Al-Harah-leikhúsið – Svið fyrir andspyrnu, lækningu og von

Al-Harah-leikhúsið er sjálfseignarstofnun með aðsetur í Betlehem í Palestínu sem helgar sig því að rækta og viðhalda borgaralegu samfélagi sem byggir á mannréttindum, lýðræði og tjáningarfrelsi. Frá stofnun þess árið 2005 hefur Al-Harah orðið hornsteinn í palestínsku sviðslistalífi og nýtt leikhúsið sem tæki til að fræða, styrkja og lækna.

FP Svid fyrir andspyrnu laekningu og von
Grein skrifuð af Marina Barham, framkvæmdastjóra Al-Harah leikhússins

Með sýningum, hátíðum, þjálfunaráætlunum og samfélagsverkefnum nær Al-Harah beint til barna, ungmenna og fullorðinna um allan Vesturbakkann og víðar. Starf þess er rótgróið í djúpri trú á umbreytingarmátt leikhússins — getu þess til að varpa ljósi á samfélagslegan veruleika, efla samræður og hvetja til breytinga.

Á síðustu tveimur áratugum hefur leikhúsið sett upp meira en 50 sýningar fyrir börn og yfir 45 fyrir ungmenni og fullorðna. Áætlað er að áhorfendur séu um ein milljón, þar af helmingur börn, og yfir 2200 listamenn hafa fengið atvinnutækifæri. Í umhverfi sem einkennist af pólitískum óstöðugleika og félagslegum áskorunum heldur Al-Harah-leikhúsið áfram að berjast fyrir réttindum barna, kvenna, fólks með fötlun og jaðarsettra samfélagshópa — setur raddir þeirra í hjarta starfsemi sinnar.

Leikhúsið sem tilfinningaleg andspyrna og lækning

Í Palestínu, þar sem daglegt líf mótast af hernámi, brottflutningi og óvissu, nær leikhúsið langt út fyrir listræna tjáningu — það verður að tilfinningalegri andspyrnu. Fyrir börn sem alast upp innan um eftirlitsstöðvar, ofbeldi og missi býður Al-Harah-leikhúsið upp á fágætan griðastað: rými til að ímynda sér, tjá sig og endurheimta yfirráð yfir eigin frásögnum.

Með sérstæðu skipulagi sínu sem sameinar leiklist og sálfélagslegan stuðning, umbreytir Al-Harah kennslustofum og félagsmiðstöðvum í örugg rými valdeflingar og tilfinningalegrar útrásar. Þessar aðgerðir hjálpa börnum að takast á við áföll, enduruppgötva gleði og endurbyggja sjálfstraust. Sú trú að listin geti læknað, frelsað og endurreist er kjarninn í hugmyndafræði Al-Harah og mótar alla þætti starfsins. Starfsemi leikhússins nær jafnvel til Gaza, þar sem það hefur stutt listamenn á svæðinu við að skipuleggja viðburði fyrir börn á flótta – og boðið upp á stundir hláturs, tónlistar og sköpunar innan um eyðilegginguna. Við aðstæður ótta og skorts hafa slík inngrip veitt þúsundum barna hverfula en ómetanlega endurkomu til sakleysis leiks og ímyndunarafls.

Að virkja börn með skapandi tjáningu

Miðlægt í nálgun með fræðslu Al-Harah, eru leiklistarsmiðjur fyrir börn á aldrinum 6 til 12 ára, þar sem „leikhúsleikir“ verða öflug tæki til tilfinningalegrar tjáningar og persónulegs þroska. Þessar smiðjur hvetja börn til að kanna tilfinningar eins og ótta, sorg og gleði í styðjandi umhverfi, um leið og þau þróa með sér samskiptahæfni, hópvinnu og skapandi hugsun.

Verkefni eins og brúðugerð úr endurunnum efnum, grímugerð, teikning, söngur og hlutverkaleikir hjálpa börnum að vinna úr reynslu sinni og tjá sig frjálslega. Barn gæti til dæmis notað leiklist til að tjá kvíða vegna nærveru hersins eða til að endursegja fjölskyldusögur sem tengja það við arfleifð sína og sjálfsmynd.

Á síðustu þremur árum hefur Al-Harah unnið með meira en 20 skólum á Betlehem-svæðinu að því að stofna leiklistarklúbba sem samþætta leiklist, endurvinnslu, sagnagerð og umhverfismál. Þessir klúbbar, sem kennarar á svæðinu halda úti, eru orðnir að varanlegri aðstöðu fyrir ímyndunarafl, umhverfisvitund og samræður milli kynslóða.

Aukin áhrif um alla Palestínu

Á árunum 2023 til 2024 hélt Al-Harah-leikhúsið yfir 350 leiklistarsmiðjur í skólum á Vesturbakkanum og vann með listamönnum í flóttamannabúðum á Gaza, þar sem náðist til yfir 2.000 barna. Þessar smiðjur veittu bæði tilfinningalegan létti og staðfestingu á menningarlegri sjálfsmynd á tímum vaxandi ofbeldis og mannúðarkrísu.

Á svæðum eins og Tulkarem og Jenin, þar sem yfir 30.000 manns hafa verið á flótta, veitti starf Al-Harah fágætar stundir huggunar og tengsla. Gagnvirkar sýningar þess, þar á meðal Ný hugmynd – leikrit um réttindi og valdeflingu barna – og Gamli maðurinn Semaan, ljóðræn lýsing á tengslum bænda við landið, buðu bæði upp á fræðslu og huggun.

