Hvað er vopnahlé? Í raun og veru ekkert nema áframhaldandi þjóðarmorð í hægari takti sem veldur minni truflun á gangverki alþjóðakerfisins og störfum ráðamanna í valdaríkjum heimsins. Hér eru nokkur sjónahorn sem lýsa ólíkri túlkun á því hvað vopnahléssamningur Ísraels og Hamas frá því í október 2025 þýðir:
- Kaldrifjuð blekking, enn ein gabbhreyfing Bandaríkjanna og Ísraels í hundrað ára landvinningastríði þeirra gegn innfæddum Palestínubúum.
- Svolítið hlé á meiri háttar fjöldamorðum Ísraels á Gaza.
- Léttir fyrir vestræna fjölmiðla, íþróttasambönd og sjónvarpsstöðvar, sem finna minni þrýsting á sig að segja sannleikann.
- Gluggi fyrir stuðningsfólk Palestínu um allan heim til að endurbyggja og endurnýja kraftinn í baráttunni fyrir frelsun Palestínu.
- Vopnahléð er allt þetta og meira til.
Blekking
Palestínska skáldið Refaat Alareer á spakmælið (sem virkar á ensku): „Israeli ceasfire means: you cease, we fire.“ Þegar þetta er ritað hefur Ísrael drepið meira en 250 Palestínumenn, þar af að minnsta kosti 105 börn, eftir að vopnahléð átti að taka gildi. Ísraelsher hefur ennþá hervald yfir stórum hluta af Gaza og jafnar fjölda heimila við jörðu á hverjum degi. Ísraelsher hindrar enn aðflutninga á matvælum og öðrum nauðsynjavörum og heldur þeim langt undir því magni sem samið var um og nauðsynlegt er (talið er að flutt sé inn um það bil 20% af því sem þyrfti). Ísrael hefur að auki tekið sér leyfi til að drepa þegar það vill í nafni öryggis og hefnda. Landránið heldur auk þess áfram á Vesturbakkanum, með hryðjuverkum, skemmdarverkum og reglulegum manndrápum.

Við vitum ekki nákvæmlega hver framvindan verður en það er alveg öruggt að Ísrael mun ásamt Bandaríkjunum gera allt til þess að herða aftur á hungursneyðinni og til að beita aftur yfirgæfandi hervaldi með stórfelldum sprengjuárásum. Þeir munu saka Hamas um að svíkjast um að skila likamsleifum gísla eða krefjast þess að Hamas afvopnist og verði leyst upp, og þegar það reynist ómögulegt verður aftur sprengt. Forsætisráðherra Ísraels lýsti því í sjónvarpsávarpi eftir vopnahléð að „ef það tekst að leysa upp Hamas svona auðveldlega gott og vel. Ef ekki þá gerum við það erfiðu leiðina“.
Hlé
Við höfum séð myndskeið þar sem börn finna aftur gæludýrin sín og af fólki fallast í faðma, meðal annars við gísla sem sleppt hefur verið úr haldi í pyndingabúðum Ísraels. Stórfelldum sprengjuárásum á almenning hefur linnt að sinni. Færri deyja á hverjum degi heldur en verið hefur flesta daga í tvö ár. En við höfum enn þá mjög takmarkaða mynd af þessu. Ísrael hefur myrt svo margt blaða- og myndatökufólk og fyrirtækin sem skammta okkur upplýsingar og myndefni hafa gert sitt ítrasta til að hefta flæði af fréttum og myndum frá Gaza. Það segir sitt að mörg okkar hugsa að þetta hlé sé skárra en stöðugar sprengjuárásir, en það sem íbúum Gaza er boðið er svívirða og ekki tilvera sem er manneskjum þolanleg eða samboðin. Við þetta ástand verður ekki unað.
