Árni Ragnar Árnason, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi, ferðaðist til herteknu svæðanna, Ísrael og Jórdaníu með þingmannasamtökum um samvinnu Evrópu- og Arabaþjóða (PAEAC) í samstarfi við Hjálparstofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir flóttamenn frá Palestínu (UNRWA). Þetta var 22. febrúar – 1. mars 1992, eða fyrir rúmu ári. Ein grein eftir Árna birtist í síðasta tölublaði af Frjáls Palestína (des.’92) þar sem hann lýsir aðkomunni til Gaza og frásögn hótelstýrunnar þar sem hann gisti á lífinu á Gasa undanfarin ár. Greinin sem hér birtist er beint framhald á fyrri frásögn, segir frá því sem gerðist daginn eftir. Hún er skrifuð fyrir rúmu ári en svo virðist sem fátt af því sem hér er lýst hafi breyst síðan þá. (Ritstjórn.)
Flóttamenn
Snemma mánudagsins 24. febrúar komum við í höfuðstöðvar Flóttamannahjálpar S.þ. í Palestínu (UNRWA) á Gaza-ströndinni, sem eru í Gaza-borg, og áttum fund með Klaus Worm, þýskum yfirmanni UNRWA þar. Á Gaza, sem er aðeins 44 km langt og 8-12 km breitt eða aðeins 360 km2, bjuggu um 200 þúsund manns þegar heimstyrjöldinni síðari lauk. Nú búa á Gaza um 530 þúsund flóttamenn, þar af um 55% í 8 flóttamannabúðum, og alls um 770 þúsund íbúar. Flóttamenn eru þeir sem flúðu hingað í styrjöldinni 1948 frá öðrum hlutum Palestínu – þeim sem gyðingar náðu þá á sitt vald og eru nú í Ísrael.
UNRWA starfrækir í öllum búðunum skóla og heilsugæslu, og á svæðinu sjúkrahús sem þjóna þeim öllum, veitir flóttamönnum félagslega þjónustu, starfsþjálfun, endurhæfingu og sérstaka þjálfun fyrir bæklaða, sem eru mjög margir vegna afleiðinga stríðsástandsins og mjög tíðra árekstra. UNRWA rekur kvennamiðstöðvar, veitir lögfræðiaðstoð og aðstoð við að koma á fót atvinnurekstri eða tekjuöflun – önnur slík á sér ekki stað hér. Starfsmenn UNRWA reyna að draga úr árekstrum við hernámsliðið, jafnvel ganga á milli ef til árekstra kemur. Allir skólar eru tvísetnir, jafnvel þrísetnir. Ísraelar banna skólahald suma daga af öryggisástæðum, þannig glötuðust um 40% skóladaga á sl. ári. Ísraelar hafa einnig lokað skólum – nú er 6 skólum UNRWA lokað, og er þá brugðið á það ráð að kenna í moskum, sem eru einu miðstöðvar Palestínumanna sem leyfðar eru. Öllum menningar-, félags- og æskulýðsmiðstöðvum þeirra hefur verið lokað – eða ekki leyft að opna þær sem nýlegar eru. Opinber þjónusta Palestínumanna sjálfra er lömuð og leita þeir því til UNRWA sem bregst við eftir getu. Um 15 þúsund fjölskyldur flóttamanna fá daglega mat, teppi eða aðra neyðarhjálp. Útgjöld UNRWA á Gaza eru um 60 milljónir dollara á ári (um 20 kr. á dag á hvern flóttamann).
Olnbogabörn í sínum heimkynnum
Við ókum hringferð um Gaza, syðst um smáborgina Rafah með tugum þúsunda íbúa. Henni var skyndilega breytt þegar samdist með Ísraelum og Egyptum í Camp David eftir áralangt stríð. Þeir sömdu um ný landamæri og þau liggja um Rafah. Fjöldskyldur kallast á yfir einskismannsland og landamæragirðingar með varðturna á báða bóga – þar sem áður voru götur og hús. Íbúarnir voru einskis spurðir.

Við ókum nyrst um Jabalía þar sem flóttamannabúðir S.þ. eru margfalt stærri en þorpið sem fyrir var, og niður að sjó þar sem meðfærilegir fiskibátar fúna ónotaðir, því eigendurnir geta ekki greitt leyfisgjaldið sem hernámsliðið heimtar.
