Þessi tilkynning er eins konar meistaraverk í því að nefna ekki glæp sínu rétta nafni og ekki heldur gerendurna. Í stað þess að ræða hvernig Háskólinn geti útfært sniðgöngu á háskólastofnunum í Ísrael sem eru samsekar í þjóðarmorði var rætt „hvort og þá hvernig Háskóli Íslands geti í starfsemi sinni tekið tillit til og brugðist við því ástandi sem skapast hefur vegna loftárása og landhernaðar á Gaza.“ Ég vona að þessi setning verði notuð í námskeiðum í orðræðugreiningu í framtíðinni.
Hvernig getur Háskólinn tekið tillit til þjóðarmorðs? Veit það ekki. Ástand sem skapast? Það bara skapaðist, það spratt einhvern veginn upp, óx úr eterinu. Loftárásir og landhernaður? Mætti ef til vill bæta við umsátri, svelti, drónum, skriðdrekum, fallbyssum af sjó, hafnbanni? Mætti ef til vill nefna handtökuskipanir Stríðsglæpadómstóls? Eða álit Alþjóðadómstólsins? Og nefna kannski gerandann, Ísrael?
Það er merkilegt að það þurfi tveggja ára útrýmingarherferð, eftir 70 ár af hernámi til að setja upp rökræðupallborð, og í framhaldinu nefnd, og svo háskólaráð, til að ræða þessa hvítþvegnu lýsingu á Helför, svona í ljósi þess Háskóli Íslands greip til sniðgöngu fjórtán dögum eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Birtist á Facebook síðu höfundar.
Frétt Háskóla Íslands um háskólaþing og kynningu á niðurstöðum rökræðupalls.
