Þótt margir segi mér að umfjöllun íslenskra fjölmiðla um átökin í Palestínu og Ísrael sé hlutlausari og réttlátari í dag en hún var fyrir nokkrum árum, þegar fyrri Intifada uppreisn Palestínumanna stóð yfir, er ég alls ekki sáttur. Þó fréttir frá svæðinu litist ef til vill minna af áróðri Ísraela, blaðamenn virðist almennt sæmilega upplýstir og athyglinni sé stundum beint að málstað Palestínumanna er ýmislegt í ólagi. Fjölmiðlar hérlendis fylgja sömu línu og flestir fjölmiðlar á Vesturlöndum, þar sem ýmsu sem viðkemur óhæfuverkum Ísraela í Palestínu er sleppt og oft látið í það skína að barátta Palestínumanna byggist á hryðjuverkum á meðan Ísraelar reyni að viðhalda stöðugleika á svæðinu.
Það vantar ekki að nóg sé fjallað um nýjustu uppreisn Palestínumanna og átökin á herteknu svæðunum í fjölmiðlum. Nánast daglega er farið yfir það hve margir hafi verið skotnir og særðir síðasta sólarhringinn og smám saman verður maður ónæmur fyrir öllum þeim fjölda barna, unglinga og fullorðinna sem drepinn er og limlestur. Minna er hins vegar fjallað um ástæður átakana og þá staðreynd að uppreisn Palestínumanna beinist gegn kúgun og hernámi Ísraelsmanna í heimalandi þeirra sem staðið hefur yfir í 34 ár á Vesturbakkanum og Gazasvæðinu.
Einnig gengur umfjöllun fjölmiðlanna oft út á að allt byggist á því að Palestínumenn taki því sem Ísraelar bjóða í friðarumleitunum og gefi þar með eftir kröfur sínar um að fá aftur hluta af landi sínu (Vesturbakkinn og Gaza eru 22% af upprunalegri Palestínu) til umráða, að brottreknir Palestínumenn fái að snúa aftur til heimalands síns og að austurhluta Jerúsalems (sem ekkert ríki jarðar viðurkennir sem hluta af Ísrael) verði skilað. Í raun byggjast kröfur Palestínumanna einfaldlega á því að Ísraelar fari eftir alþjóðalögum og samþykktum S.þ. þar til friður verði saminn sé hins vegar sjálfsagt að Palestínumenn hafi sig hæga og spilli ekki friðarferlinu með uppþotum og hryðjuverkum. Palestínska þjóðin er ekki að ana út í andspyrnu við ofurefli Ísraela að gamni sínu. Þjóðin hefur fengið nóg af hernáminu og rís því upp gegn kúgurum sínum.
Það er athyglisvert að fylgjast með því orðalagi sem fjölmiðlar nota þegar fjallað er um átökin í Palestínu og Ísrael. Á meðan Palestínumenn eru „skotnir til bana“ eða „felldir“ af „Ísraelskum öryggisveitum“ eða hermönnum eru Ísraelsmenn án undantekninga „myrtir“ . Einnig er gerður mikill munur á óhæfuverkum Ísraela og Palestínumanna. Það skiptir litlu máli hve hart Ísraelska hernámsliðið gengur gegn óbreyttum borgum og hversu marga þeir skjóta, limlesta eða sprengja m.a. með eldflaugaárásum úr herþyrlum og sprengjuvörpum á íbúðarbygðir. Talað er um „aðgerðir Ísraelsmanna“ eða „harðar aðgerðir“ þegar hrottaskapurinn er hvað mestur. Á meðan eru árásir palestínskra hópa, sem stimplaðir eru sem „öfgamenn“ á íbúðabyggðir í Ísrael kölluð „hryðjuverk“.
Mótmælin í Reykjavík
Þegar fyrstu mótmælin gegn fjöldamorðunum í Palestínu og Ísrael voru haldin hér á landi um miðjan október 2000 höfðu rúmlega 70 Palestínumenn verið myrtir. Viku síðar, við næstu mótmælastöðu, voru morðvígin orðin 90. Margir fjölmiðlar sáu sér ekki fært að birta tilkynningu eða segja frá fyrirhuguðum mótmælum og reyndist vera minna mál að lýsa eftir vitnum af árekstri á kyrrstæðri bifreið en að láta fólk vita af mótmælum gegn voðaverkum Ísraelsmanna. Ekki þýðir að vera bitur út af því, enda tókust báðar mótmælagöngurnar mjög vel. Verra er hins vegar hvernig umfjöllun fjölmiða um mótmælin var háttað.
Í fyrri mótmælunum kveikti ungur Palestínumaður í eftirlíkingu af ísraelska fánanum. Hann er búsettur á Íslandi og horfir á fjölskyldu sína og vini þjást við hernám Ísraela í heimalandi sínu. Fyrir vikið gerðu langflestir fjölmiðlar mótmælunum skil með ósmekklegri æsifréttamennsku og Sjónvarpið sagði í inngangi fréttar um þau að nú væru átökin á Vesturbakkanum og Gaza komin til Íslands. Hvað er að gerast?! Eru morð og limlestingar á fólki allt í einu orðin sambærileg við fánaíkveikju á Laugaveginum?
Þar sem kröfur í báðum mótmælunum, fyrir sjálfsögðum sjálfsákvörðunarrétti Palestínumanna og gegn fjöldamorðum Ísraelshers, komust ekki almennilega til skila í fjölmiðlum er rétt að þær komi fram hér. Kröfurnar voru, og eru enn, þessar:
- „Að Ísraelsstjórn stöðvi blóðbaðið þegar í stað!“
- „Að Ísrael dragi her sinn til baka og skili öllum herteknum svæðum, þar á meðal Jerúsalem!“
- „Að palestínskir flóttamenn fái að snúa heim og fái skaðabætur fyrir það sem þeir hafa misst!“
- „Að allir pólitískir fangar verði tafarlaust látnir lausir!“
- „Að gengið verði til samninga um raunverulegan frið sem byggist á tilverurétti beggja þjóða, ályktunum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalögum!“
Á síðari fundinum var því bætt við að „ríkisstjórn Íslands slíti öll tengsl sín við Ísrael.“
Birtist fyrst í Frjáls Palestínu.