nablus.“
„Af hverju flutti móðir þín til Shekem?“
„Henni líður vel í Nablus“
„Af hverju líður henni vel í Shekem?“
„Af því að við eigum marga ættingja í Nablus“
„Og af hverju yfirgafst þú olíuframleiðsluríkin til að snúa aftur til Shekem?“
„Ég er að snúa aftur til Nablus vegna þess að pabbi minn lést …“
„Og hvað ætlar þú að gera í Shekem?“ …“1
„Ég ætla að leita að vinnu í Nablus Þetta samtal er dæmigert fyrir þann hluta baráttunnar milli Palestínumanna og Ísraela sem snýst um hugtök og nöfn. Þessi tiltekna barátta er ekki málfarsbarátta um hvort eigi að nota hebreskt (Shekem) eða arabískt (Nablus) orð. Að baki liggur mjög þýðingarmikil pólítísk spurning. Hún snýst um eignarrétt og að hafa stjórn á eigin aðstæðum. Ennfremur er þetta spurning um hver hefur valdið til að taka ákvörðun um hvað hlutirnir heita eða hvaða hugtök séu ríkjandi í deilunni.

Þessi þáttur var til dæmis mjög áberandi fljótlega eftir að Ísrael var stofnað árið 1948. Þá skipaði forsætisráðherrann David Ben Gurion nefnd sem gegnir svipuðu hlutverki og Örnefnastofnun Íslands. Þessi nefnd skipulagði fyrstu landakort landsins og ákvað viðeigandi hebresk örnefni.2 Til að mynda varð Al-Jammamah Bet Kama og Be´er al-Saba´ah að Beer Sheeva. Þessar breytingar áttu að gefa til kynna að ákveðin eignartilfærsla hefði átt sér stað í landinu.
En baráttan snýst um meira en örnefni. Vegna þess að deilan milli Palestínumanna og Ísraela fer líka fram í fjölmiðlum heimsins er hugtakanotkunin afar miðlæg í baráttunni um hug og hjörtu almennings. Það skiptir til dæmis verulegu máli hvort tiltekinn hópur er sagður stunda „hryðjuverk“ eða „sjálfstæðisbaráttu“ . Þetta nær víðar og hefur mjög ákveðnar pólítískar afleiðingar. Til að mynda er hugtakið „hernumdu svæðin“ notað til að lýsa Gaza-svæðinu og Vesturbakkanum. Ísraelar halda því þó fram að Palestína sé ekki hernumið (occupied) svæði heldur umdeilt (disputed). Þar af leiðandi telja Ísraelar skv. þessari hugtakanotkun að það sé ekki verið að brjóta nein alþjóðalög.
Upp á síðkastið hafa komið upp á yfirborðið hugtök sem koma til með að hafa veruleg áhrif á framvindu mála á næstu misserum. Í sumar þegar fjallað var um „Vegvísinn“ lofaði ríkisstjórn Ísraels að fjarlæga „ólöglegu“ landnemabyggðirnar. Nær allir fjölmiðlar heims fjölluðu um þessa ákvörðun og notuðu þetta hugtak gagnrýnislaust. En með því að segja „ólöglegar“ landnemabyggðir hlýtur það þá að gefa til kynna að til séu „löglegar“ landnemabyggðir. Með þessu getur því ríkistjórn Ísrael haldið því fram að sumar landnemabyggðir séu viðurkenndar og „löglegar“ og e.t.v. ekki samningsatriði í samningaviðræðum framtíðarinnar.
Nýjasta dæmið er þó þessi veggur eða múr sem Ísraelar eru að byggja á hernumdu svæðunum. Hann er orðinn að umtalsefni sérstaklega eftir nýlega heimsókn Ariel Sharon til Washington. Ríkisstjórn Ísraels heldur því fram að þetta sé „öryggisgirðing“ . Fyrir þá yrði það mjög viðkvæmt pólítískt séð ef farið yrði að kalla þetta „múr“ því þá færi fólk að bera þetta saman við til dæmis Berlínarmúrinn. Þar sem þessi múr er enn nánast á byrjunarreit er ekki ólíklegt að þetta mál eigi eftir að verða eldfimara og viðkvæmara á næstu misserum.
Að lokum er það hugtakið „friðarviðræður“ eða „friðarferlið“ . Við fáum reglulega fréttir af því að vel eða illa gangi í „friðarumleitunum“ fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeir sem fylgjast vel með stöðu mála hafa haldið því stöðugt fram að „friðarferlið“ snúist meira um „ferli“ en „frið“ . En með því að fjalla um „friðarviðræðurnar“ og einblína á hver sé, eða sé ekki, að beita sér fyrir „friði“ þá er verið á sama tíma að beina kastljósinu burtu frá því að þarna er stríð. Þessar „friðarviðræður“ eru alls ekki til þess líklegar að binda endi á stríðið. Þær valda því þó meðal annars að umræðan snýst um hvað sé æskilegt (þ.e. friður) í framtíðinni frekar en hvað sé nú (stríð). Þar af leiðandi er ekki fjallað eins vel um hið hörmulega ástand eins og það er nú. Hið stríðskennda ástand verður því með hverjum degi „eðlilegra“ og meira „auðkennandi“ Að lokum verður það að vana sem erfitt verður að breyta.
Þegar söguhetjan í bók Sahar Khalifeh, sem vitnað var í hér að framan, kemst loksins heim til Nablus verður hann fyrir miklu áfalli þegar hann upplifir vonleysið og örbirgðina meðal heimamanna. Brátt tekur hann virkan þátt í umræðunni meðal Palestínumanna um hvernig eigi að bregðast við ástandinu og hvort eða hvernig eigi að heyja vopnaða baráttu gegn Ísrael. En í lokamálsgrein bókarinnar kemur skýrt fram að líf Palestínumanna gengur sinn „vanagang“ þrátt fyrir, eða sennilega vegna, erlendrar íhlutunar.
„Hann stóð á gangstétt og horfði á fólkið á leiðinni heim eða á leið í vinnu. Þau mættu hversdagleikanum með stóískri ró, þegjandi og hljóðalaust. Ekkert hafði breyst. Torgið var þarna á sínum stað. Klukkan á torginu tifaði eins hægt og hún gerði alltaf. Bara blómin virtust hafa náð að vaxa og dafna. Adil fór um torgið í hljóði og gékk yfir götuna. Hann heyrði sölumenn á götunni hrópa „Fiskur frá Gaza!“ , „Appelsínur frá Jaffa“ , „Bananar frá Jeríkó“. … Ungur strákur gékk framhjá og auglýsti hvaða blöð voru til sölu: „Al-Quds! Al-Shaab! Al-Fajr! Kissinger tilkynnir lausn á deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs!“ … Fólkið hélt áfram að útrétta og keypti ávexti, grænmeti og brauð.
- Þessi skáldsaga kom upphaflega út árið 1976. Hún er til í enskri þýðingu Trevor LaGassick og Elizabeth Fernea Wild Thorns (Brooklyn: Interlink Books, 2000).
- Um þessa nefnd sjá hina frábæru bók Nadiu Abu El-Haj Facts on the Ground: Archaeological Practice and Territorial Self-Fashioning in Israeli Society (Chicago: University of Chicago Press, 2001). Mannfræðingurinn Susan Slyomovics hefur ritað áhugaverða bók sem fjallar m.a. um minningu og staðarhætti The Object of Memory. Arab and Jew Narrate the Palestinian Village (Philadelphia: University of Pennsylvania Press, 1998)
Birtist í Frjáls Palestína.