Seigla í rústunum – Hvernig konur í Jenin endurreisa lífið undir linnulausum árásum

FP Konur i Jenin endurreisa nov 2025

Í hjarta flóttamannabúðanna í Jenin – þar sem eyðilegging og von lifa hlið við hlið – hafa konur neitað að gefast upp. Árið 2024 hélt kvenfélagið Not To Forget (NTF) áfram með verkefni sitt að vernda, styrkja og efla palestínskar konur og börn við aðstæður sem myndu brjóta niður flest samfélög. Innan um daglegar hernaðarárásir, brottflutning og hrun grunnþjónustu varð NTF bæði skjól og hreyfing – sönnun þess að seigla í Palestínu er ekki slagorð heldur leið til að lifa af.

Ár elds og einurðar

Árið 2024 einkenndist af linnulausu ofbeldi. Flóttamannabúðirnar í Jenin, sem voru þegar eitt af þeim svæðum á Vesturbakkanum sem mest var ráðist á, máttu þola ítrekaðar innrásir Ísraelshers sem skildu eftir sig heimili í rústum, eyðilagða vegi og hundruð manna á vergangi. Eftir október 2023 hörðnuðu árásirnar – börn voru tekin höndum, kennarar barðir og fjölskyldur hraktar á brott á ný. Fjárhagskreppa UNRWA (Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu) bætti við enn einu lagi af örvæntingu: skólar og heilsugæslustöðvar lokuðu dyrum sínum og skildu flóttafólk eftir með ekkert skjól.

En innan um þetta drungalega landslag stóðu konur í Jenín fastar fyrir. NTF, sem var stofnað árið 2002, breytti áföllum í aðgerðir. Örugg rými samtakanna, ráðgjafarmiðstöðvar og vinnustofur urðu griðastaðir fyrir þúsundir kvenna og barna sem áttu hvergi annars staðar að athvarf.

Að breyta sársauka í styrk

Með verkefnum eins og My Safety Place og Helping Children and Mothers Survive Psychologically náði NTF til meira en 3.500 manns – aðallega mæðra og barna – og bauð upp á sálræna skyndihjálp, hópmeðferð og skapandi seigluþjálfun. Á heimilum fullum af sorg lærðu mæður aftur að anda, að hlusta, að vona.

Áttatíu og fimm prósent þátttökubarna sýndu bætta tilfinningastjórn og árangur í skóla, á meðan næstum allar mæður sögðu frá betri streitustjórnun og uppeldisfærni. Fyrir marga voru þessir tímar í fyrsta skipti sem einhver hafði spurt: „Hvernig líður þér?“

Eins og ein móðir sagði: „Þegar hermennirnir fóru var húsið okkar í rústum, en inni í þessu athvarfi endurreisti ég sjálfa mig.“

Handan við að lifa af: Að byggja upp efnahagslegan og félagslegan styrk

Starf NTF nær lengra en ráðgjöf. Á stað þar sem atvinnuleysi meðal kvenna er yfir 70% er efnahagsleg valdefling lífsspursmál. Með verkefninu „Your Hand With Us“ voru konur þjálfaðar í að verja efnahagsleg réttindi sín, reka lítil fyrirtæki og þekkja vinnulöggjöfina. Vinnustofur um stafræna markaðssetningu, gerð ferilskráa og smáiðnað hjálpuðu tugum kvenna að hefja ný verkefni, allt frá saumasamvinnufélögum til heimafyrirtækja á netinu.

Þetta eru litlir sigrar í umfangsmikilli baráttu – en þeir skipta máli. Hver kona sem aflar sér eigin tekna er einni fjölskyldu færra sem er háð aðstoð, ein rödd til viðbótar sem ekki er hægt að þagga niður í.

Konur sem leiða

Frá höfuðstöðvum sínum í flóttamannabúðunum í Jenin hefur NTF byggt upp öflugt tengslanet sem teygir sig yfir tíu flóttamannabúðir. Með samstarfi við staðbundnar kvennamiðstöðvar, alþýðunefndir og alþjóðlega bandamenn þjálfa samtökin kvenleiðtoga til að taka þátt í ákvarðanatöku á vettvöngum sem lengi voru lokaðir konum.

