AISHA – til varnar konum og börnum

Félagið Ísland-Palestína hefur um árabil haldið út neyðarsöfnun sem og ýmsa viðburði til styrktar þörfum verkefnum í Palestínu. Eitt þriggja höfuðverkefna Neyðarsöfnunarinnar síðustu árin hefur verið stuðningur við AISHA (e. survivor), samtök til varnar konum og börnum sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi og eða heimilisofbeldi.

AISHA rekur kvennahús sem er einskonar sambland af Stígamótum og Kvennaráðgjöfinni og býður jafnframt upp á starfsþjálfun. AISHA byggir á valdeflingu kvenna og var í upphafi samofið WEP (women empowerment program) hjá Geðhjálparsamtökunum á Gaza (GCMHP). Frá og með 1. janúar 2011 hefur AISHA verið rekið sem sjálfstætt félag, en byggir áfram á hugmyndafræði valdeflingar.

María M. Magnúsdóttir, helsti bakhjarl Maríusjóðs.

Stuðningur FÍP hófst formlega 10.10.10 en þá var Maríusjóðurinn stofnaður til styrktar AISHA og annarri starfsemi til stuðnings konum og börnum sem orðið hafa fyrir ofbeldi heima fyrir. Nafn Maríusjóðsins er tengt helsta bakhjarli neyðarsöfnunarinnar um árabil, Maríu M. Magnúsdóttur. María er nú háöldruð kona á Blönduósi, 99 ára gömul, en hún starfaði í hálfa öld sem hjúkrunarfræðingur í Bretlandi. Það vildi svo skemmtilega til að formaður félagsins var staddur á Gaza í október 2010 og stofnaði sjóðinn á afmælisdegi Maríu 10. október sem er líka Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn.

Til AISHA koma 60 konur fimm daga vikunnar í 6 mánuði. Þær fá bæði einstaklingsráðgjöf og taka þátt í hópastarfi. Boðið er upp á lögfræðilega ráðgjöf og félagsráðgjöf. Einnig fara starfskonur AISHA í heimavitjanir og kanna aðstæður fjölskyldna, en konurnar eru yfirleitt fráskildar. Ofbeldi sem konurnar hafa orðið fyrir er oftast af hálfu eiginmanns en einnig koma tengdamæður við sögu en eins og kunnugt er flytja konur sem giftast gjarnan inn á heimili foreldra eiginmannsins.

Starfsendurhæfing er í nokkrum deildum og er boðið upp á snyrtifræði, keramik og aðra listsköpun og fjölbreyttar hannyrðir. Tölvunámskeið voru í boði en þau hafa legið niðri eftir að AISHA flutti í nýtt húsnæði þar sem tölvurnar voru úr sér gengnar og ekki hefur tekist að fjármagna kaup á nýjum. Í húsinu fara fram margs konar námskeið í sérstökum sal á fyrstu hæð sem nefnist Maríusalur (Maria Hall). Maríusjóðurinn staðið undir allri innréttingu og húsgögnum þar. AISHA er einnig með fræðslustarfsemi í gangi víðar á Gaza svæðinu og hefur samstarf við önnur kvennasamtök og Geðhjálparsamtökin. Tvö kvennaathvörf eru starfandi, annað á vegum frjálsra félagasamtaka sem nefnist Hayat, en hitt á vegum yfirvalda. Erfiðlega hefur gengið hjá þeim fyrrnefndu að fá leyfi yfirvalda til að konur og börn geti gist í athvarfinu, sem er eðlilega mikið vandamál.

Mikið er óunnið í málefnum kvenna hvað kynferðislegt ofbeldi snertir, meðal annars á sviði löggjafar. Það er til mynda ekki til neitt í lögum sem heitir nauðgun í hjónabandi og kynferðislegt ofbeldi er ekki skilgreint sem nauðgun nema konan sé undir vissum aldri. Konan velur oft þögnina, því að hún treystir sér ekki til að snúa sér til lögreglu eða dómstóla. Oft er lögreglan áhugalaus um ákærurnar. Þá getur konan snúið sér til muhktars, trúarlegs kennimanns, sem getur haft áhrif á að mál fari til dómstóla.

Tengsl eru á milli hernámsins og heimilisofbeldisins. Kúgunin sem stafar af hernáminu og atvinnuleysið sem herkvíin um Gaza veldur, er gróðrastía fyrir vanmátt sem aftur kallar fram ofbeldi. Mikil þörf er á vakningu á þessu sviði þannig að þögnin verið rofin um ofbeldið sem á sér stað gagnvart konum og börnum. AISHA gegnir miklu hlutverki í þessu sambandi rétt einsog Stígamót, Kvennaathvarfið og Kvennaráðgjöfin hafa gert hér á landi.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top