Aðskilnaðarstefna Ísraels

Aðskilnaðarstefna. Þetta orð tekur okkur flest áratugi aftur í tímann, til Suður-Afríku, þar sem dökk börn máttu ekki ganga í sama skóla og hvít börn, dökkt fólk og hvítt mátti ekki giftast og almennt var reynt að halda þessum hópum eins aðskildum og mögulegt var. Undir aðskilnaðarstefnunni giltu ólík lög fyrir ólíka hópa þar sem gróf mismunun tryggði að pólitísk, efnahagsleg og félagsleg völd héldust á hendi þeirra hvítu sem þó voru minnihluti þjóðarinnar.

Í dag er það almennt viðurkennt að sú stefna hafi verið ómannúðleg, óréttlát og grimmileg og til þess gerð að viðhalda völdum eins hóps á kostnað annars. En lítum okkur nær í tíma og skoðum ríkjandi stefnu Ísraels gagnvart palestínsku fólki í dag. Við sjáum að innan alþjóðasamfélagsins er deilt um hvort að um aðskilnaðarstefnu sé að ræða. Af hverju reynist stjórnvöldum erfiðara að fordæma ranglæti dagsins í dag, sem þó blasir við þeim, en það sem gerðist fyrir áratugum? Eru stjórnvöld ófær um að fordæma mannréttindabrot þegar þau telja að aðrir hagsmunir vegi þyngra? Þessum spurningum verður ekki svarað hér en leitast verður við að varpa ljósi á þá aðskilnaðarstefnu sem ríkir í Ísrael og mikilvægi þess að leiðtogar heims og alþjóðasamfélagið viðurkenni það óréttlæti og hörmungar sem palestínskt fólk býr við undir þessari stefnu.

Amnesty International gaf út skýrslu þann 1. febrúar 2022, Israel’s Apartheid against Palestinians: Cruel Syst­em of Domination and Crime against Humanity, sem varpar ljósi á að stefna Ísraels gagnvart Palestínu er í raun aðskilnaðarstefna og varpar ljósi á hvert umfang hennar raunverulega er hvort sem það býr í Austur-Jerúsalem, Hebron, í sjálfu Ísraelsríki eða jafnvel er flóttafólk utan Ísrael. Skýrslan lýsir því hvernig Ísrael kemur fram við palestínskt fólk sem óæðri kynþátt, aðgreinir það frá öðrum og kúgar það hvar sem það hefur stjórn á réttindum þess. Frá stofnun Ísraelsríkis árið 1948, hefur stefna Ísraels miðað að því að tryggja að Gyðingar séu í meirihluta á svæðinu og að stjórn á landi og náttúruauðlindum hagnist Gyðingum.

FP Adskilnadarstefna Anna Ludviksdottir nov
Anna Lúðvíksdóttir er framkvæmdastjóri
Íslandsdeildar Amnesty International

Aðskilnaðarstefnan sem hefur ríkt í áratugi hefur kúgað palestínskt fólk og tryggt yfirráð eins kynþáttar yfir öðrum á kerfisbundinn hátt. Aðskilnaðarstefna er gróft mannréttindabrot samkvæmt alþjóðalögum. Aðskilnaðarstefna er glæp­ur gegn mannúð, framinn innan stjórnkerfis kerfisbundinnar kúgunar og yfirráða eins kynþáttar yfir öðrum, til þess að tryggja viðgang þessa ástands. Ómannúðlegar aðgerðir fela m.a. í sér ólögmæt dráp og alvarlegar líkams­meiðingar, pyndingar, þvingaða brottflutninga, hvers konar ofsóknir og sviptingu á grundvallarréttindum og frelsi.

Í skýrslunni voru greindir fjórir þættir innan aðskilnaðarstefnunnar

  • Sundrun: felur m.a. í sér fólksflutninga palestínsks fólks bæði innan og utan her­numdu svæðanna, synjun á endurkomurétti og áframhaldandi stækk­un landtökusvæða.
  • Aðskilnaður: meðal annars í formi synjunar á jafnri ríkisfangsstöðu, fjölskyldu­sameiningu og þátttöku í herþjón­ustu og takmarkanir á rétti til stjórn­málaþátttöku og mótmæla.
  • Eignarnám: á heimilum, fyrirtækjum og ræktuðu landi víðs vegar um her­numdu svæðin. Fyrir 1948 áttu Palestínumenn um 90% af landsvæðinu í einkaeigu á yfirráðasvæðinu. Í dag búa um 80% palestínskra ríkisborgara Ísraels í 3-3,5% af landinu.
  • Skerðing: sem getur meðal annars falið í sér hindranir á samgöngum við Gaza bæði um land, loft og haf., synjun um leyfi til að byggja íbúðahús og önnur mannvirki. Í Austur-Jerúsalem búa 72% palestínskra fjölskyldna und­ir fátæktarmörkum samanborið við 26% ísraelskra gyðingafjölskyldna í borginni. Meðalnotkun palestínsks fólks á vatni á hernumdu svæðunum er um 70 lítrar á dag á mann, samanborið við 369 lítra á dag fyrir ísraelska landnema á sama svæði.

