Arafat til Íslands

„Nú er PLO búið að vera.“ „Jasser Arafat fer beinustu leið á öskuhauga sögunnar.“ Slíkar fullyrðingar voru ekki ótíðar í kjölfar Persaflóastríðsins. Hverjar eru skýringarnar á þessum fullyrðingum? Við hvaða rök styðjast þær?

Næsta skref gæti verið að bjóða forseta Palestínu til Íslands. Full viðurkenning á ríki Palestínumanna er verðugur skerfur Íslands til friðsamlegrar lausnar á grundvallarvanda Austurlanda nær.

Veigamikill þáttur í áróðurstríði Bandaríkjastjórnar og Ísraels, ekki síst eftir að Persaflóadeilan hófst, hefur verið sá, að freista þess að klekkja á málstað Palestínumanna og eina réttmæta fulltrúa þeirra, Frelsissamtökum Palestínu (PLO). Það fór ekki hjá því að helsta skotmark þessa óvinafagnaðar yrði Jasser Arafat, réttkjörinn forseti Palestínu og sameiningartákn palestínsku þjóðarinnar.

Að vanda var ekki skirrst við að haga staðreyndum í þágu áróðursmarkmiða stríðsins. Eftir að Írak hafði ráðist inn í Kúveit og innlimað þetta nágrannaríki í bága við alþjóðalög var látlaust dregin upp sú mynd að Palestínumenn styddu gerræði og grimmdarverk Íraksstjórnar. Engum var þó betur kunnugt um afstöðu PLO en Bandaríkjastjórn. Erindrekar hennar voru önnum kafnir í Arabaríkjunum við að grafa undan tilraunum leiðtoga Palestínumanna til að finna friðsamlega lausn á Persaflóadeilunni.

PLO gegn hernámi Kúveit

Afstaða PLO var frá upphafi ljós. Samtökin tóku skýlausa afstöðu gegn hernámi Íraka í Kúveit. Jasser Arafat og samstarfsmenn hans létu engum steini óvelt til að hindra þessa valdbeitingu. Eftir að hún var orðin að veruleika 2. ágúst 1990, héldu forystumenn Palestínu ótrauðir áfram tilraunum sínum til að fá Íraka til að hverfa frá Kúveit og lögðu fram tillögur um friðsamlega lausn á deilumálum Arabaríkjanna.

Friðarviðræður

Það þolir enga bið að finna lausn á deilum Ísraela og Araba og þá fyrst og fremst að binda enda á hernám Ísraels á löndum Palestínumanna á Vesturbakkanum, Gazasvæðinu og öðrum nágrannalöndum. Lausn á þessu máli er auðfundin. Hún liggur m.a. fyrir í ályktunum Öryggisráðsins frá árunum 1947, 1949, 1967 og 1973.

Ósennilegt er hins vegar að þær friðarviðræður sem hófust í Madrid á síðasta ári að frumkvæði Bandaríkjastjórnar, leiði til árangurs. Í þeim hefur verið látið undan Ísraelsstjórn og gengið fram hjá mikilvægasta málsaðilanum að flestra mati. Eina lögmæta fulltrúa palestínsku þjóðarinnar, Frelsissamtökum Palestínu, var ekki boðin bein aðild. Fulltrúarnir frá herteknu svæðunum hafa að sönnu ekki látið kyrrt liggja að þeir tala fyrir hönd PLO, en fráleitt var að láta Ísraelsstjórn komast upp með að setja slík skilyrði. Og ekki nóg með það. Ísraelar kröfðust þess líka að Sameinuðu þjóðirnar kæmu hvergi nærri og komust einnig upp með það. S.þ. fengu fyrir náð að senda áheyrnarfulltrúa! Þessar friðarviðræður eru því langt í frá að vera sú alþjóðlega ráðstefna um frið í Austurlöndum nær sem Sameinuðu þjóðirnar hafa stefnt að.

Óskandi er að viðræðurnar skili einhverjum árangri og standi undir nafni, en til þess þarf að beita Ísraelsstjórn verulegum þrýstingi. Bandaríkjastjórn verður að sýna í verki að henni sé alvara og knýja Ísrael til að láta af hrokafullum yfirgangi sínum í garð Palestínumanna og annarra nágranna.

Sameinuðu þjóðirnar hafa frá upphafi viðurkennt rétt Palestínumanna til síns ríkis. Sjálfsákvörðunarréttur þeirra er ekkert samningsatriði frekar en annarra þjóða, hann grundvallast á stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Mikill meirihluti þjóða heims viðurkennir Palestínuríkið og PLO sem hinn eina réttmæta fulltrúa palestínsku þjóðarinnar. Engin vafi leikur á því að Frelsissamtökin njóta stuðnings meginþorra Palestínumanna, hvort sem er á herteknu svæðunum, í flóttamannabúðum nágrannaríkjanna eða í öðrum byggðum þessa fólks sem hrakist hefur frá heimalandi sínu.

Viðurkenning Palestínu

Íslendingar áttu veigamikinn þátt í því þegar Sameinuðu þjóðirnar ákváðu árið 1947 að skipta Palestínu upp í tvö ríki. Ísland hefur frá upphafi viðurkennt annað þessara ríkja og heldur uppi stjórnmálasambandi við það. Íslensk stjórnvöld eiga aftur á móti eftir að viðurkenna Palestínu. Jákvætt skref í þá átt var stigið 18. maí 1989, þegar Alþingi samþykkti samhljóða þingsályktunartillögu frá utanríkismálanefnd, þar sem áhersla var lögð á að viðurkenna bæri „sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis“. Kveðið var á um „rétt palestínskra flóttamanna til snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna“. Þá taldi Alþingi að Ísland ætti að hafa „vinsamleg samskipti við Frelsissamtök Palestínu, PLO“.

Friðarráðstefna á Íslandi

Fyrrum forsætisráðherra Íslands þáði árið 1989 boð um að heimsækja forseta Palestínu, Jasser Arafat, í Túnis, þar sem útlagastjórnin hefur aðsetur. Steingrímur Hermannsson sýndi lofsvert frumkvæði í að uppfylla þær skyldur sem Íslendingar hafa gagnvart palestínsku þjóðinni. En meira þarf til. Stjórnmálasamband ber að taka upp við Palestínu. Næsta skref í þá átt gæti verið að bjóða forseta Palestínu til Íslands. Full viðurkenning á ríki Palestínumanna er verðugur skerfur Íslands til friðsamlegrar lausnar á grundvallarvanda Austurlanda nær. Ef íslensk stjórnvöld stigu það skref fyrst Norðurlanda yrði tillaga fyrrum forsætisráðherra um Ísland sem ráðstefnustað fyrir alþjóðlega friðarráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila að raunhæfum valkosti. Alþingi hefur lýst yfir stuðningi við kröfuna um að slík ráðstefna verði tafarlaust kölluð saman.

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er læknir, formaður Félagsins Ísland Palestína (1991-2016) og heiðursborgari í Palestínu (frá 2015).

Scroll to Top