Barátta fyrir námsfrelsi í Palestínu

Menntun og menntunarmöguleikar þjóða eru án efa mikilvægur þáttur í möguleikum þeirra á velferð og stöðugu stjórnarfari. Nú þegar Palestínska þjóðin sér loksins fram á möguleika á að stjórna hluta af landi sínu sjálf skiptir það miklu máli að hún hafi völ á góðri menntun, ekki síst vegna þess að þau svæði sem Palestínumönnum hefur verið skilað aftur eru mörg hver snauð af náttúruauðlindum. Því er barátta palestínskra stúdenta gegn ísraelskum hindrunum á námi sínu mikilvægt mál sem þörf er að styðja við.

Barátta Palestínumanna fyrir námsfrelsi er ekki nýtt fyrirbæri. Hernámslið ísraela í Palestínu hefur oft orðið uppvíst af því að brjóta menntunarmöguleika Palestínumanna skipulega niður og meðal annars lokað skólum starfræktum á herteknu svæðunum. Palestínumenn hafa að sjálfsögðu barist gegn þessum aðgerðum ísraela og getað varðveitt og starfækt flestar af sínum helstu menntastofnunum. Undanfarin ár hefur barátta stúdenta frá Gaza svæðinu fyrir námsfrelsi sínu vakið athygli víða um heim

Barátta Gazastúdenta

Palestínumenn hafa löngum verið með best menntuðustu þjóðum Mið-Austurlanda og reka nokkra öfluga háskóla. Af átta háskólum Palestínumanna á herteknu svæðunum eru tveir staðsettir á Gaza svæðinu og sex á Vesturbakkanum. Háskólarnir á Gaza taka aðeins við um fimmtungi þeirra sem þar útskrifast úr framhaldsskóla og bjóða ekki upp á eins fjölbreytta menntun og háskólar á Vesturbakkanum. Því hafa fjölmargir Gaza stúdentar í gegnum tíðina sótt háskólanám á Vesturbakkanum.

Palestínskur námsmaður gluggar í lexíurnar sínar undir vökulu eftirliti ísraelsks hermanns.

Árið 1991 tóku ísraelsmenn upp reglur sem hindruðu enn frekar umferð Palestínumanna inn í Ísrael og þar með á milli Gaza og Vesturbakkans sem ísraelsríki aðskilur. Þetta varð til þess að stúdentar með aðsetur á Gaza svæðinu gátu ekki lengur stundað nám á Vesturbakkanum nema að undangengnu sérstöku leyfi ísraelsmanna. Varla þarf að taka fram að aðeins lítill hluti þeirra sem sóttu um leyfið fengu það.

Birzeit háskóli, sem staðsettur er á Vesturbakkanum, ýtti árið 1996 af stað alþjólegri baráttuherferð fyrir námsfrelsi Gaza stúdenta í samvinnu við samtökin Friends of Birzeit University. Herferðin fór í gang í kjölfar þess að öll leyfi stúdenta frá Gaza til náms á Vesturbakkanum voru afturkölluð. Farið var í gang með undirskriftasöfnunum sem náði til stúdenta út um allan heim og staðið fyrir fjölmennum mótmælum á herteknu svæðunum. Baráttuherferð Birzeit háskóla, Gaza student campagin, er enn í gangi og frekari upplýsingar um hana má meðal annars fá á vefsíðunni www.birzeit.edu/aff. Megin kröfur hennar eru að farið verði eftir friðarsamkomulagi því sem ísraelar hafa gert við PLO.

Ísraelsmenn brjóta friðarsamkomulag við PLO

Ein af meginkröfum Palestínumanna í friðarviðræðum þeirra við ísraelsmenn hafa verið greiðar og öruggar samgöngur milli Vesturbakkans og Gaza-svæðisins. Þetta er mikilvægt mál fyrir Palestínumenn þar sem meginkjarni þjóðarinnar býr á þessum tveim aðskildu svæðum. Í kjölfar hins svokallaða Oslóarfriðarsamkomulags PLO og Ísraels sem undirritað var árið 1993 vonuðust Palestínumenn til þess að greiðar samgöngur til Vesturbakkans væru tryggðar. Annað kom á daginn.

Í Oslóarfriðarsamkomulagi PLO og Ísraels segir að „báðir aðilar [samningsins] viðurkenna Vesturbakkann og Gazasvæðið sem eina svæðisheild“. Í öðru samkomulagi sem PLO og ísraelar undirrituðu í Washington tveim árum síðar skuldbinda ísraelar sig til að koma á „samgönguleið sem tengir saman Vesturbakkann og Gaza ströndina fyrir fólk, farartæki og vörur… ísraelsmenn munu tryggja greiða samgönguleið … ekki skemur en 10 tíma á dag“.

Barátta Gaza stúdenta fyrir námsfrelsi stendur um það að ísraelar fari eftir þessum ákvæðum í samningum sínum við PLO. Ísraelsmenn halda fast við þá stefnu að stúdentar frá Gaza þurfi sérstök leyfi til að fá að stunda nám sitt á Vesturbakkanum og eins og fyrr fær aðeins hluti þeirra það. Mikill fjöldi stúdenta frá Gaza stundar því nám „ólöglega“ á Vesturbakkanum. Þeir eiga á hættu handtöku, sem margir þeirra hafa reyndar lent í.

Yfir helmingur stúdenta frá Gaza í Birzeit háskóla stunda nám án leyfis ísraela. Hinn helmingurinn hefur tímabundin leyfi sem í flestum tilfellum nær ekki yfir allan námstímann. Engin loforð eru gefin um framhald leyfisins. Verði breytingar á pólitísku landslagi á svæðinu getur því vel verið að bundinn verði endir á nám margra námsmanna frá Gaza. Ísraelsmenn hafa fyrirvaralaust afnumið leyfi margra námsmanna úr gildi án nokkura skýringa.

Stafar ísraelum ógn af Gazastúdentum?

Ísraelskir ráðamenn hafa varið aðgerðir sínar gagnvart stúdentum frá Gaza með þeim rökum að þær séu nauðsynlegar fyrir öryggi ísraelsríkis. Í forsætisráðherratíð Benyamins Nethanyahu lýsti talsmaður hans því yfir að stúdentar frá Gaza væru „líklegir hryðjuverkamenn.“ Yitzhak Mordechai, fyrrverandi utanríkisráðhera, sagði þegar öllum Gaza stúdentum var meinaður aðgangur að Vesturbakkanum að „af öryggisástæðum getum við ekki leyft íbúm Gaza að mennta sig í menntastofnunum Vesturbakkans“.

Naomi Khazan, talsmaður ísraelska þingsins, Knesset, missti út úr sér sumarið 1998 ummæli sem skýra stefnu ísraelsmanna gagnvart Gaza-stúdentum. „Hún er kerfisbundin og harðsnúin áætlun sem hefur áhrif á öll æðri menntunarmál í Palestínu. Tilgangurinn er að sundra. Við eru að tala um tilraun til að dreifa forystuhópnum og koma í veg fyrir að menntaður forystuhópur nái að myndast [meðal Palestínumanna]“.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top