Ala Alazzeh: Háskólamenntun í skugga landnemanýlendustefnu í Palestínu

Háskólastofnanir á hernumdu palestínsku svæðunum eru eitt dæmi um hvernig Palestínumenn byggja upp samfélagsstofnanir sínar frá grunni og ögra þannig skipulögðum aðgerðum sem miða að því að svipta þá réttindum og framkvæma markvissar þjóðernishreinsanir[1]. Til að skilja háskólamenntun í Palestínu þarf að skilja Palestínu og Palestínumenn í samhengi við landnemanýlendustefnu (e. settler colonialism), ekki endilega sem hernumið svæði heldur sem þolendur yfirráða og eyðileggingar sem er skipulagslega samofin landnemanýlenduverkefninu í Palestínu. Endanlegt markmið landnemanýlenduverkefnisins er ekki að friða heldur að útrýma[2]. Þetta felur í sér útrýmingu á líkamlegri tilvist Palestínumanna með þjóðarmorði, nauðungarflutningum, með því að gera þjáningar þeirra óbærilegar og með eyðileggingu menningarlandslags og samfélagsstofnana, þar á meðal háskólastofnana[3]. Þrjár megináskoranir steðja að palestínskri háskólamenntun í tengslum við landnemanýlenduskipulagið: afneitun lögmætis, einangrun og beinar árásir.

Ólíkt frjálslyndum ramma akademísks frelsis, og til að skilja samhengið, hafa palestínskir háskólar verið flokkaðir af yfirvöldum landnemanýlendunnar sem stjórnmálastofnanir sem ögra nýlendustjórn Ísraels. Nánar tiltekið eru þeir í orðræðunni staðsettir sem vettvangur fyrir ólögmætt „ofbeldi“ og stimplaðir sem „hryðjuverkastofnanir“. Slík orðræða, sem er haldið á lofti af ísraelskum embættismönnum og fjölmiðlum, er einnig tekin upp af vestrænum fjölmiðlum og svipta þar með palestínska háskóla stöðu sinni sem akademískar stofnanir. Þessi orðræða ruddi brautina fyrir árásir á og eyðileggingu palestínskra háskóla á Gasasvæðinu, þar sem litið var á þá sem „lögmæt“ hernaðarleg skotmörk.

Yfirráð yfir öllum landamærum er annar þáttur í samhenginu sem þarf að skilja sem nýlendutæki sem einangrar palestínska háskóla af ásettu ráði og sviptir þá möguleikum sínum til að tengjast og eiga samstarf við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir og fræðimenn[4]. Það er enginn raunhæfur farvegur fyrir palestínska háskóla til að taka á móti nemendum utan Palestínu, ráða akademískt starfsfólk eða jafnvel taka á móti gestafyrirlesurum[5]. Þetta hindrar sjálfræði háskólanna og gerir þá háða handahófskenndu valdi ísraelskra embættismanna yfir grundvallarákvörðunum um akademískt starfsfólk og nemendahópa. Þar að auki hefur orðræða Ísraels um afneitun lögmætis palestínskra háskóla skapað þrýsting á alþjóðlegar stofnanir um að fresta eða koma i veg fyrir akademískt samstarf og fjármögnunartækifæri[6].

FP Haskolamenntun i skugga landnemanylendustefnu
Ala Alazzeh starfar við Félags- og hegðunarvísindadeild, Birzeit-háskólans á Vesturbakkanum aalazzeh@birziet.edu

Nýlenduyfirráð yfir landamærum og skipting palestínsks landsvæðis í Vesturbakkann, Gasasvæðið, Jerúsalem og „48-svæðið“ (landsvæðið þar sem Palestínumenn búa innan landamæra Ísraels frá 1948), og dreifbýlið, kemur í veg fyrir að palestínskir háskólar geti þjónað öllum Palestínumönnum. Til dæmis hefur nemendum frá Gasasvæðinu verið neitað um leyfi til að stunda nám í háskólum á Vesturbakkanum (og öfugt) frá því snemma á tíunda áratugnum. Ísrael hefur í auknum mæli beitt ógnunarstefnu gagnvart Palestínumönnum í Jerúsalem og á „48-svæðinu“ til að koma í veg fyrir að þeir innritist í háskóla á Vesturbakkanum. Innan Vesturbakkans er rekin sú stefna að einangra palestínska bæi, þorp og borgir í eins konar gettó með kerfi lokaðra hliða (eftirlitsstöðva, herturna og girðinga) og árásir landtökufólks á vegum úti sem hindrar nemendur svo að þeir geti ekki innritast í háskóla. Þetta er skýr ásetningur; að einangra háskólana og svipta þá möguleikunum á fjölbreyttum nemendahópum[7].

