Félagið Ísland-Palestína skorar á ríkisstjórn Íslands að mótmæla kröftuglega aðför Ísraelsstjórnar að mannréttinda og hjálparsamtökum Palestínu. Ríkistjórn Ísraels hefur ráðist gegn sex palestínskum samtökum og bannað starfsemi þeirra undir því yfirskyni að samtökin tengist hryðjuverkum.

Samtökin sem um ræðir eru:
ADDAMEER (arabíska fyrir samvisku) eru óháð mannréttindasamtök sem styðja palestínska pólitíska fanga sem vistaðir eru í ísraelskum og palestínskum fangelsum. ADDAMEER voru stofnuð árið 1991 af hópi aðgerðasinna sem hafa áhuga á mannréttindum og býður pólitískum föngum ókeypis lögfræðiaðstoð, talar fyrir réttindum þeirra á innlendum og alþjóðlegum vettvangi og vinnur að því að binda enda á pyntingar og önnur brot á réttindum fanga með eftirliti, lagalegum aðferðum og samstöðuherferðum.
Al-Haq eru sjálfstæð palestínsk óháð mannréttindasamtök með aðsetur í Ramallah á Vesturbakkanum. Samtökin voru stofnuð árið 1979 til að vernda og efla mannréttindi og réttarríkið á hernumdu landsvæðunum í Palestínu og hafa stöðu ráðgjafasamtaka við Efnahags- og félagsráð Sameinuðu þjóðanna.
Bisan samtökin fyrir rannsóknir og þróun (Bisan Center for Research and Development) eru óháð félagasamtök. Samtökin hafa í heiðri lýðræðisleg og framsækin gildi. Bisan var stofnað árið 1989. Bisan samtökin vinna sífellt að því að auka baráttuþrek Palestínumanna og leggur mikið af mörkum til að byggja upp skilvirkt lýðræðislegt borgaralegt samfélag.
DCIP (Defence for Children International – Palestine) eru samtök til varnar börnum. Samtökin voru stofnuð 1991. DCIP eru sjálfstæð, staðbundin palestínsk mannréttindasamtök sem leggja áherslu á að verja og efla réttindi barna sem búa á Vesturbakkanum, í Austur-Jerúsalem og á Gazaströndinni.
Samband palestínskra kvennanefnda (Union of Palestinian Women Committees) var stofnað árið 1980 með það að markmiði að styrkja palestínskar konur á öllum stigum og leggja sitt af mörkum í þjóðarbaráttu Palestínumanna gegn ólöglegu hernámi Ísraelshers á palestínsku svæði.
Samband landbúnaðarvinnunefnda (The Union of Agricultural Work Committees UAWC) eru skráð sem frjáls landbúnaðarsamtök samkvæmt lögum Palestínumanna. Sambandið er talið ein stærsta landbúnaðarþróunarstofnun í Palestínu, stofnuð árið 1986 af hópi búfræðinga. UAWC var stofnað af sjálfboðaliðum og myndaði landbúnaðarnefndir á Vesturbakkanum og Gaza til að aðstoða bændur og hjálpa þeim við að hrinda í framkvæmd áætlunum sínum og samfélagsstarfsemi.
Af þessum upplýsingum er ljóst að aðför Ísraelsstjórnar að þessum samtökum er ólíðandi og ber stjórnvöldum á Íslandi, sem árið 2011 viðurkenndu ríki Palestínumanna, að fordæma þessa of beldisaðgerð sem stríðir gegn mannréttindum sem allir menn skulu njóta.
Félagið Ísland-Palestína.
Birtist fyrst í Frjáls Palestína.