Frá stjórn félagsins:
Stjórn félagsins hefur haldið sjö fundi og sent frá sér fjórar ályktanir og yfirlýsingar til fjölmiðla. Stærsta verkefni vetrarins hefur verið undirbúningur að heimsókn Makhloufs, sendifulltrúa PLO til Íslands, sem sagt er frá á öðrum stað í blaðinu.
Stjórnin hefur vakið athygli á tvöfeldninni sem gætt hefur hjá stórveldunum varðandi hernám Kúveit annars vegar og hernám Palestínu hins vegar. Við höfum einnig freistað þess að afhjúpa áróðurinn gegn PLO og leiðrétta rangfærslur um afstöðu Palestínumanna til hernáms Kúveit.
Formaður félagsins sendi aðalritara Sameinuðu þjóðanna áskorun 12. apríl. í bréfinu var minnt á viðbrögð Öryggisráðsins gagnvart brotum Íraks á alþjóðalögum og höfð uppi sú krafa, að Öryggisráð Sameinuðu þjóðana verði sjálfu sér samkvæmt og framfylgi sínum eigin ályktunum varðandi Ísrael. Samhljóða bréf voru send til fastafulltrúa í Öryggisráði S.Þ. Hér er um að ræða alþjóðlegt átak þeirra heildarsamtaka sem við eigum aðild að og njóta viðurkenningar S.Þ. Elías Davíðsson, ritari félagsins, hefur þrisvar sótt ársfundi þeirra í Genf.

Síðasta yfirlýsingin var send út 15. apríl, vegna tilrauna ísraelskra og bandarískra yfirvalda til að grafa undan tilverurétti palestínsku þjóðarinnar og sniðganga forystu hennar. Þar var áréttuð staða Frelsissamtaka Palestínumanna (PLO) og sú staðreynd að PLO er viðurkennd af öllum Palestínumönnum, hvar sem þeir búa, og af yfirgnæfandi meirihluta ríkja heims, sem málsvari palestínsku þjóðarinnar.
Minnt var á, að öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, að tveimur undanskildum (Bandaríkjunum og Ísrael) hafa viðurkennt rétt palestínsku þjóðarinnar til sjálfsákvörðunar og nauðsynina á alþjóðlegri friðarráðstefnu.
Félagsmenn létu til sín taka á baráttudegi verkalýðsins 1. maí. Gengið var undir fána Palestínu og fjölriti var dreift í 1000 eintökum, þar sem annars vegar rakin píslarganga Palestínumanna frá 1947-1991 og hins vegar voru kynnt markmið félagsins og fólki boðin aðild. Fjölmargir nýir félagar gengu í félagið.
Birtist í Frjáls Palestína.

