Ávarp Helgu Ögmundardóttur fyrir framan Utanríkisráðuneytið 21. júní 2025

Sæl veriði, kæru samherjar, á þessum bjartasta og lengsta degi ársins!

Tilefnið er þó ekki bjart heldur einn af myrkustu atburðum okkar tíma: Þjóðarmorð ísrael og stuðningsríkja þess á íbúum Gaza og raunar í Palestínu allri.

Enn erum við saman komin til að krefjast þess að stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar gagnvart alþjóðalögum, sem byggjast á mannréttindum, réttlæti og þeirri sjálfsögðu kröfu að ofbeldi gegn almennum borgurum, hvar sem er í heiminum og hver sem á í hlut, fái ALDREI að viðgangast, heldur grípi alþjóðasamfélagið inn í og stöðvi það, umsvifalaust.

Nú, 20 mánuðum – og næstum 80 árum, ef við förum til upphafsins – eftir að útrýming á Palestínufólki hófst í boði ísrael og vina þeirra, felur ríkisstjórnin sig undir pilsfaldi Bandaríkjanna, Bretlands, Þýskalands og annarra ríkja sem standa vörð um síonistaríkið, stríðsglæpi þess, landrán og endalaus mannréttindabrot.

Fyrir fjórum dögum héldum við upp á sjálfstæði Íslands en eitt af því sem sjálfstætt ríki hlýtur að reka er sjálfstæð utanríkisstefna, þar sem ákvarðanir um atburði utan landsteinanna eru teknar á grunni réttlætis og sanngirni en ekki á forsendum annarra ríkja, eins og hefur viðgengist hér allt of lengi.

Krafa okkar er að þú, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra, og ríkisstjórnin öll, fordæmi þjóðarmorð síonistanna á Palestínufólki, slíti stjórnmálasambandi við OG sniðgangi ísrael, krefjist þess að hjálpargögnum sé hleypt inn á Gaza og að Ísland gangi í lið með Suður-Afríku og öðrum ríkjum sem reka nú mál gegn þeim stríðsglæpamönnum sem stjórna landránsríkinu.

Að grípa EKKI til þessara ráðstafana er brot á þeim alþjóðalögum sem við höfum skuldbundið okkur sem sjálfstætt ríki að hlýta, svo þögn yfirvalda hér er algjörlega óásættanleg og gerir okkur einfaldlega samsek í þjóðarmorðinu!

BÖRNIN Á GAZA ERU OKKAR BÖRN!

LIFI FRJÁLS PALESTÍNA!

AÐGERÐIR STRAX!

Birtist fyrst á Facebook.

Höfundur

Scroll to Top