Átökin í Palestínu fyrir alþjóðadómstólum

Í dag eru tveir alþjóðadómstólar með mál til meðferðar sem varða átökin í Palestínu, annars vegar Alþjóðadómstóll Sameinuðu þjóðanna (Alþjóða­dómstóllinn) og hins vegar Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn. Um er að ræða ólíka dómstóla þar sem sá fyrrnefndi fjallar um ábyrgð ríkja en sá síðarnefndi um refsiábyrgð einstaklinga.

Thordis Ingadottir proffessor HR
Þórdís Ingadóttur, prófessor við Háskólann í Reykjavík

Alþjóðadómstóll Sameinuðu þjóðanna

Alþjóðadómstóllinn var settur á stofn árið 1945 með stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Öll 193 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru sjálfkrafa aðilar að dómstólnum. Hlutverk dómstólsins er tvenns konar. Í fyrsta lagi að gefa öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna ráðgefandi álit, og í öðru lagi að dæma í málum milli ríkja.

Alþjóðadómstóllinn hefur gefið út tvö ráðgefandi álit er varða hernám Palestínu af hálfu Ísraels, hið fyrra árið 2004 og hið síðara 19. júlí sl. Nú eru yfirstandandi tvö milliríkjamál fyrir dómstólnum er varða átökin í Palestínu, mál Suður-Afríku gegn Ísrael og mál Níkaragva gegn Þýskalandi.

Ráðgefandi álit Alþjóða­dómstólsins um hernám Ísraela í Palestínu og aðgerðir þar.

Ráðgefandi álit Alþjóðadómstólsins frá því í júlí byggir á beiðni Allsherjarþingsins frá 30. desember 2022. Yfirgnæfandi meirihluta dómara var sammála niðurstöðunni (11 til 14 dómarar af 15 um hvert álitaefni).

Hvað varðar efnisþætti málsins og lagalegar afleiðingar þeirra þá komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu: 1) að áframhaldandi vera Ísraels á hinu hernumda svæði Palestínu væri ólögmæt; 2) að Ísrael bæri skylda að til enda hina ólögmætu veru eins fljótt og hægt er; 3) að Ísrael bæri skylda til að stöðva strax alla uppbyggingu á nýjum landnemabyggðum og fjarlægja alla landnema frá hernuminni Palestínu; 4) að Ísrael bæri skylda til að bæta tjón einstaklinga og lögaðila í hernuminni Palestínu; 5) að öll ríki væru skuldbundin til að viðurkenna ekki lögmæti þeirrar stöðu sem skapast hefði vegna hinnar ólögmætu veru Ísraels í hernuminni Palestínu og að þau væru skuldbundin til að veita hvorki hjálp né aðstoð til að viðhalda þeirri stöðu; 6) að alþjóðastofnanir væru skuldbundnar til að viðurkenna ekki lögmæti þeirrar stöðu sem skapast hefði af ólögmætri veru Ísraels í hernuminni Palestínu; 7) Sameinuðu þjóðirnar, og þá sérstaklega Allsherjarþingið og Öryggisráðið, skyldu íhuga nákvæmar aðgerðir sem nauðsynlegar væru til að enda eins fljótt og hægt væri hina ólögmætu veru Ísraels í hernuminni Palestínu.

Í ályktun sinni frá 18. september sl. staðfesti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna efnisniðurstöður álitsins og tilgreindi fjölda aðgerða til að fylgja þeim eftir, bæði af hálfu Ísraels og allra annarra ríkja. Þess er meðal annars krafist að Ísrael ljúki ólögmætri veru sinni í hernuminni Palestínu og fari þaðan innan 12 mánaða. Ísland greiddi atkvæði með ályktun Allsherjarþingsins.

Mál Suður-Afríku gegn Ísrael

Suður-Afríku höfðaði mál gegn Ísrael 29. desember sl. Suður-Afríka heldur því fram að með hernaðaraðgerðum sínum sé Ísrael að fremja hópmorð gegn Palestínumönnum á Gaza. Lögsaga Alþjóðadómstólsins í málinu er byggð á Samningi um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð frá 1948. Sjö ríki hafa óskað eftir þátttöku í málsókninni (Níkaragva, Kólumbía, Líbía, Mexíkó, Palestína, Spánn og Tyrkland).

