Útifundur var haldinn á Lækjartorgi í dag 20. desember vegna ástandsinis í Palestínu. Fundurinn var haldinn á vegum Félagsins Ísland-Palestína og með stuðningi stjórnmálaflokka, Alþýðusambands Íslands og BSRB. Um 200 manns tóku þátt. Ávörp fluttu alþingismennirnir Steingrímur J. Sigfússon formaður VG og Þórunn Sveinbjarnardóttir frá Samfylkingunni. Fundarstjóri var Sveinn Rúnar Hauksson læknir, formaður FÍP. Kröfur dagsins voru: Stöðvið Sharon – hernáminu linni – sjálfstæð Palestína. Sú fyrsta beindist sérstaklega að Bandaríkjastjórn og gengu fundarmenn að bandaríska sendiráðinu í fundarlok þar sem eftirfarandi ályktun var afhent:
„Útifundur í Reykjavík, haldinn á Lækjartorgi 20. desember 2001 skorar á Bandaríkjastjórn að axla ábyrgð sína í Palestínumálinu og stöðva árásir Sharons og herja hans á varnarlausan almenning herteknu svæðanna. Enginn annar aðili er í aðstöðu til þess að knýja fram breytta stefnu af hálfu Ísraels. Sameinuðu þjóðirnar eru lamaðar vegna neitunarvalds sem Bandaríkjastjórn hefur beitt hvað eftir annað og þannig auðveldað Ísraelsstjórn að halda ófriðnum áfram. Nú síðast var ekki farið fram á annað en að eftirlitsmenn á vegum SÞ fengju að fylgjast með því sem er að gerast. Ísrael neitar og Bandaríkjastjórn gerir ekki annað en að framfylgja stefnu Sharons í Öryggisráðinu. Palestínumenn hafa engan her og eiga þess vegna allt undir friðsamlegri lausn, öðruvísi en í friði geta þeir ekki byggt upp ríki farsældar, lýðræðis og mannréttinda. Ofbeldinu verður að linna en það gerist ekki öðru vísi en að grundvallarbreyting verði knúin fram á stefnu Ísraels og að þetta ríki sem er beinlínis afkvæmi Sameinuðu þjóðanna söðli um og gerist löghlýðinn borgari í samfélagi þjóðanna. Hernáminu verður að linna, skila verður öllu landi sem hertekið var árið 1967, þannig að palestínska þjóðin fái notið réttar síns, eins og hver önnur þjóð, í samræmi við alþjóðalög og ályktanir Sameinuðu þjóðanna, til sjálfsákvörðunar og til að stofna sjálfstætt ríki.
Ofbeldinu verður að linna en það gerist ekki öðru vísi en að grundvallarbreyting verði knúin fram á stefnu Ísraels og að þetta ríki sem er beinlínis afkvæmi Sameinuðu þjóðanna söðli um og gerist löghlýðinn borgari í samfélagi þjóðanna.
Tryggja verður rétt palestínskra flóttamanna til eigna sinna og til að snúa aftur til fyrri heimkynna. Palestínumenn, sem í fyrstu vildu ekki sætta sig við að 55% af landi þeirra væri tekið til að stofna ríki gyðinga í samræmi við ályktun SÞ frá árinu 1947, hafa fyrir löngu sæst á tilvistarrétt Ísraelsríkis. Og nú er ekki einungis um upphaflega svæðið að ræða heldur líka svæðin sem hernumin voru á árunum 1948–´49. Þannig er gert ráð fyrir að Ísrael ráði yfir 78% af landi Palestínu eins og það var allt til ársins 1947. Sjálfstætt ríki Palestínu sem nú er á dagskrá verður einungis á 22% landsins, það er á Gaza og Vesturbakkanum að meðtalinni Austur-Jerúsalem. Sharon og aðrir herforingjar sem nú eru við völd í Ísrael voru á móti Oslóarsamkomulaginu. Þeir hafa aldrei sýnt áhuga á réttlátum friði er byggi á alþjóðarétti og lögum. Nú þegar Arafat forseti palestínsku þjóðarinnar hefur bæði grátbænt hana og fyrirskipað að engum vopnum skuli beitt gegn hernámsliðinu, enda gefi það hernámsliðinu aðeins tilefni til enn frekari blóðsúthellinga, þá er svar Sharons að senda dauðasveitirnar á vettvang og taka af lífi fleiri börn og fjölskyldufeður. Þetta verður að stöðva. Fundurinn krefst þess af Bandaríkjastjórn að hún geri allt sem í hennar valdi stendur til að stöðva Sharon, þannig að blóðbaðinu linni og endir verði bundinn á gagnkvæm hermdarverk. Síðan verður að knýja Ísraelstjórn til að draga her sinn til baka og lýsa því yfir að hún muni viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu með landamærunum eins og þau voru fyrir stríðið 1967. Þá kemst á vopnahlé og raunverulegar friðarviðræður geta hafist.
Berist til forseta Bandaríkjanna og ríkisstjórnar.
Birtist í Frjáls Palestína.