Amnesty International er langt frá því að vera eini aðilinn sem hefur komist að þeirri niðurstöðu um að stjórnkerfið teljist vera aðskilnaðarstefna. Mannréttindavaktin (e. Human Rights Watch), palestínskar, ísraelskar og al­þjóð­legar stofnanir, tveir sérstakir skýrslugjafar Sameinuðu þjóðanna, ríkisstjórn Suður-Afríku og nokkrir fyrrverandi ísraelskir embættismenn hafa sagt það sama. Í tvo áratugi hefur palestínskt fólk kallað eftir alþjóðlegum skilningi á því að það stjórnarfar sem það býr við teljist aðskilnaðarstefna. Samtímis hafa palest­ínsk mannréttindasamtök lagt sitt af mörkum til að skrá og greina þetta kerfi sem og glæpi aðskilnaðarstefnu Ísrael gegn palestínsku fólki. Þau hafa einnig verið í fararbroddi í umræðu um þetta efni hjá Sameinuðu þjóðunum. Í seinni tíð hafa fleiri raddir bæst við hópinn og má þar nefna ísraelsku mannréttindasamtökin Yesh Din og B’Tselem (Ísraelska upp­lýsingamiðstöðin um Mannréttindi á hernumdu svæðunum) sem hafa einnig rannsakað ástandið og komst að þeirri niðurstöðu að aðskilnaðarstefna sé viðhöfð á hluta eða öllu landsvæðinu undir stjórn Ísraelsríkis.

Einstaklingar um allan heim kalla eftir afnámi aðskilnaðarstefnunnar. Þrátt fyrir sífellt háværari kröfur um fordæmingu á aðskilnaðarstefnunni og aðferðum til þess að viðhalda henni – ólögmæt dráp, stækkun landnemabyggða, niðurrif bygginga og tak­mörkun á tjáningarfrelsi palestínsk fólks ásamt yfirgripsmiklum rann­sóknum, skýrslum Amnesty International og ýmissa annarra að­ila eru enn ríki, stofnanir og einstaklingar sem viðurkenna ekki að um aðskilnaðarstefnu sé að ræða. Evrópusambandið neit­ar enn að viðurkenna að um aðskilnaðarstefnu sé að ræða. Í janúar á þessu ári sagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins beinlínis að hún áliti „ekki viðeigandi“ að nota hugtakið aðskilnaðarstefna í tengslum við Ísraelsríki. Álitið kom fram í skriflegu svari við spurningu sem þingmenn Evrópuþingsins lögðu fram og var sent af Joseph Borrell sem er æðsti talsmaður stefnu sambandsins í utan­ríkis- og öryggismálum. Eve Geddie framkvæmdastjóri Evrópusam­bands­skrifstofu Amnesty International bend­ir á í grein sinni EU needs to acknowledge the reality of Israeli apartheid að það sé þó óljóst hvaða þáttum skýrslu Amnesty International um aðskilnaðarstefnu Ísraels, sönn­un­argögnum eða greiningu framkvæmdastjór­nin er ósammála, þar sem svar hennar tekst ekki á við efnisatriði skýrslunnar. Framkvæmdastjórnin velur að sleppa efnislegum þáttum en vitnar í skilgreiningu International Holocaust Memorial Association (IHRA) á gyðingahatri sem forsendu afstöðu sinnar. Skilgreining IHRA er ekki lagalega bindandi skilgreining á gyðingahatri.

Geddie bendir ennfremur á að síðan þá hafi tólf ísraelsk samtök lýst „miklum áhyggjum“ af tilraunum til að tengja skýrslu Amnesty við gyðingahatur, og að ofannefnd samtök geti ekki fallist á að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi ekki viðurkennt aðskilnaðarstefnu Ísraels. Þessi samtök halda því fram að það að beita gyðingahatri sem vopni til að þagga niður í lögmætri gagnrýni grafi í raun undan tilraunum til að takast á við vaxandi og raunverulegt gyðingahatur.

2048px the separation barrier which runs through bethlehem
Aðskilnaðarmúr – Wikimedia Commons CCA 3.0

Hvers vegna skiptir máli að alþjóðleg mannréttindasamtök, stofnanir Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamfélagið og ríki samþykki og staðfesti að aðgerðir Ísraels eru hluti af stjórnkerfi sem jafngildir aðskilnaðarstefnu, stefnu sem markast af kerfisbundnum yfir­ráðum eins kynþáttar yfir öðrum og er viðhaldið með mannréttindabrotum og kúgun?