Að beiðni Suður-Afríku hefur dóm­stóll­inn kveðið upp þrjá bráðabirgðaúrskurði, þar sem dómstóllinn hefur m.a. komist að þeirri niðurstöðu að: það væri líklegt (e. plausible) að hópmorð ætti sér stað eða gæti átt sér stað á Gaza; Ísrael skyldi gera allt í sínu valdi til að koma í veg fyrir og refsa fyrir hvatningu til hópmorðs; Ísrael skyldi tryggja þegar í stað að herinn fremdi ekki hópmorð; og Ísrael skyldi grípa til aðgerða til að heimila mannúðaraðstoð. Þá úrskurðaði dómstóllinn um stöðvun hern­aðaraðgerða við borgina Rafah, sem gætu skapað aðstæður sem myndu útrýma að öllu eða að hluta Palestínumönnum; að halda opinni landamærastöðinni við Rafah fyrir brýna grunnþjónustu; og grípa til skilvirkra aðgerða til að tryggja óhindraðan aðgang rannsóknarnefnda á vegum Sameinuðu þjóðanna til að rannsaka ásakanir um hópmorð.

Mál Suður-Afríku gegn Ísrael er enn til meðferðar og mun Suður-Afríka skila inn greinargerð um efnishluta málsins 28. október nk. og Ísrael 28. júlí 2025.

Mál Níkaragva gegn Þýskalandi

Níkaragva höfðaði mál gegn Þýskalandi 1. mars sl. Lögsaga í málinu er byggð á Samningi um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð frá 1948 og yfirlýsingum beggja ríkja um að þau samþykki lögsögu Alþjóðadómstólsins almennt. Níkaragva heldur því fram að með pólitískum, fjárhagsleg­um og hernaðarlegum stuðningi sínum við Ísrael, sem og með því að hætta stuðningi við Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA), hafi Þýskalandi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt framangreindum samningi, Genfarsáttmálum frá 1949 og reglum mannúðarlaga.

Níkaragva krafðist bráðabirgðaúrskurðar, en með úrskurði sínum þann 30. apríl sl. hafnaði dómstóllinn þeirri beiðni. Alþjóðadómstóllinn taldi Þýskaland hafa sýnt að ítarlegt innlent matsferli væri til staðar til að meta lögmæti flutnings vopna til Ísraels, meðal annars vegna aðildar Þýskalands að Samningi um vopnasölu frá 2013 og vegna regluverks Evrópusambandsins. Þá tók dómurinn fram að útflutningur vopna frá Þýskalandi til Ísraels hefði dregist mikið saman, sbr. frá 200 milljónum evra í október 2023, til 24 milljóna evra í nóvember 2023, til 1 milljóna evra í mars 2024. Samkvæmt yfirlýsingum Þýskalands séu 98 prósent vopna sem hafi verið flutt út til Ísraels frá 7. október 2023 svokölluð önnur hergögn en ekki hervopn.

Í úrskurði sínum áréttaði dómstóllinn að sameiginleg fyrsta grein Genfarsamninganna fæli í sér að öll samningsríki, hvort sem væru aðilar að tilteknum átökum eða ekki, væru skuldbundin til að tryggja að farið væri eftir ákvæðum samninganna. Þá væru öll aðildarríki að Samningi um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð, sem væri ljóst eða ætti að vera ljóst, að hætta sé á hópmorði, skuldbundin að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða sem þau eru fær um til að koma í veg fyrir hópmorð. Þá taldi dómstóllinn sérstaklega mikilvægt að minna öll ríki á skuldbindingar þeirra samkvæmt samningum um flutning á vopnum til aðila í stríði, til að forðast áhættu að vopn séu notuð til að brjóta á framangreindum samningum.

Alþjóðadómstóllinn neitaði kröfu Þýskalands um að málinu yrði vísað frá. Níkaragva á að skila inn greinargerð um efnishluta málsins 21. júlí 2025 og Þýskaland 21. júlí 2026.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn var settur á stofn með Rómarsamþykktinni frá 1998. Í dag eiga 124 ríki aðild að dómstólnum, meðal annars Ísland. Aðildarríki eru skuldbundin til að veita dómstólnum réttaraðstoð, m.a. hvað varðar handtökur á eigin yfirráðasvæði.