Stofnunin þjálfaði einnig kennara í leiklistartengdri kennslufræði, sem gerði kleift að stofna leiklistarklúbba í skólum og innleiða smiðjur án aðgreiningar fyrir börn með fötlun. Þessi verkefni tryggðu að áhrif starfs Al-Harah haldi áfram löngu eftir beina aðkomu þess og ýta undir sjálfbærni og færni í menntakerfinu.

Hagsmunagæsla með leikferðum

Fyrir Al-Harah er leikhúsið ekki aðeins staðbundin andspyrna heldur einnig alþjóðlegt kall eftir vitundarvakningu. Árið 2024 fór framkvæmdastjórinn Marina Barham: í ferð til að afla stuðnings og halda fyrirlestra. Hún heimsótti 17 leikhús í Bretlandi og deildi innsýn í hlutverk listarinnar á meðan á þjóðarmorðinu á Gaza og ofbeldinu á Vesturbakkanum stóð.

Árið 2025 fór Al-Harah í leikferð með hina rómuðu | sýningu sína Meramieh til Danmerkur og Svíþjóðar og sýndi 22 sinnum í stórum borgum. Leikritið, sem byggir á vitnisburði Palestínumanna sem voru á flótta árið 1948, færði alþjóðlegum áhorfendum raunverulegar raddir Palestínu og ósagðar sögur.

Sama ár frumsýndi Al-Harah nýja sýningu sina Deadlift í Hollandi, þar sem sýningin var hyllt sem ein af tveimur bestu sýningum tímabilsins í landinu og sýnd fyrir fullu húsi. Þessar leikferðir magna upp palestínskar frásagnir á alþjóðavettvangi og nota listina sem farveg fyrir sannleika, stuðning og samstöðu.

Svið fyrir andspyrnu, lækningu og von

Saga Al-Harah-leikhússins sýnir hvernig list getur fléttast saman við félagslega seiglu og sameiginlega lækningu. Í ljósi hernáms og brottflutnings verður leikhúsið aðferð til að lifa af – leið til að standa gegn örvæntingu, endurheimta sjálfsmynd og sjá fyrir sér réttláta framtíð.

FP Svid fyrir andspyrnu laekningu og von
Leiklistarsmiðjurnar hvetja börn til að kanna eins og ótta, sorg og gleði í styðjandi umhverfi, um leið og þau þróa með sér samskiptahæfni, hópvinnu og skapandi hugsun.

Með sýningum sínum og smiðjum ræktar Al-Harah kynslóð Palestínumanna sem býr yfir sköpunargáfu, samkennd og hugrekki – allt nauðsynlegir þættir sem þarf til að endurbyggja samfélag.

Fyrir alþjóðlega áhorfendur veitir starf þeirra mikilvæga innsýn í palestínskan raunveruleika, vekur samkennd og hvetur til samstöðu.

Áskoranir

Árið 2019, rétt áður en Covid-faraldurinn hófst, stóðum við frammi fyrir nýrri áskorun þegar Evrópuþingið bætti við nýju pólitísku skilyrði fyrir fjármögnun sinni til palestínskra samtaka, þar sem þau telja sjö palestínskar stjórnmálahreyfingar vera hryðjuverkasamtök. Með því að samþykkja þetta skilyrði myndum við samþykkja að sakfella okkar eigið fólk og afneita starfi okkar í palestínsku samfélagi. Þess vegna neituðu palestínsk borgarasamtök að samþykkja þetta skilyrði og höfnuðu skilyrtri fjármögnun, sem leiddi til þess að við misstum helstu fjármögnunarleiðir, þar á meðal frá ESB, Sænsku þróunarsamvinnustofnuninni og þýskum sjóðum. Þetta olli gríðarlegum rekstrarhalla og mun hafa áhrif á þjónustu okkar við palestínsk börn, konur og fólk með fötlun.

Niðurstaða

Saga Al-Harah leikhússins staðfestir einfaldan en djúpstæðan sannleika: Palestínsk börn eiga skilið meira en öryggi og menntun – þau eiga skilið gleði, sjálfstjáningu og svið til að láta sig dreyma frjáls. Í miðjum erfiðleikum býður Al-Harah upp á athvarf þar sem sköpun verður að andspyrnu og þar sem kraftur ímyndunaraflsins getur sigrast á kúgun.

Þetta starf er þó mjög háð samstöðu alþjóðasamfélagsins – þeirra sem trúa á mannréttindi, tjáningarfrelsi og umbreytandi kraft listarinnar. Með áframhaldandi samvinnu og stuðningi mun Al-Harah leikhúsið halda áfram að vera leiðarljós sem styrkir palestínsk börn og samfélög til að finna styrk, lækningu og endurnýjun í gegnum leikhús.

Til að halda starfi okkar áfram, gerstu vinur Al-Harah leikhússins og styrktu starf okkar í Palestínu með því að smella á þennan hlekk á GOFUNDME-söfnun: https://www.gofundme.com/f/alharah-theatre-work-with-children-in-palestine

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er framkvæmdastjóri Al-Harah leikhússins í Betlehem í Palestínu.

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top