Frá skipulagningu til hernáms: Jerúsalem sem dæmi

Af þeim 71.000 dunumum (71 km2.) sem voru innlimaðir í Jerúsalem árið 1967 hafa um 35% verið tekin eignarnámi fyrir byggingu landtökubyggða. Í dag eru í 16 ísraelskum landtökubyggðum yfir 210.000 landtökumenn, sem eru nærri helmingur allra landtökumanna á hernumdu palestínsku svæðunum. Þessar landtökubyggðir eru tengdar Vestur-Jerúsalem með vegum sem eru eingöngu fyrir landtökufólkið og léttlestarkerfi Jerúsalem, sem styrkir yfirráðin og einangrar palestínsk hverfi frá Vesturbakkanum.

WMC 1024px Dome of the Rock and Al Aqsa Mosque
Al-Aqsa Moska Jerúsalem – Wikimedia Commons CCA 2.0

Stefna Ísraels og borgarskipulag takmarkar enn frekar uppbyggingu Palestínumanna. Minna en 13% af landi í Austur-Jerúsalem er skipulagt fyrir palestínskar byggingar og byggingarleyfi eru sjaldan veitt. Þúsundir heimila hafa verið lagðar í rúst undir því yfirskini að leyfi skorti, á meðan margar palestínskar fjölskyldur neyðast til að rífa eigin heimili til að forðast háar sektir. Milli áranna 2022 og 2024 voru hundruð mannvirkja eyðilögð, sem hrakti þúsundir íbúa á brott, þar á meðal hundruð barna.

Frá einhliða innlimun hernuminnar Austur-Jerúsalem árið 1967 hafa ísraelsk yfirvöld beitt ýmsum lögum og stefnum sem miða að því að tryggja varanleg lýðfræðileg og landfræðileg yfirráð gyðinga í borginni. Með landráni, stækkun landnemabyggða, niðurrifi helmila og afturköllun búsetuleyfa hefur Ísrael reynt að festa yfirráð sín í sessi og hrekja burt Palestínumenn, í bága við alþjóðalög.

Búseturéttindi gegna einnig lykilhlutverki í lýðfræðilegu skipulagi Ísraels. Frá árinu 1967 hafa búseturéttindi yfir 14.600 Palestínumanna verið afturkölluð. Íbúar verða að sanna að „þungamiðja lífs þeirra“ sé áfram í Jerúsalem, annars eiga þeir á hættu að missa lagaleg réttindi sín. Fjölskyldusameining er mjög takmörkuð; Palestínumenn frá Jerúsalem sem eru giftir íbúum Vesturbakkans geta ekki búið með mökum sínum í Jerúsalem og börnum þeirra er oft neitað um skráningu. Þessar aðgerðir miða að því að fækka palestínskum íbúum á sama tíma og landtaka gyðinga eykst.

Aðskilnaðarmúrinn

Árið 2004 lýsti Alþjóðadómstóllinn aðskilnaðarmúrinn ólöglegan og krafðist þess að hann yrði rifinn. Ísrael hunsaði úrskurðinn. Í dag umlykur 168 kílómetra langur múr Austur-Jerúsalem, sker borgina frá Vesturbakkanum og sundrar palestínskum samfélögum. Múrinn kemur í veg fyrir að íbúar komist í skóla, á sjúkrahús, vinnustaði og helga staði. Hverfi eins og Kufr Aqab, Ras Khamis, Ras Shehada og Shuafat-flóttamannabúðirnar eru nú „Jerúsalem-megin“ við múrinn en fá nánast enga borgaralega þjónustu og íbúar búa við stöðuga ógn um að missa búseturétt sinn. Múrinn er orðinn skýrasta tákn þvingaðrar aðskilnaðarstefnu og einangrunar.

Stækkun landtökubyggða og stofnanaleg innlimun

Stækkun landtökubyggða hefur aukist frá október 2023. Frá ársbyrjun 2024 til júni 2025 voru 195 nýjar áætlanir um landtökubyggðir annaðhvort kynntar eða endurvaktar, þar af 74 í Austur-Jerúsalem einni, sem fela í sér 13.647 íbúðareiningar og nærri 4.000 ekrur af landi var tekið eignarnámi. Ísraelsk stjórnvöld hafa nýtt sér yfirstandandi stríð á Gaza til að hraða þessari yfirtöku þegar athygli alheimsins beinist annað.

Samhliða þessu samþykkti Ísrael „Fimm ára áætlun um þróun Austur-Jerúsalem (2023-2028)“ með 840 milljóna dollara fjárveitingu. Ísraelskir embættismenn lýsa opinberlega þessari áætlun sem leið til að auka réttindi og aðlögun palestínska samfélagsins að ísraelska kerfinu. Stór hluti – 194 milljónir dollara – er ætlaður til að koma á ísraelskri stjórn yfir menntun í Austur-Jerúsalem. Áætlunin miðar að því að fjölga skólum sem kenna eftir ísraelskri námskrá, innleiða hebresku sem aðaltungumál og refsa skólum sem halda áfram að nota palestínskar kennslubækur. Menntamálaráðuneytið hefur hótað að afturkalla starfsleyfi palestínskra skóla sem neita og heldur því fram að námsefni þeirra hvetji til „uppreisnar“.

Þessi stefna hraðar „ísraelvæðingu“ og setur ísraelskar frásagnir í stað palestínsks sögulegs og menningarlegs efnis. Rannsóknir hafa skráð þúsundir staðreynda- og málvillna í þessum ísraelsku kennslubókum, þar á meðal er útrýming palestínskrar landafræði og sjálfsmyndar. Á meðan er ekkert gert í yfirfullum skólastofum, skorti á kennslustofum og lélegum innviðum.