Við ókum með ströndinni og sáum á báða bóga til „landnámsbyggða“ Ísraels – þar eru um 1/6 af öllu Gaza-svæðinu „landnám“ innan hárrar gaddavírsgirðingar, með sérstaka girta hraðbraut út úr hernumda svæðinu að þjóðvegum Ísraels. Þar rísa nýtískuleg íbúðarhús, þar fá „landnemar“ nóg vatn til að vökva ekrur og garðlönd, trjágarðar undir gróðurhúsaþaki svo uppskera fáist líka þegar þurrkar og sól baka jörðina, og nægar nýjar vinnuvélar. Við sáum lúxushótel og baðstrandarstaði fyrir ferðamenn frá Vesturlöndum og „landnema aðeins“. Þau eru kynnt sem þau séu í vestanverðri Negeveyðimörkinni, en eru langt inni í herteknu landi, umkringd háum gaddavírsgirðingum, með vígvæddar varðstöðvar hermanna á hverju strái – ferðamönnum er kannski sagt að þeir séu lífverðir.
Undirokun á vinnumarkaði – þrælahald nútímans?
Á Gaza-ströndinni er nú 40-60% atvinnuleysi, svo tugir þúsunda vinnufærra manna eru án atvinnu, en atvinnumöguleikar þeirra eru sem láglaunavinnuafl fyrir atvinnuvegi og „landnámsbyggðir“ Ísraels. Eftir Persaflóastríðið jókst mjög atvinnuleysi því að í flóaríkjunum höfðu allmargir Palestínumenn unnið um árabil, en hafa síðan verið reknir þaðan og koma nú heim atvinnulausir. Það er óleysanlegt vandamál því fyrir var gífurlegt atvinnuleysi. Afkoma fólks á svæðinu hefur versnað gríðarlega því tekjur þessara manna komu áður nær óskertar heim til fjölskyldna þeirra og voru umtalsverðar. Þá hefur dregið mjög úr framlagi flóaríkja til UNRWA og Palestínu, sem áður var umtalsvert.
Framboð vinnuafls í Ísrael hefur aukist mjög vegna stöðugs og aukins innflutnings gyðinga frá öllum heimshlutum, einkum Sovétríkjunum fyrrverandi. Þeir ganga fyrir Palestínumönnum um atvinnu og taka jafn harðan betur launuðu störfin – svo tekjur Palestínumanna minnka og atvinnulausum fjölgar jafnt og þétt. (Nú hefur Palestínumönnum frá Gaza og Vesturbakkanum verið meinað að sækja vinnu til Ísraels, eftir að herteknu svæðin voru lokuð af 1. apríl sl. Innskot ritstjóra.)
Vítahringur hefndarstríðs og kúgunar

Palestínumenn hófu Intifada-uppreisnina 1987 vegna hertra aðgerða Ísraelsmanna á herteknu svæðunum og aukinnar eignaupptöku, einkum á jörðum og landi, en síðan hafa Ísraelar hert öryggisráðstafanir. Strangari reglur gilda um ferðir út af hernumdu svæðunum til vinnu eða til að leita atvinnu. Frá því Persaflóastríðið hófst hafa þær enn harðnað því meðan það stóð jukust viðsjár Palestínumanna og Ísraela.
Það nýjasta er að Palestínumenn á herteknu svæðunum þurfa að hafa vinnuleyfi, auk sérstaks ferðaleyfis og skírteinis um búsetu á herteknu svæði Ísraels. Ferðaleyfi fá þeir ekki sem eru á skrá fyrir ítrekuð mótmæli og andstöðu við hernaðaryfirvöldin á herteknu svæðunum. Vinnuleyfi fá þeir svo ekki nema að hafa ráðningarsamning hjá vinnuveitanda í Ísrael. Vanti eitthvað af þessu er viðkomandi réttlaus til að fara út af hernumdu svæði til vinnu. Finnist þeir utan herteknu svæðanna eftir að vinnudegi lýkur, eða eftir að ferðaleyfið tiltók, þá er viðkomandi fangelsaður þar til greiddir hafa verið 1.200 bandaríkjadalir (75.000 ísl. kr.) í sekt – fjármunir langt umfram getu venjulegrar Palestínufjölskyldu, svo fangelsunin stendur yfirleitt lengi.
