Sniðganga fyrir Palestínu

Sniðgönguhreyfingin fyrir Palestínu er alþjóðleg hreyfing til stuðnings Palestínu og íbúum hennar sem byggir á fjöldasamstöðu og friðsamlegu andófi við hernám, mannréttindabrot og stríðsglæpi ísraelska ríkisins. Hreyfingin er þekkt á alþjóðavísu sem BDS-hreyfingin en sú skammstöfun stendur fyrir ensku orðin boycott, divestment og sanctions eða sniðgöngu, fjárlosun og viðskiptaþvinganir. BDS-hreyfingin var stofnuð í Palestínu árið 2005 af 170 borgaralegum samtökum þar í landi en starf í hennar anda hófst á Íslandi árið 2014. Fyrirmynd BDS-hreyfingarinnar er sniðgönguhreyfingin gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku sem hófst undir lok sjötta áratugarins og náði hámarki sínu á níunda áratugnum. Í sinni einföldustu mynd felst sniðganga fyrir Palestínu í því að athuga upprunaland á ávöxtum og grænmeti og öðrum vörum en hún beinist líka að fyrirtækjum sem starfa í nánu samstarfi við ísraelska ríkið. Í ákallinu um sniðgöngu fyrir Palestínu felst líka ákall um að háskólar hvarvetna í heiminum slíti samstarfi við Ísraelska háskóla, rannsóknum, kennaraskiptum og ráðstefnum, þar sem ísraelskir háskólar eru virkir þátttakendur í mannréttindabrotum Ísraelska ríkisins. Einnig nær sniðgönguhreyfingin til lista og íþrótta og eru skipuleggjendur hvattir til að vísa fulltrúum Ísraels úr alþjóðlegum keppnum og samstarfi, hvort sem um er að ræða íþróttalið á stórmótum eða fulltrúa ísraelska ríkissjónvarpsins í Eurovision.

Það liggur enginn vafi á því að Sniðgönguhreyfingunni hefur vaxið fiskur um hrygg síðan þjóðarmorð Ísraels á Gaza hófst fyrir tveimur árum. Sniðganga er leið sem er opin öllum, þar sem hver sem er getur tekið þátt og sniðið sér stakk eftir vexti, ekki bara með því að breyta eigin neysluvenjum heldur einnig með því að breiða út boðskapinn, merkja ísraelska framleiðslu með límmiðum, deila fræðslu á samfélagsmiðlum, skrifa fyrirtækjum og stofnunum eða skrifa greinar í blöð. Á tímum þegar ein birtingarmynd þjóðarmorðsins er sú að hjálparstarf til íbúa á Gaza hefur verið gert því sem næst ómögulegt af því að hversdagslegustu nauðsynjavörur eru svo af svo skornum skammti að það þarf grettistak í fjáröflun til að afla þeirra, þá er sniðgangan afl sem ekki hefur tekist að brjóta á bak aftur. Sniðganga á ísraelskum vörum og stofnunum er áhrifarík mótmælaaðferð og ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar víða um lönd til að gera hana ólöglega á einhvern hátt, en það hefur aldrei tekist. Sniðgangan er leið til að minna ekki bara stjórnvöld heldur okkur öll á að við erum ekki ein um það að vera misboðið og að við erum ekki valdalaus. Sniðganga er leið til þess að skapa umræðuvettvang um stríðsglæpi og mannréttindabrot Ísraels þegar annars myndi ríkja þögn.

Hugmyndafræði BDS-hreyfingarinnar á sviði efnahags og neysluvöru gengur út á að velja nokkur afmörkuð vörumerki og skapa um þau fjöldasamstöðu. Þegar litið er yfir listann á heimasíðu alþjóðlegu BDS-hreyfingarinnar kemur það mörgum á óvart að listinn yfir vörumerki sé ekki lengri en hann er, að hann geri enga tilraun til þess að vera tæmandi. Þetta er gert gagngert til þess að ná meiri árangri og eiga auðveldara með að koma skilaboðum sniðgöngunnar áleiðis til almennings. Vörumerkin eru valin á grundvelli ítarlegra rannsókna. Í hröðum og alþjóðavæddum viðskiptaheimi er nær ómögulegt að halda yfirsýn yfir það hvaða fjárfestingatengsl eða innkaupakeðjur liggja að baki öllum þeim vörumerkjum sem blasa við okkur í verslunum. Þess í stað einbeitir BDS-hreyfingin sér að styttri lista af vörumerkjum til þess að hægt sé að treysta því að þær upplýsingar sem hreyfingin deilir um tengsl vörumerkja við Ísrael séu traustar og áreiðanlegar og ekki orðnar úreltar. Vörumerkin eru einnig valin á grundvelli þess að það sé einfalt og auðskiljanlegt fyrir þorra fólks að sniðganga framleiðsluna. Af þessum ástæðum eru risastór vörumerki eins og Nestlé ekki að finna í heild sinni á sniðgöngulista BDS-samtakanna. Á sama tíma er ekki að finna tæmandi lista yfir öll fyrirtæki frá Ísrael á þessum lista heldur einungis þau sem hafa töluverða útbreiðslu. Það þýðir þó ekki að BDS-hreyfingin hafi eitthvað á móti því að fólk og verslanir sniðgangi þessar vörur, þeim er bara ekki forgangsraðað í baráttu samtakanna.

Sniðganga er langtímaverkefni og hún er erfið. Þess vegna er betra að velja sér skotmörk sem hægt er að standa við árum saman, þannig að mælanleg áhrif á Ísrael verði sem mest.

