Ástandið á herteknu svæðunum
Útlagarnir hafa ekki enn fengið að snúa heim. Það er engum efa undirorpið að verknaður Rabins, að láta ísraelsher ræna 413 Palestínumönnm af heimilum sínum 17. desember sl. og flytja þá með valdi burt úr sínu heimalandi, er brot á alþjóðalögum, bæði stríðsglæpur og herfilegt brot á mannréttindum þessara manna og fjölskyldna þeirra.
Fyrstu viðbrögð Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna voru í samræmi við það hversu alvarlegt þetta mál er. Í ályktun ráðsins númer 799 var þess krafist að mennirnir fengju að snúa tafarlaust til sinna heimkynna. Þessari ályktun hefur ekki verið framfylgt frekar en öðrum ályktunum sem snúa að Ísrael og hernámi þess á löndum Palestínumanna og nágrannaríkja. Það hefur hins vegar verið ömurlegt að horfa upp á það hvernig Öryggisráðið snýr blinda auganu að Ísraelstjórn og glæpum hennar gegn Palestínumönnum sem eru jafnframt glæpir gagnvart mannkyni öllu.

Enn einu sinni sýnir það sig að Öryggisráðið er fyrst og fremst klúbbur stórveldanna fimm sem hafa neitunarvald í ráðinu. Þar hefur Bandaríkjastjórn töglin og hagldirnar. Þegar umræður hófust um refsiaðgerðir til að knýja Ísraelsstjórn til að fara að alþjóðalögum, kom í Ijós, að Bandríkin voru enn einu sinni reiðubúin að beita neitunarvaldi sínu og gera Ísraelstjórn og hernum þannig keift að halda áfram kúgun sinni og grimmdarverkum.
FÍP skrifar Öryggisráðinu
Þann 22. febrúar 1993 ritaði formaður félagsins þáverandi forseta Öryggisráðsins bréf þar sem látin voru í Ijós djúp vonbrigði yfir vanrækslu Öryggisráðsins við að framfylgja eigin ályktunum, með tilliti til alvarlegra og viðvarandi brota Ísraels á mannréttindum, alþjóðalögum og samþykktum S.þ.
Tilefnið var að Öryggisráðið hafði í bréfi 12. febrúar hrósað Ísraelsstjórn fyrir að leggja til að hluti útlaganna fengi að snúa heim, en ekki allir, eins og Öryggisráðið hafði áður gert kröfu um.
Félagið hvatti til þess að Ísrael yrði beitt refsiaðgerðum til að knýja þarlend stjórnvöld til að hlíta ályktunum S.Þ.
Frá því er skemmst að segja að allt er við það sama í máli útlaganna sem enn fá að hírast uppi á heiðum í Suður-Líbanon. Það er huggun harmi gegn, hvernig þeir hafa sjálfir tekið á málum sínum. Við erfiðar aðstæður er samstaða þeirra góð og næsta er ótrúlegt, hvernig útlagarnir hafa lagt stund á uppbyggilega iðju. Hafa sumir stundað nám og þess jafnvel dæmi að menn hafi tekið próf á háskólastigi. Þeir munu allan tímann hafa gert ráð fyrir langri dvöl við þessar aðstæður. Palestínumenn þekkja núorðið við hverju er að búast af Ísraelstjórn, sem í skjóli Bandaríkjastjórnar fær að komast upp með hvað sem er. Forsetaskipti í Bandaríkjunum hafa síður en svo breytt því.
Tafið fyrir viðræðum
Afstaða Ísraelstjórnar gagnvart útlögunum hefur nú komið í veg fyrir áframhald viðræðna deiluaðila, sem halda áttu áfram í dag, 20. apríl, þegar þetta er ritað. Ólíklegt er annað en að Rabin hafi gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna er hann lét vísa 413-menningunum úr landi með þeim áburði að þeir tilheyrðu Hamas-samtökunum. Þau hafa barist gegn þátttöku í viðræðunum í Washington, sem PLO-samtökin hafa hins vegar átt aðild að, þótt óbein væri. 413-menningarnir urðu umsvifalaust að hetjum og hverjar sem stjórnmálaskoðanir þeirra eru, þá styrkti þetta mjög stöðu Hamas á herteknu svæðunum. Rabin virðist stjórnast af sömu hvötum og Shamir sem, eftir að hann lét af völdum, viðurkenndi að hafa ætlað að draga samningaviðræður á langinn í það óendanlega, a.m.k. í áratug.
Innilokun íbúanna
Í viðtali sem blaðið á við Salman Tamimi bendir hann á, að á meðan ranglæti viðgengst í heiminum verði ofbeldi heldur ekki útrýmt. Undirritaður lét líka í Ijós þá skoðun eftir ferð til herteknu svæðanna í maí 1990, að svona gæti ástandið ekki haldist. Þar gat að líta grímulaust ofbeldi tæknivædds hers gagnvart vopnlausu fólki, einkum börnum og unglingum, sem köstuðu grjóti til að mótæla hernáminu.
Ef Ísrael skilaði ekki herteknu svæðunum og hyrfi á brott með sinn her, þá hlyti að koma til vopnaðrar baráttu. Annað hvort yrði það skipulegur hernaður gegn hernámsliðinu undir forystu PLO, eða þá að út brytust óskipulegar skærur og hermdarverk.
Það síðarnefnda hefur gerst í auknum mæli. Intifada er langt frá því að vera dauð, enda þótt mikið sé gert til að loka fyrir fréttaflutning af uppreisninni, bæði með ritskoðun Ísraelstjórnar og hlýðni alþjóðlegu fréttastofanna við bandaríska utanríkisstefnu.
Nú hefur Rabin forsætisráðherra og yfirhershöfðingi fyrirskipað að herteknu svæðunum skuli alveg lokað. Ekki er nóg með að fólk komist ekki til vinnu, heldur hefur verið lokað fyrir viðskipti bæði til útlanda og innbyrðis á svæðunum. Þannig er Gaza lokað frá Vesturbakkanum og ekki nóg með það. Norðurhluti Vesturbakkans er afgirtur frá Suðurbakkanum því að helstu leiðir liggja í gegnum Jerúsalem sem er nú alveg lokuð af frá Vesturbakkanum.
Það hefur því aldrei verið Ijósara en nú, að stefna Ísraelstjórnar, hvort sem það er Begin, Shamir eða Rabin sem heldur um stjórnartaumana, er sú að gera herteknu svæðin að allsherjar fangabúðum. Allir framangreindir leiðtogar eru alræmdir hryðjuverkamenn sem hófust snemma til æðstu metorða í Ísrael. Þeir bera enga virðingu fyrir mannslífum, mannréttindum eða alþjóðalögum. Það er löngu sýnt. Spurningin er hins vegar, hversu lengi heimsbyggðin ætlar að horfa aðgerðarlaus upp á Ísraelstjórn murka lífið úr palestínsku þjóðinni.
Birtist í Frjáls Palestína.