Að undanförnu hefur öryggisástandið enn versnað og Ísrael enn hert tökin. Ekki líður svo vika að ekki komi til átaka við Ísraela, oftast við hersveitir þeirra. Meðal Palestínumanna hafa aukist árásir á þá sem ásakaðir eru um samstarf við Ísraela og átök ólíkra skoðanahópa Palestínumanna vaxa, t.a.m. vegna ágreinings um afstöðu til friðarviðræðnanna. Af og til verða árekstrar við „landnema“ og þeir leiða alltaf til mjög harða viðbragða Ísraelshers, því bæði stjórnmálamenn og herinn eru mjög viðkvæmir fyrir „landnámsbyggðunum“. Í ársbyrjun 1992 var fyrirmælum hermanna breytt og þeim gefnar frjálsar heimildir til að skjóta Palestínumenn. Ísraelar taka nú fleiri til yfirheyrslu, gera fleiri útlæga og halda fleirum föngum um sinn eða lengi án sakarefna. Í síðustu viku létust Palestínumenn í fangelsum Ísraels af afleiðingum pyntinga, rétt fyrir upphaf síðustu lotu friðarviðræðnanna var 12 Palestínumönnum vísað úr landi án sakarefna.
Allra slíkra atvika er hefnt – og hefndaraðgerðum aftur svarað með hernaðaraðgerðum. Ástandið er grimmilegur vítahringur aðgerða og gagnaðgerða – endalaust hefndarstríð og vígaferli.
Erfiðustu viðfangsefnin
Erfiðustu viðfangsefnin fyrir svæðið eru þessi:
- Fæðingartíðni er einhver hæsta í veröldinni – aðeins San Salvador er hærra. Á hverju ári koma 8-9 þúsund fleiri börn til skóla en árið á undan. Meðalfjöldi barna er 6-7 í hverri fjölskyldu, og stefnir fjölda íbúa í um 1- 1,2 milljónir um aldamót.
- Vatnslindir eru rýrar og aukast ekki í samræmi við fjölgun íbúa – og allar vatnslindir eru á valdi Ísraela. Þessu til viðbótar kemur „landnám“ Ísraela. Í lok síðasta árs voru þegar um 4.500 gyðingar í „landnámsbyggðum“ á Gaza – og sjáanlegt er að þeim fjölgar. Það má merkja af miklum nýbyggingum og öðrum framkvæmdum innan „landnámsbyggðanna“ og af nýjum „landnámsbyggðum“. Á síðasta ári höfðu Ísraelar lagt undir „landnámsbyggðir“ um 34% af öllu landi Gaza-strandarinnar og notuðu þær meira en 1/3 alls vatns á svæðinu.
- Atvinnuástand og innflutningur vinnuafls, sem gerð var grein fyrir hér að framan.
Gettóið Gaza
Örvænting Palestínumanna er mikil, einkum fólksins á Gaza-ströndinni. Því eru nánast allar bjargir bannaðar og framkoma Ísraela í þess garð er harðneskjuleg, niðurlægjandi og niðurbrjótandi.
Veturinn er gróskutíð í þessum heimshluta. Nú rotna ávextir á trjám og grænmeti í görðum. Ekki fást leyfi til útflutnings, og uppskeran er miklu meiri en fólkið torgar sjálft eða getur nýtt með sultun eða öðrum vinnsluaðferðum.
Hér að framan hefur verið sagt frá atvinnuástandinu, valdi Ísraela á vatnslindum og upptöku landareigna – en 95% af „landnámsbyggðum“ gyðinga eru á ræktarlöndum sem eru í einkaeign Palestínumanna.
Allir fjölmiðlar eru bannaðir, útvarp, sjónvarp, allar fréttir, dagblöð og tímarit. Aðeins veggjakrotið og samkomur í moskum eru eftir til að miðla tíðindum, skilaboðum og öðru markverðu. Og moskunum er lokað þegar slær í brýnu – þangað gætu þeir flúið.

Á Gaza hefur verið útgöngubann frá klukkan átta að kvöldi alla daga um árabil, og símasambandslaust við umheiminn – algjör einangrun.
Öll vegaskilti og landakort sýna bæi og „landnámsbyggðir“ Ísraela. Bæir og byggðir Palestínumanna eru hvergi nefnd á nafn.
Palestínumenn mega ekki gefa út persónuskilríki. Þau sem sagt hefur verið frá, og þeim er gert að bera, eru lítil segulspjöld sem tilgreina: „arabi af óskilgreindu þjóðerni“. Þjóðerni þeirra er ekki viðurkennt.
Hér halda gyðingar gettóinu Gaza í heljargreipum.
Á farandsfæti
Upp úr miðjum mánudegi 24. febrúar kvöddum við starfsmenn flóttamannahjálpar S.þ. í Palestínu (UNRWA) í Gaza-borg. Þeir stóðu eftir – frammi fyrir hrikalegum vandamálum daglegs lífs á þessu hernumda svæði – við ókum til borgarinnar eilífu, Jerúsalem. Ekið var upp láglendið inn í rigningu, um gróðursæl héruð, ræktarlegar ávaxtaekrur, pálmalundi og akurlönd. En hugurinn reikaði til baka – við höfðum kynnst furðulandi mótsagna, andstæðna og átaka.
