Áskorun til ríkisstjórnarinnar

Félagið Ísland-Palestína áréttar ályktun aðalfundar félagsins frá 21. mars 2007 og skorar á ríkisstjórnina að viðurkenna þegar í stað þjóðstjórn Palestínumanna á herteknu svæðunum.

Utanríkisráðherra hefur lýst vilja sínum til að taka upp eðlilegt stjórnmálasamband og forsætisráðherra hefur sagt að Íslendingar vilji hjálpa til í Palestínu.

Skoðanir okkar á einstökum flokkum og stjórnmálaöflum í Palestínu geta ekki ráðið því hvort haft er eðlilegt stjórnmálasamband við löglega og lýðræðislega kjörin stjórnvöld. Slíkt væri alger vanvirðing við sjálfsákvörðunarrétt þjóðar sem okkur ber skilyrðislaust að virða.

Við hljótum að virða niðurstöður frjálsra og lýræðislegra kosninga. Það er í samræmi við samhljóða ályktun Alþingis frá 18. maí 1989, þar sem meðal annars er kveðið á um að virða beri sjálfsákvörðuarrétt palestínsku þjóðarinnar. Ennfremur ber að líta til þess að þjóðstjórnin sem er tekin við forystu palestínsku stjórnvaldanna stendur á mjög breiðum grunni og styðst við öll stjórmálöfl sem kjöri náðu til löggjafarþingsins, stór og smá. Að hafna samskiptum við þjóðstjórnina jafngildir að hafna rétti palestínsku þjóðarinnar til sjálfsákvörðunar og í raun að hafna tilverurétti Palestínu.

Með því er líka verið að taka þátt í pólitískri og efnahagslegri einangrun Palestínu og auka enn á áþján og hörmungar íbúa herteknu svæðanna. Slíkt má ekki viðgangast lengur. Utanríkisráðherra og ríkisstjórn Íslands verða þegar í stað að fara að fordæmi Norðmanna og viðurkenna þjóðstjórnina og aflétta viðskiptabanni gagnvart Palestínu.

Reykjavík, 7. maí 2007

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top