Lagastaða og alþjóðalög

Austur-Jerúsalem er enn hernumið svæði samkvæmt alþjóðalögum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, Allsherjarþingið og Alþjóðadómstóllinn hafa ítrekað staðfest að innlimun landsvæðis með valdi sé óheimil. Sem hernámsveldi hefur Ísrael skýrar skyldur til að vernda réttindi palestínsku þjóðarinnar og forðast að flytja eigið fólk inn á hernumið land. Þessar skyldur eru kerfisbundið brotnar.

Þrátt fyrir vel skjalfestar sannanir um brot þar á meðal nauðungarflutninga, landrán og afturköllun búsetuleyfa heldur Ísrael áfram að starfa refsilaust. Aðgerðaleysi alþjóðasamfélagsins, sem beitir ekki gildandi lagakerfum hefur hvatt ísraelsk yfirvöld til að herða landtökuna í borginni.

Borgaralegt bandalag um réttindi Palestínumanna í Jerúsalem

FP CCPRJ Fra skipulagningu til hernams

Borgaralegt bandalag um réttindi Palestínumanna í Jerúsalem var stofnað árið 2005 til að bregðast við aukinni gyðingavæðingu borgarinnar og vöntun á sameinaðri palestínskri aðkomu. CCPRJ er óháð, sjálfseignarbandalag (non-profit) sem samanstendur af 22 samtökum, stofnunum og félögum sem vinna að því að verja réttindi Palestínumanna og varðveita arabíska ímynd borgarinnar.

Framtíðarsýn: Palestínumenn standa staðfastir í Jerúsalem og eru færir um að varðveita arabískt og palestínskt yfirbragð hennar.

Hlutverk: Að virkja viðleitni, getu og úrræði til að vernda pólitísk, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi Palestínumanna í Jerúsalem, eins og þau eru tryggð samkvæmt alþjóðalögum.

Meginmarkmið og aðgerðir

  1. Valdefling og vitundarvakning CCPRJ vekur athygli palestínskra íbúa á lagalegum og borgaralegum réttindum sínum með vinnustofum, málþingum og útgáfu. Það skipuleggur fundi með staðbundnum samfélögum og foreldranefndum til að verja palestínska menntun og efla þekkingu ungs fólks á sögu sinni og menningu.
  2. Vöktun og skráning CCPRJ skráir kerfisbundið brot Ísraels með því að fylgjast með skipulagsáætlunum sveitarfélaga, yfirlýsingum stjórnvalda og fjölmiðlum. Þessar upplýsingar styðja við hagsmunagæslu, lagaleg inngrip og skýrslugjöf til alþjóðlegra stofnana.
  3. Lagaleg inngrip CCPRJ veitir lögfræðilega og tæknilega ráðgjöf, styður við mál samfélaga gegn niðurrifi og afturköllun búsetuleyfa og veitir fjölskyldum sem standa frammi fyrir brottflutningi leiðbeiningar.
  4. Hagsmunagæsla og þrýstistarf CCPRJ þróar hagsmunabaráttu með aðgerðum á staðnum og á alþjóðavettvangi. Það undirbýr skýrslur og setur fram stefnu um húsnæðis-, búsetu- og menntunarréttindi og leggur fram gögn fyrir mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna og sérstaka skýrslugjafa. Bandalagið samhæfir sig við svæðisbundna og alþjóðlega samstarfsaðila til að magna upp raddir Palestínumanna og afhjúpa brot Ísraels.

Hvers vegna bandalagið skiptir máli

Að vinna sameiginlega undir einum hatti verndar borgaraleg samtök gegn lokunum og áreitni. Fyrirmynd bandalagsins – sem byggir á samvinnu, hreinskilni og sameiginlegri ábyrgð – gerir meðlimum kleift að starfa á skilvirkari hátt í fjandsamlegu umhverfi þar sem sjálfstæðar stofnanir standa frammi fyrir stöðugum ógnum. Það endurspeglar einnig menningu sameiginlegrar seiglu sem er nauðsynleg í fjarveru þjóðlegra stofnana í hernumdu Jerúsalem.

Horft fram á veginn

CCPRJ heldur áfram að einbeita sér að því að valdefla palestínskt samfélag í Jerúsalem, verja menntun og efla lagalegar og hagsmunagæsluaðferðir. Bandalagið stefnir að því að fjölga staðbundnum nefndum, styðja við frumkvæði ungs fólks og styrkja samhæfingu meðal frjálsra félagasamtaka. Það leitast einnig við að auka alþjóðlega þátttöku til að tryggja ábyrgð og styrkja viðurkenningu á A-Jerúsalem sem hernumdu svæði.

Fyrir Palestínumenn er staðfesta í Jerúsalem ekki aðeins spurning um að lifa af heldur einnig staðfesting á að hér eigum við heima. Hvert niðurbrotið hús og heimili, hver hindrun á skólstarfinu og hvert afturkallað búsetuleyfi er hluti af kerfisbundinni viðleitni til að hrekja þjóðina úr höfuðborg sinni. Samt sem samfélagi- og alþjóðlegri samstöðu, halda Palestínumenn í Jerúsalem áfram að staðfesta að borgin þeirra – saga hennar, menning og framtíð – er áfram palestínsk.

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er kvikmyndagerðarmaður, formaður Félagsins Ísland – Palestína og höfundur bókarinnar Íslandsstræti í Jerúsalem.

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top