Á áfangastað fór veður versnandi. Um kvöldið var skollin á snjókoma sem stóð fram á næsta dag, ófærð um alla borg og nágrenni svo dögum skipti, fólk kom ekki til vinnu, fundir okkar féllu niður.
Þriðjudag 25. febrúar áttum við kvöldverð með tveimur palestínskum háskólamönnum, Mahdi Abdul Hadi, forseta akademískra samtaka um rannsóknir á alþjóðamálum, og Albert Aghazarian, prófessor við Bir Zeit háskólann. Þeir eru báðir búsettir á Jerúsalemsvæðinu og njóta því meira frjálsræðis en samlandar þeirra á Gaza, hér er t.d. ekki útgöngubann. Af frásögnum þeirra kynntumst við enn samskiptum Palestínumanna og Ísraelsmanna.
Lægra settir í eigin landi
1986 samþykkti Evrópuþingið beinan innflutning afurða frá Vesturbakkanum til Evrópubandalagsins. 1987 kom hann til framkvæmda, en EB varð að þvinga Ísrael til að leyfa útflutninginn. EB þarf oft að hafa afskipti af Ísrael, sem vill stöðva hann eða eyðileggja og beitir til þess alls konar ráðum, gefur ekki út leyfi, tefur sendingar á umskipunarstöðum o.fl. Gaza-fólki er alveg meinaður útflutningur afurða sinna.
Háskólum Palestínumanna er lokað af Ísraelum, sumum hefur nú verið lokað samfellt í þrjú ár.
Kynþáttum, þjóðum og trúfélögum sem búa í Ísrael er mismunað. Gyðingar fá réttindi umfram alla aðra, og í þeirra þágu eru kristnir og múslimar beittir misrétti. Þó verður þess vart að gyðingar sem giftast maka af öðru trúfélagi missa stöðu sína innan samfélags gyðinga, eru lagðir í einelti, njóta ekki forgangsréttar að atvinnu og eignum – og virðist yfirleitt leiða til skilnaðar. Palestínumenn fá minni réttindi en fólk af öðrum arabískum uppruna, svo sem Bedúínar, Drúsar og Sýrkassar. Palestínumenn sem ekki flúðu út úr Ísrael 1948 (búsettir í Ísrael; „ísraelskir arabar“) eru betur settir en hinir sem flúðu til þeirra svæða sem síðar voru hertekin 1967 (Gaza, Jerúsalem og Vesturbakkinn). Öllum þjóðum innan Ísraels öðrum en Palestínumönnum, gefst kostur á ókeypis skólagöngu fyrir börn sín, en Palestínumenn verða að greiða skólakostnað að fullu. Palestínumenn búsettir í Ísrael hafa minni rétt til opinberra starfa en allir aðrir.
Palestínumenn á hernumdu svæðunum fá ekki borgararétt – aðeins þrjú aðskilin skírteini: Atvinnuleyfi, ferðaleyfi og persónuskírteini, sem tilgreinir að viðkomandi sé Arabi af „óskilgreindu þjóðerni“, búsettur í tilteknu héraði í Ísrael: Jerúsalem svæðinu (þeir fá meiri réttindi en Palestínumenn á öðrum herteknum svæðum), Samaríu eða Júdeu ef viðkomandi býr á Vesturbakkanum, annars Gaza (þeir fá lökust réttindi).
Innflytjendur til Ísraels frá fyrrverandi Sovétlýðveldum fá strax ríkisborgararétt og í vegabréfi þeirra er tilgreint „án þjóðernis“, en það telur Ísrael vera skilgreint þjóðerni (!).
Nýlendustefna og landnám
Alvarlegasta átakaefnið er nýlendustefna gyðinga og „landnám” með upptöku eigna Palestínumanna. Eignir Palestínumanna – hús og lönd – eru teknar af þeim undir margs konar yfirskini:
- eign er yfirgefin af palestínskum eiganda 1967 eða síðar,
- svæði lýst ríkiseign,
- eignarnám í almannaþágu,
- eignarnám af öryggisástæðum,
- eign telst hafa verið í eigu gyðinga 1936 eða fyrir 1948.