Árið 2024 gengu 90 kvenleiðtogar úr 10 flóttamannabúðum til liðs við hið nýstofnaða Palestinian Refugee Women’s Network, sameinaðan vettvang fyrir hagsmunagæslu og sameiginlegar aðgerðir. Þessar konur sitja nú við borð þar sem stefnumál eru rædd, ekki bara sem gestir, heldur sem þátttakendur í ákvarðanatöku. Farha Abu Al-Heija, stofnandi NTF, lýsir því einfaldlega:

„Barátta okkar er ekki aðeins gegn hernáminu heldur gegn ósynileika. Þegar konur leiða, andar allt samfélagið í flóttamannabúðunum öðruvísi.“

Geðheilsa sem andspyrna

Geðheilsa er áfram þögul víglína í baráttu Palestínumanna. Kynslóðir undir hernámi hafa skilið eftir sig djúp ör – áföll sem eru bæði persónuleg og pólitísk. Í mörg ár var sáfræðimeðferð fordæmd, oft afskrifuð sem veikleiki. Nálgun NTF breytir þeirri frásögn með því að tengja sálræna lækningu við reisn og sameiginlegan styrk.

Í nýlegum innrásum Ísrealshers veittu ráðgjafar neyðarviðtöl inni í neyðarskýlum. WhatsApp-hópar og fjarsímtöl komu í stað funda þegar eftirlitsstöðvar eða skothríð gerðu ferðalög ómöguleg. Jafnvel í umsátri hélt starfið áfram – 95% af fyrirhuguðum aðgerðum var lokið. Lækning, eins og í ljós kom, gat verið jafn ögrandi og mótmæli.

Raddir sem ekki verða þaggaðar niður

Í fjölmiðlalandslagi sem sjónarmið hernámsliðsins er ráðandi, berst NTF á móti með frásögum heimamanna. Herferðir samtakanna – For You, With Your Efforts, We Grow Stronger og Refugee Women’s Voice – náðu til tugþúsunda í gegnum samfélagsmiðla, hlaðvörp og staðbundið útvarp.

Hlaðvörp lögðu áherslu á daglegan veruleika í búðunum: mæður sem standa frammi fyrir ofbeldi, stúlkur sem dreymir um menntun, samfélög sem lifa áfram þrátt fyrir ítrekaðar árásir. Veggspjöld, stutt myndbönd og myndskeið dreifðust víða og sýndu konur í flóttamannabúðum ekki sem fórnarlömb heldur sem gerendur breytinga. Þessar herferðir gerðu meira en að vekja athygli – þær sköpuðu stolt. Konur sem áður hvíslaðu um sársauka sinn fóru að tala opinskátt um kynbundið ofbeldi, geðheilsu og rétt sinn til öryggis.

Vefur samstöðu

FP Konur i Jenin endurreisa nov 2025
Ísrael gerði stórárás á Jenin-flóttamannabúðirnar í febrúar 2025

Ekkert af þessu gerist í einangrun. Styrkur NTF liggur í samstarfi – við staðbundnar nefndir, verkalýðsfélög, kennara, ungt fólk og alþjóðlega samstarfsaðila eins og UN Women, Canada Fund for Local Initiatives, Minority Rights Group International og African Women’s Development Fund. Saman mynduðu þau verndarnefndir, sjálfshjálparhópa og jafningjanet sem nú virka sem óformleg öryggisnet innan flóttamannabúðanna.

Þegar árásir valda rafmagnsleysi og vegir eru lokaðir, virkjast þessi net samstundis — þau deila mat, hafa samband við lögfræðinga og hugga börn sem hafa orðið fyrir áfalli. Þegar starfandi stofnanir bregðast tekur samfélagið sjálft við stjórnartaumunum.