Jú, því samkvæmt skilgreiningu Róm­arsamþykktar og Alþjóðasamnings um afnám og refsingu fyrir glæpsamlega aðskilnaðarstefnu þá er aðskilnaðarstefna glæpur gegn mannúð. Fyrrgreindur samningur um afnám aðskilnaðarstefnu var gerður árið 1973 á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur látið líða hjá í 50 ár að skrifa undir samning um afnám aðskilnaðarstefnu. Ef yfirvöld hér á landi, alþjóðasamfélagið og þ.m.t. Evrópusambandið hafa raunverulegan áhuga á að efla frið og réttlæti á svæðinu, þá verða þau að viðurkenna að Ísrael fremur glæp í formi aðskilnaðarstefnu. Þau verða að nota öll þau pólitísku og diplómatísku tæki sem þau hafa yfir að ráða til að þrýsta á Ísrael um að afnema þessa grimmilegu og óréttlátu stefnu. Amnesty skorar í íslensk yfirvöld að skrifa undir og fullgilda samninginn um afnám aðskilnaðararstefnunnar og taka þannig skýra afstöðu með mannréttindum og mannúð.

Í lokin langar mig að varpa ljósi á hvernig Amnesty International vinnur og hvernig samtökin komast að niðurstöðum sínum með rannsóknum og greiningu.

Amnesty International er stærsta mann­réttindahreyfing í heimi. Kjarni starfshreyfingarinnar felst í að berjast gegn mannréttindabrotum um heim allan. Amnesty gerir ítarlegar rannsóknir, þrýstir á stjórnvöld með herferðum, að­gerðum og undirskriftasöfnunum og fræð­ir fólk um mannréttindi.

Amnesty er óháð pólitískum, trúarlegum og efnahagslegum hagsmunum og fylgir ströngum verkferlum um hlut­leysi í vinnubrögðum sínum.

Skýrsla Amnesty um aðskiln­aðarstefnu Ísrael gegn palestínsku fólki byggir á fjögurra ára rannsóknarvinnu.

Rannsóknarstarf Amnesty er gríðar­lega öflugt og mikilvægt tæki í mann­réttindabaráttunni, því hver skýrsla, greinargerð og frétt er byggð á viðamikilli gagnaöflun. Gagnaöflunin getur verið mismunandi eftir því hvernig brot er verið að rannsaka en getur falið í sér m.a. vettvangs- og fjarrannsóknir, skrá­setning vitnisburða frá fyrstu hendi og söfnun sönnunargagna um brot á alþjóðlegum mannúðarlögum. Amnesty framkvæmir einnig stafrænar rannsóknir í gegnum svokallað Crisis Evidence Lab, sannreynir og greinir ljósmynda- og myndbandsefni um hugsanleg brot og notar einnig gervihnattamyndir. Hjá Amnesty starfa vopnasérfræðingar sem greina og fara yfir efni sem tengist teg­und vopna sem notuð eru við tilteknar árásir. Starfsfólk Amnesty ræðir einnig við fulltrúa palestínskra, ísraelskra og alþjóðlegra frjálsra félagasamtaka, við­eigandi stofnana Sameinuðu þjóðanna, lögfræðinga, blaðamenn og utan­aðkomandi sérfræðinga í alþjóðalögum. Á þessu byggir Amnesty skýrsl­urnar.

Þó að hér hafi ekkert verið fjallað um yfirstandandi átök og árásir sem hafa skapað fordæmalausa eyðileggingu og mannúðarneyð á Gaza verður ekki hjá því komist að benda á að rætur átakanna, þar sem mannfall óbreyttra borgara er gríðarlegt, teygja sig mun lengra aftur en til 7. október 2023. Án þess að afsaka, reyna á nokkurn hátt að réttlæta eða daga úr alvarleika árása og stríðsglæpa Hamas og annarra vopnaðra hópa þann dag er mikilvægt í framhaldinu að ráðast að rótum vandans sem blasir við á svæðinu. Þar verður alþjóðasamfélagið og Vesturlönd ekki síst að koma að og þrýsta á að grimmilegt stjórnkerfi aðskilnaðarstefnunnar sem Ísrael hefur beitt að yfirlögðu ráði til að neita palestínsku fólki um grunnréttindi sín og frelsi verði upprætt.

Það er ekkert sem réttlætir stjórnkerfi sem byggir á langvarandi kerfisbundnu kynþáttamisrétti og kúgun milljóna einstaklinga. Aðskilnaðarstefna á hvergi rétt á sér í heiminum. Ríki sem velja að styðja Ísraelsríki með vopnum og vernda það frá því að sæta ábyrgð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna styðja við aðskilnaðarstefnu, grafa undan al­þjóðlega réttarkerfinu og auka á þjáningu palestínsks fólks.

Afnemum aðskilnaðarstefnuna!

Birtist í Frjáls Palestína.

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top