Alþjóðlega sniðgönguhreyfingin leggur líka ríka áherslu á það að lönd velji þau vörumerki sem eiga best við í hverju landi fyrir sig. Þess vegna er tiltölulega lítil skörun á milli þeirra vörumerkja sem eru í brennidepli á Íslandi og þeirra sem lesa má um á vefsíðu alþjóða BDS-samtakanna. En hvernig lítur kjarnasniðgöngulistinn á Íslandi út?

Ávextir og grænmeti frá Ísrael

Þetta er einhver einfaldasta gerð sniðgöngunnar og hefur skilað miklum árangri, á Íslandi og víðar. Íslenskir innflutningsaðilar hafa meðvitað hætt að kaupa þessar vörur inn til landsins og þetta má sjá bæði af svörum þeirra við fyrirspurnum sniðgönguhreyfingarinnar og opinberum innflutningstölum. Ísraelskar matvörur halda þó áfram að slæðast inn í litlu magni svo við höldum áfram að vera á varðbergi og skoða upprunaland matvöru.

Rapyd

Ísraelska fjártæknifyrirtækið Rapyd keypti sig inn á íslenskan markað með látum fyrir nokkrum árum þegar það keypti hin rótgrónu fyrirtæki Valitor og Korta. Það starfar nú á Íslandi á hinni upprunalegu kennitölu Korta og kallast Rapyd Europe. Starfsemi þess felst meðal annars í utanumhaldi greiðslukorta hjá Landsbankanum, Arion og sparisjóðum og tæknilausnum fyrir dælulykla á bensínstöðvum og hraðbanka. Þekktast er það samt sem færsluhirðir í posum í búðum og vefverslunum. Rapyd hefur í vissum skilningi orðið að táknmynd sniðgöngunnar á Íslandi en hátt í ??? fyrirtæki hafa ýmist skipt um færsluhirði eða lýst því yfir að þau ætli að skipta um færsluhirði. Lista yfir fyrirtæki er að finna á hirdir.is sem tekur við ábendingum frá almenningi.

Teva

Teva er ísraelskt lyfjafyrirtæki með markaðsráðandi stöðu á Íslandi, ekki síst eftir að það keypti íslenska lyfjafyrirtækið Actavis árið 2015. Sniðganga á lyfjum fyrirtækisins beinist fyrst og fremst að ólyfseðilsskyldum lyfjum á borð við verkjalyf og ofnæmislyf en margir hafa upp á síðkastið átt samtal við sinn lækni eða lyfjafræðing um möguleika á því að nota lyf annarra fyrirtækja. Á vefsíðu íslensku sniðgönguhreyfingannnar, snidganga.is, er að finna lista yfir aðra valkosti við ólyfseðilsskyld lyf frá Teva.

SodaStream

SodaStream er eitt þekktasta vörumerkið sem alþjóðlega sniðgönguhreyfingin hefur tekið fyrir en það er ísraelskt fyrirtæki sem framleiðir tæki sem kolsýra vatn í heimahúsum. Fólk er hvatt til þess að kaupa ekki SodaStream-tæki en ef það á slíkt tæki nú þegar er hægt að skipta yfir í kolsýruhylki frá öðrum framleiðendum.

MoroccanOil

MoroccanOil er ísraelskt snyrtivörufyrirtæki sem sérhæfir sig i sjampói og hárnæringu sem gjarnan er selt á hárgreiðslustofur. Fyrir utan það að vera ísraelsk framleiðsla byggir það á ósjálfbærri nýtingu á marokkóskri arganolíu sem fyrirtækið ýmist kaupir frá Marokkó, á kostnað hefðbundinnar atvinnusköpunar þar í landi, eða ræktar í Ísrael í erfðabreyttum trjám sem skaða jarðveginn. MoroccanOil hefur verið aðalstyrktaraðili Eurovision síðan árið 2020 og þannig styðja bæði vörumerkin, MoroccanOil og Eurovision, dyggilega við hvítþvott Ísraels. Lista yfir söluaðila MoroccanOil er að finna á vefsíðunni harhirdir.is sem tekur við ábendingum frá almenningi.

HP

HP er tölvu- og tæknifyrirtæki sem hefur átt í nánu og víðtæku samstarfi við ísraelska ríkið, þar með talið fangelsi og vegatálma, í tvo áratugi. Líkt og ísraelsríki þá notar íslenska ríkið HP-tölvubúnað í fyrirtækjum sínum og stofnunum.

Coca-Cola

Alþjóðlega BDS-hreyfingin tók upp sniðgöngu á Coca-Cola eftir ákall frá grasrótinni. Coca-Cola rekur bæði vöruhús og dreifingarmiðstöð í ólöglegri landtökubyggð auk þess sem Coca-Cola í Ísrael framleiðir vín úr berjum sem ræktuð eru á stolnu landi á palestínska Vesturbakkanum og sýrlensku Gólan-hæðunum.

Hægt er að finna alþjóðlegu sniðgönguhreyfinguna á öllum helstu samfélagsmiðlum undir nafninu Boycott, Divestment and Sanctions – BDS Movement.

Íslensku sniðgönguhreyfinguna má finna á Facebook, Instagram og TikTok undir nafninu BDS Iceland.

Einnig hvetjum við fólk til þátttöku í umræðuhópnum Sniðganga fyrir Palestínu sem er að finna á Facebook.

Boykat er nafnið á appinu sem alþjóðlega BDS-hreyfingin mælir með fyrir þau sem vilja nota app til hliðsjónar í sinni sniðgöngu en þar er bæði hægt að fletta upp vörumerkjum og skanna vörur til að kanna hvort þær séu á sniðgöngulista.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top