Þegar eignarnámsástæður teljast vera til staðar gengur landið til Jewish Foundation, sem ekki er heimitt að selja eignir öðrum en Gyðingum. Svæði lýst ríkiseign er síðar lýst opið eingöngu gyðingum og virðist aðferð til að taka lönd undir „landnám“. Ákvæðum um eign yfirgefna af Palestínskum eiganda 1967 eða síðar er m.a.s. beitt við hluta eignar, og eru þá notuð til þess að hrekja burt þá sem eiga aðra hluta hennar. Eignarhlutinn er seldur eða afhentur gyðingum, sem flytja inn og krefjast síns hlutar í eigninni (stundum aðeins hluti íbúðar). Ef fyrir eru palestínskir eigendur annarra eignarhluta stofna gyðingar til ósættis – og kæra síðan ósættið. Þá er öllum eigendum skipað að fara af eigninni til að stilla megi til friðar. Þar með teljast aðrir hlutar eignarinnar einnig yfirgefnir af palestínskum eiganda – og eru seldir eða afhentir gyðingum.
„Landnám“ hefur verið mjög aukið af Sharon, sem ráðherra húsnæðismála. Hann hefur látið byggja 23 þúsund íbúðir fyrir gyðinga í „landnámsbyggðum“ á svæðum Palestínumanna, þ.e.a.s. á herteknu svæðunum. Talið er að Ísrael hafi á síðasta ári lagt um einn milljarð bandaríkjadala í „landnámsbyggðir” og fjölgað íbúum í þeim um 65% – og þar er ekkert til sparað. „Landnám“ stendur enn og hefur verið aukið og hraðað. Þetta er eitt margra brota á samþykktum S.þ. um hernámið. Nú eru um 120-220 þúsund „landnemar” á Vesturbakkanum, eftir því hvort Jerúsalem er talin með, um 5 þúsund á Gaza og um 30 þúsund í Gólan hæðum.

Eftir hernámið var Jerúsalem lýst sérstakur hluti Ísraels og höfuðborg þess að eilífu. Kynnt var húsnæðisáætlun um 20 þúsund íbúðir fyrir Palestínumenn eða araba. Hún hefur aldrei hlotið fjármagn. Svo var kynnt húsnæðisáætlun um 80 þúsund íbúðir fyrir gyðinga. Hún hefur fengið fjármagn jafnt og þétt.
Ísrael breytti mörkum Jerúsalem svæðisins svo að það skiptir nú Vesturbakkanum í tvennt. Palestínumenn sem þurfa að fara milli norður- og suðurhlutans verða að fara um varðstöðvar Ísraelshers.
Palestínumönnum er að jafnaði ekki leyft að fara til Vesturlanda, nema vera gerðir landrækir. Þeir mega þá ekki snúa aftur til fjölskyldu eða eigna og eiga víst að eignir þeirra verða teknar eignarnámi, sem yfirgefnar af eiganda, og afhentar gyðingum.
Þeir vilja okkur feiga
Þeir telja það stefnu Ísraels að ekki takist friðarsamningar, og Ísraelstjórn ætli sér að hrekja Palestínumenn á Gaza í sjóinn og eyða þjóðinni sem slíkri af yfirborði jarðar. – „Þeir vilja okkur feiga. – Almenningur í Evrópu hefur enga hugmynd um hve alvarlegt ástandið hér er og hve mikilvægt er að Ísrael fáist til að semja um frið og réttindi okkur til handa. Annars förumst við.“
„Hvers vegna beita vestrænar þjóðir Ísrael ekki sams konar viðskiptaþvingunum og Suður-Afríku? Er einhver munur á þessum tveimur aðskilnaðarríkjum kynþátta og trúarbragða?“
Þeir sögðust ekki greina möguleika á breytingum í framhaldi af þingkosningum Ísraela, og ekki geta gert ráð fyrir breyttri afstöðu Ísraels til samninga eftir kosningar. Enginn ísraelskur stjórnmálamaður hafi enn sem komið er lýst fylgi við að Palestínumenn fái full borgararéttindi eða að stofna eigið þjóðríki.
Nýlega létust palestínumenn í ísraelskum fangelsum, af afleiðingum pyntinga. Frá upphafi Intifada, 1987, hafa fjölmargir Palestínumenn látist eftir pyntingar í fangelsum Ísraels. Yfir 100 þúsund Palestínumenn hafa orðið örkumla eða látist í átökum síðan Intifada hófst – hærra hlutfall en í Víetnam.
Þegar gestir okkar höfðu kvatt sátum við fram eftir og ræddum það sem þeir höfðu sagt. Enn var mikið um að hugsa þegar lagst var til svefns.
Birtist í Frjáls Palestína.