Léttir á nauðsynlegum þrýstingi
„Fréttastofan á ekkert efni sjálf sem hún getur vottað enda meinar Ísrael henni og öllum samstarfsaðilum að fara til Gaza, en hún dregur engar ályktanir af því og spyr ekki hvor aðilinn hagnast á því ástandi“ – gæti verið inngangur fréttaþular á hverju kvöldi síðustu 750 daga eða svo. Vestrænar fréttastöðvar og blöð birta okkur yfirleitt ekki fréttaefni frá Palestínufólki eða frá arabískum heimildum, og ef það gerist þá er alltaf settur á fyrirvari til að gefa til kynna að fréttin sé óáreiðanleg, grunsamleg og jafnvel áróður Hamas. En þær fréttastöðvar sem við sjáum og fáum í endurbirtingu okkar innlendu miðla (BBC, CNN, Reuters, AP, New York Times) fá ekki að fara eða vilja ekki fara inn á Gaza. Þessir miðlar skapa þokuástand. Við vitum ekki hverju við eigum að trúa. Allar fréttir gætu verið falsaðar. Á samfélagsmiðlum getum við séð með eigin augum hroðaleg illvirki; sum eru tekin upp af Palestínumönnum, önnur taka ísraelskir hermenn upp og dreifa sjálfir. Við sjáum líka brot úr ísraelskum sjónvarpsþáttum með viðtölum og ræðum við stjórnmálamenn og álitsgjafa þar sem vilji til þjóðarmorðs kemur skýrt fram. Sömu kvöld eru fluttar fréttir á okkar miðlum úr hliðarveruleika þar sem fátt af þessu kemur fram og ef það kemur fram þá fylgja því fyrirvarar og réttlætingar. Fréttastofa RÚV hefur ásamt öðrum meginstraumsmiðlum skapað þau hughrif að hver einasta frásögn um hryllilega glæpi Ísraels gæti verið ósönn. Þetta er staðreynd þó að inni á milli hafi gott fréttafólk komist að með upplýsandi umfjöllun. „Vopnahlé“ veitir þeim nú létti og gerir þeim auðveldara að skapa þá ásýnd að þetta séu traustir fréttamiðlar jafnvel þó að Ísrael hafi alls ekki leyft neinum þeirra að fara inn á Gaza til að kynna sér ástandið í og eftir vopnahlé.

Evrópusamband sjónvarpsstöðva og alþjóðaíþróttasambönd eins og FIFA hafa gripið „vopnahléð“ fegins hendi og notað það sem ástæðu til að fresta því að taka ákvörðun um að útiloka Ísrael frá keppni. Við sjáum sömu tilhneigingar víðar. Fréttir af vopnahléi draga máttinn úr andspyrnuhreyfingum á Vesturlöndum, neyðarástandið virkar ekki eins aðkallandi og yfirvöld stofnana slaka á. Hin óorðuðu en tæru skilaboð eru að nú sé það versta um garð gengið, reiðin hefur runnið af Ísrael. Eigum við ekki bara að horfa fram á við og gleyma þessu.
Gluggi
Eins og fyrri punktar gefa til kynna er nú brýnt að tapa ekki þrekinu og láta ekki fenna yfir þá staðreynd að Ísrael er svívirðilegt glæparíki, stofnað til og viðhaldið með ólýsanlegu ofbeldi, án réttmætra ástæðna, stutt með fjármunum, vopnavaldi og öðrum pólitískum stofnunum af Bandaríkjunum og öllum Vesturlöndum. Alþjóðlegir dómstólar hafa ítrekað úrskurðað um glæpi ríkisins og eru þeir þó undir miklum þrýstingi þessara valdaríkja að gefa eftir. Þessir dómstólar vinna þar að auki eftir lagarömmum sem réttlæta tilvist Ísraels og lita fram hjá óréttmætri stofnun þess. Verkefni okkar er ekki eingöngu að sjá til þess að þessum úrskurðum verði framfylgt í verki heldur líka að þrýsta á um endurskoðun og upplýsingu um stofnglæpinn, Nakba. Við þurfum að fá fleiri til liðs við okkur, safna liði í baráttu okkar fyrir frelsun Palestínu, þar sem Palestínufólk hefur sjálft forystu og nýtir sjálfsagðan sjálfsákvörðunarrétt um sína framtíð og nútíð. Ef krafan um að Hamas eigi ekki að vera hluti af stjórnmálakerfi Palestínu á að hafa merkingu verður líka að tryggja að flestir stjórnmálaflokkar í Ísrael megi alls ekki taka þátt í stjórnmálum framar. Við þurfum sér í lagi að vinna gegn þeirri forkastanlegu og fáránlegu hugmynd að Palestínumenn þurfi að minnka róttækni sína, þurfi að afvopnast, vegna áhlaupsins 7. október. En ef slík rök eiga við þá er deginum ljósara að það er margfalt mikilvægara að afvopna og aföfgavæða Ísrael.
Ég neita því ekki að þetta eru myrkir tímar og ljósið er ekki í sjónmáli. Við verðum engu að síður að vinna að framgangi réttlætisins og að veita Palestínufólki allan stuðning sem við getum, og leita leiða til að auka þann stuðning. Til þess þarf nýjar hugmyndir, sköpunarmátt og staðfestu. Það þarf öflugri dreifingu á þekkingu, það þarf kraftmikil mótmæli, áberandi sniðgöngu og það þarf að hlusta á Palestínufólk og vinna með því á þann hátt sem það kýs.
Birtist í Vísi.