Frá því að palestínsk háskólamenntun byrjaði að mótast hafa ísraelsk yfirvöld beitt palestínska háskóla ofbeldi með lokunum, pólitískum fangelsunum kennara og nemenda, árásum á háskólasvæði og hótunum. Þessar árásir miða að því að trufla lífið á háskólasvæðinu og þá samfellu sem er nauðsynleg fyrir vitsmunalegt og kennslufræðilegt umhverfi. Nemendur, kennarar og stjórnendur eru í stöðugri hættu og undir eftirliti á ferðum sínum til og frá háskólanum. Árásirnar eru mis ofbeldisfullar og eru opinberun á hervaldi og beinni ógnun. Þetta felur í sér árásir á háskólasvæði, innbrot á skrifstofur og í kennslustofur: líkamlegar árásir á öryggisverði háskólans, eyðileggingu á eignum háskólans og áberandi viðveru hermanna við hlið háskólans á meðan kennsla fer fram.

Menntun í palestínskum háskólum er ekki nám við lestur texta og að hlusta á fyrirlestra, heldur dagleg æfing, þar sem tekist er á hverjum degi við skipulögð hryðjuverk nýlendukerfisins sem við búum við.

Tilvísanir:
  1. Sjá: Baramki, Gabi. „Building Palestinian Universities under Occupation.“ Journal of Palestine Studies 17, nr. 1 (1987): 12-20, Eða Baramki, Gabi. Peaceful Resistance: Building a Palestinian University under Occupation. New York: Pluto Press (2010).
  2. Frá upphafi nýlenduvæðingar Palestínu, í gegnum Nakba 1948 og hernámið 1967, hefur meginmarkmið zionistahreyfingarinnar verið að framkvæma þjóðernishreinsanir á frumbyggjum Palestínu og ná yfirráðum yfir landinu til að stofna ríki eingöngu fyrir gyðinga. Samhliða ofbeldi og hryðjuverkum hefur ein aðferð verið kerfisbundin eyðilegging á lífvænlegu palestínsku samfélagi.
  3. Á Gasa hafa allir 12 háskólarnir verið algjörlega eyðilagðir, ásamt 63 öðrum menntastofnunum. Alls hafa 241 fræðimaður látið lífið og 1.466 særst, auk óþekkts fjölda nemenda. Fyrir nákvæma skráningu, sjá: https://gazaeducationsector.palestine-studies.org
  4. Sjá: https://www.birzeit.edu/en/news/birzeit-university-condemns-breach-academic-freedom-after-academics-forced-leave-palestine
  5. Sjá: https://www.adalah.org/en/content/view/9767
  6. Sjá til dæmis: https://www.thecrimson.com/article/2025/3/27/harvard-suspends-birzeit-partnership/
  7. Samræmingarskrifstofa aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum greinir frá því að í maí 2025 séu „94 eftirlitsstöðvar mannaðar allan sólarhringinn; 153 eftirlitsstöðvar mannaðar með hléum (þar af 45 með hliðum sem eru oft lokuð); 205 veghlið (þar af 127 sem eru oft lokuð); 101 línuleg lokun (svo sem jarðveggir og skurðir); 180 jarðvegshindranir; og 116 vegatálmar“. Sjá: https://www.unocha.org/publications/report/occupied-palestinian-territory/west-bank-movement-and-access-update-may-2025

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur starfar við Félags- og hegðunarvísindadeild, Birzeit-háskólans á Vesturbakkanum.

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top