Mótmæli í tilefni komu Shimon Peres
Mótmælafundur var haldinn á Lækjartorgi föstudaginn 20. ágúst 1993 kl. 4 síðdegis, í tilefni af komu Shimon Peres, utanríkisráðherra Ísraelsríkis. Fundurinn var haldinn til að knýja á um, að Ísrael virði mannréttindi, alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðanna.
Ræðumenn voru Árni Ragnar Árnason alþingismaður og Benedikt Davíðsson forseti Alþýðusambands Íslands. Olga Guðrún Árnadóttir las Ijóðið Slysaskot í Palestínu eftir Kristján frá Djúpalæk. Fundarstjóri var Kristín Ástgeirsdóttir alþingiskona. Fundurinn samþykkti meðfylgjandi ályktun sem afhend var forsætisráðherra, rétt áður en fundur hans með utanríkisráðherra Ísraels hófst. Félagið Ísland-Palestína stóð fyrir útifundinum með stuðningi samtaka launafólks.
Mótmælafundur, haldinn á Lækjartorgi 20. ágúst 1993, í tilefni af komu utanríkisráðherra Ísraels, vekur athygli á síendurteknum brotum Ísraelsstjórnar á mannréttindum og alþjóðalögum. Framferði Ísraels gagnvart Palestínumönnum og árásir á nágrannaríki hafa vakið óhug um allan heim. Stjórn Ísraels sendi 415 óbreytta borgara í útlegð fyrir síðustu jól og hunsar enn ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að leyfa þeim öllum að snúa heim tafarlaust.
Fundurinn fer þess á leit við forsætisráðherra Íslands að hann krefjist þess af Shimon Peres, að Ísrael fari að alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna og:
- viðurkenni sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna og þar með rétt þeirra til sjálfstæðs ríkis (sbr. ályktun SÞ nr. 181 frá árinu 1947),
- skili herteknu svæðunum (sbr. ályktun öryggisráðsins nr. 242 frá 1967 og nr. 338 frá 1973),
- leyfi flóttamönnum og útlögum að snúa heim (sbr. ályktun SÞ frá 1949 og árlega síðan), og
- hætti að drepa börn og varnarlausa borgara og virði Barnasáttmála og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna (sbr. ályktun Alþingis 18. maí 1989).
Birtist í Frjáls Palestína.