Lærdómur í ringulreið

Hvert ár baráttunnar kennir nýjar lexíur. Skýrsla NTF fyrir árið 2024 afhjúpar einfaldan sannleika: sveigjanleiki bjargar mannslífum. Þegar flytja þurfti skrifstofur undan skothríð voru gögn og málaskrár geymdar í skýinu. Þegar mæður gátu ekki farið að heiman færðust vinnustofur á netið. Þegar fordómar komu í veg fyrir að konur leituðu sér hjálpar urðu aðrar mæður — sem höfðu útskrifast úr verkefnum NTF — ráðgjafar þeirra.

Samtökin þjálfuðu einnig tugi leiðbeinenda í áfallamiðaðri umönnun, streitustjórnun og forystu í samfélaginu. Margir þeirra halda nú sína eigin fundi og tryggja að starfið vaxi innan frá í stað þess að treysta eingöngu á utanaðkomandi stuðning.

Frá hjálp til sjálfræðis

Hugmyndafræði NTF er skýr: mannúðaraðstoð er ekki nóg. Markmiðið er sjálfræði – að hjálpa konum að stjórna eigin bata og krefjast réttinda sinna. Það þýðir að sameina tafarlausa aðstoð (sálfræðiaðstoð, virðingarsett (dignity kits), matvælaaðstoð) og langtíma valdeflingu (þjálfun, menntun, hagsmunagæslu).

Starf hópsins hefur þegar haft áhrif á staðbundna stjórnsýslu: í einum flóttamannabúðum kom alþýðunefndin upp fastri miðstöð fyrir starfsemi kvenna. Í öðrum eru kynjaeiningar og réttaraðstoð orðnar fastur liður og veita stöðugan stuðning fyrir þolendur ofbeldis.

Andi Jenín

Það sem gerir þessa sögu einstaka er ekki aðeins umfang þjáninganna heldur dýpt samstöðunnar. Á árinu, þegar athygli heimsins beindist annað, minntu konurnar í Jenin okkur á hvað staðfesta raunverulega þýðir. Þær endurbyggðu skóla úr rústum, héldu listmeðferð í sprengdum skólastofum og skipulögðu hringborðsumræður um framtíðina, jafnvel þegar drónar sveimuðu yfir.

Sérhver vinnustofa, hvert hlaðvarp, hver stuðningsaðgerð er andspyrna. Í heimi sem stöðugt segir Palestínumönnum að þeir séu ekki til, krefst NTF sýnileika, mannúðar og gleði.

Horft fram á veginn: Von sem stefna

Á árinu 2025 hefur NTF aukið sálfélagsleg verkefni, þjálfað fleiri ráðgjafa og styrkt net kvenna á flótta. Ný verkefni munu beinast að starfsþjálfun fyrir ungar konur, jafningjastýrðum geðheilbrigðishópum og hagsmunagæslu fyrir réttindum verkafólks sem standa utan skipulagðra samtaka.

Skilaboð samtakanna Not To Forget til alþjóðasamfélagsins eru brýn: stuðningur verður að færast frá góðgerðarstarfi yfir í samstarf og ábyrgð. Hruni UNRWA og þögn alþjóðlegra stofnana má ekki mæta með örvæntingu. Þess í stað sýna grasrótarhreyfingar eins og NTF að valdið til að vernda líf er enn til staðar.

Kall til samstöðu

Úr þröngum húsasundum Jenin berast skilaboð til heimsins: við gleymum ekki, við veitum andspyrnu og við endurbyggjum. Hvert framlag, hver saga sem er deilt, hvert bergmál stuðnings, hjálpar til við að viðhalda þeirri andspyrnu.

Að standa með palestínskum konum er ekki aðeins að styðja mannúðarstarf – það er að verja þá hugmynd að réttlæti og virðing tilheyri öllum.

„Við erum ekki að bíða eftir að okkur verði bjargað,“ segir Farha Abu Al-Heija. „Við erum að bjarga hver annarri.“

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er kvikmyndagerðarmaður, formaður Félagsins Ísland – Palestína og höfundur bókarinnar Íslandsstræti í Jerúsalem.

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top