Lögsaga dómstólsins er bundin við refsiábyrgð einstaklinga og tekur til fjögurra tegunda glæpa: stríðsglæpa, hópmorðs, glæpa gegn mannúð og glæpa gegn friði. Forsendur þess að dómstóllinn geti beitt lögsögu sinni er aðild ríkis eða samþykki ríkis, á þann veg að saksóknari dómstólsins getur saksótt glæpi framda á yfirráðasvæðis aðildarríkis (framda af hverjum sem er) eða glæpi framda af ríkisborgara aðildarríkis (framda hvar sem er). Lögsaga dómstólsins er svokölluð fyllingarlögsaga, þ.e. dómstóllinn getur eingöngu beitt lögsögu ef ríki skortir getu eða vilja til að beita lögsögu í landsrétti.

Í dag eru aðstæður á 16 landsvæðum til rannsóknar hjá dómstólnum: Úganda, Kongó, Darfur (Súdan), Mið-Afríkulýðveldið, Kenía, Líbía, Fílabeinsströndin, Malí, Georgía, Búrúndí, Bangladess/Mjanmar, Afganistan, Fi­lipps­eyjar, Venesúela, Úkraína og Palestína.

Palestína og Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn

Þann 1. janúar 2014 samþykkti Palestína lögsögu dómstólsins frá og með 13. júní 2014. Daginn eftir gerðist Palestína aðili að dómstólnum. Þann 20. desember 2019 tilkynnti saksóknari að forskoðun hafi leitt til að þess að líkur væru taldar á að stríðsglæpir hafi verið framdir bæði á Gaza og Vesturbakkanum. Í kjölfar þess óskaði saksóknari eftir áliti dómsins um lögsögu. Þann 5. febrúar 2021 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að lögsaga væri til staðar og að hún næði til Gaza og Vesturbakkans, þ.m.t. Austur-Jerúsalem. Þann 3. mars 2021 lýsti saksóknari yfir að rannsókn væri formlega hafin á glæpum í Palestínu, frá og með 13. apríl 2014. Þann 17. nóvember 2023 vísuðu fimm ríki aðstæðum í Palestínu til meðferðar dómstólsins (Suður-Afríka, Bangladess, Bólivía, Kómorur, Djibútí) og þann 18. janúar 2024 tvö ríki til viðbótar (Chile og Mexíkó).

Þann 20. maí sl. sendi saksóknari beiðni um handtökuskipanir á hendur fimm einstaklingum til réttar dóm­stólsins:

  • Yahya Sinwar, Mohammed Diab Ibrahim Al-Masri (Deif) og Ismail Haniyeh, fyrir meinta stríðsglæpi og glæpi gegn mannúð, framda í Ísrael og á Gaza, allavega frá 7. október 2023. Í kjölfar dauða Ismail Haniyeg og Yahya Sinwars hefur málsókn á hendur þeim verið felld niður.
  • Benjamin Netanyahu og Yoav Gallant fyrir meinta stríðsglæpi og glæpi gegn mannúð framda á Gaza, allavega frá 8. október 2023.

Dómstóllinn hefur ekki enn gefið út umbeðnar handtökuskipanir. Það hefur helst tafið málið að dómarar samþykktu beiðni Bretlands um að fá að senda inn greinargerð sem vinir réttarins (l. amicus curiae). Í kjölfarið bárust dómstólnum tugir slíkra greinargerða. Að mestu fjalla þessar greinargerðir um lögsögu dómstólsins. Þann 23. ágúst sl. svaraði saksóknari greinargerðum og ítrekaði að lögsaga væri til staðar, sbr. niðurstöðu dómstólsins þess efnis frá 2021. Saksóknari ítrekaði neyðarástandið á Gaza, sem væri meðal annars til komið vegna áframhaldandi glæpa þeirra einstaklinga sem hann hefði óskað handtöku á, og óskaði eftir að dómstóllinn úrskurðaði í málinu hið allra fyrsta.

Birtist í Frjáls Palestína.

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top