Eftir 83ja daga samfellda árás ísraelska hersins þá lagði Suður-Afríka fram kæru þann 29. desember 2023 gegn Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum (ICJ) vegna meintra brota Ísraels á skuldbindingum sínum samkvæmt Þjóðarmorðssáttmálanum í tengslum við árás Ísraels á Palestínumenn á Gazaströndinni.
Suður Afríka heldur því fram að gjörðir og athafnaleysi Ísraels sé ætlað að valda eyðingu, að hluta eða í heild, á palestínsku þjóðinni, þ.e. þeim hluta hennar sem staðsettur er á Gazaströndinni.
Í umsókn Suður-Afríku er krafist bráðabirgðaúrskurðar þar sem krafist er að dómstóllinn taki ákvörðun í málinu til að „verja gegn frekari, alvarlegum og óbætanlegum skaða á réttindum palestínsku þjóðarinnar samkvæmt þjóðarmorðssáttmálanum“ og til að tryggja að Ísrael uppfylli skyldur sínar samkvæmt honum um að fremja ekki þjóðarmorð og til að koma í veg fyrir og refsa fyrir þjóðarmorð.
Megináhersla umsóknarinnar er árás Ísraels á Gaza, með takmörkuðum tilvísunum til hernumdu svæðanna á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem, sem og árásanna sem Hamas hóf á Ísrael þann 7. október. Þótt árásir Hamas séu fordæmdar undirstrikar umsóknin að engin réttlæting sé fyrir því að brjóta gegn þjóðarmorðssáttmálanum, eins og fram komi í árásum Ísraels.
Í umsókn Suður Afríku er ítarlega fjallað um nokkra flokka brota á Þjóðarmorðssáttmálanum í greiningu á atburðarásinni, þ.e. dráp á Palestínumönnum í Gaza, alvarleg líkamleg og andleg meiðsl og lífsskilyrði sem miða að því að valda líkamlegri tortímingu þeirra. Þessar gjörðir eru raktar til Ísraels, sem hefur ekki komið í veg fyrir þjóðarmorð og að auki tekur virkan þátt í þjóðarmorðinu.
Að auki hefur Ísrael brugðist skyldum sínum varðandi „að koma í veg fyrir eða refsa ekki fyrir beina og opinbera hvatningu til þjóðarmorðs af hálfu háttsettra ísraelskra embættismanna og annarra“.
Þjóðarmorðssáttmálinn
Eins og fram kemur í II. grein samningsins um varnir gegn og refsingu fyrir þjóðarmorð („Þjóðarmorðssáttmálinn“, „1948 Convention on the Prevention and Punishment of the Crime of Genocide“), hefur þjóðarmorð tvo þætti:
- Andlegur þáttur (mens rea): „ætlunin að eyða, að öllu leyti eða að hluta, þjóðar-, þjóðernis-, kynþátta- eða trúarhópi sem slíkum“; og
- Líkamlegur þáttur (actus reus): sem felur í sér eftirfarandi fimm athafnir:
- Að drepa meðlimi hópsins;
- Að valda meðlimum hópsins alvarlegum líkamlegum eða andlegum skaða;
- Að beita hópnum vísvitandi lífsskilyrðum sem miða að því að valda líkamlegu tjóni hans að hluta eða í heild;
- Að beita ráðstöfunum sem ætlað er að koma í veg fyrir fæðingar innan hópsins;
- Að flytja börn hópsins með valdi til annars hóps.
Hvað er þjóðarsáttmálinn?
Hvað er sáttmálinn um þjóðarmorð? Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna.
Sérstakar kröfur frá Suður Afríku varðandi „Bráðabirgðaráðstafanir“
Í umsókn Suður Afríku er farið fram á „Bráðabirgðaráðstafanir“ af hálfu Alþjóðadómsstólsins að koma í veg fyrir aðgerðir sem gætu aukið eða lengt deiluna, á meðan málsmeðferð fyrir dómstólum heldur áfram á næsta stig.
- Tafarlaus stöðvun hernaðaraðgerða Ísraels í og gegn Gaza.
- Að tryggja að hernaðar- eða óreglulega vopnaðir hópar undir stjórn Ísraels, sem og samtök og einstaklingar undir stjórn þess, taki engin skref til að efla hernaðaraðgerðirnar sem nefndar eru í kröfu 1.
- Bæði Suður-Afríka og Ísrael verða, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt Þjóðarmorðssáttmálanum, að grípa til allra viðeigandi ráðstafana í þeirra valdi til að koma í veg fyrir þjóðarmorð gegn palestínsku þjóðinni.
- Ísrael er skylt að hætta að fremja verknað sem tilgreindur er í 2. grein Þjóðarmorðssáttmálans, þar á meðal að drepa meðlimi palestínskra hópa, valda alvarlegum líkamlegum eða andlegum skaða, að vísvitandi skapa lífsskilyrði sem valda líkamlegu tjóni og að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir fæðingar innan hópsins.
- Ísrael ætti að hætta aðgerðum, þar á meðal afturköllun viðeigandi fyrirmæla, takmarkana og banna, til að koma í veg fyrir brottvísun, nauðungarflutninga, sviptingu aðgangs að mat, vatni, mannúðaraðstoð, hjálpargögnum og eyðingu palestínsks lífs á Gaza.
- Að tryggja að ísraelski herinn, óreglulega vopnaðir hópar eða einstaklingar sem eru undir stjórn hans fremji ekki verknað sem lýst er í kröfum 4. og 5. og að grípa til refsiaðgerða ef slíkur verknaður á sér stað.
- Ísrael verður að grípa til árangursríkra ráðstafana til að koma í veg fyrir eyðileggingu og tryggja varðveislu sönnunargagna sem tengjast ásökunum um verknað sem falla undir 2. grein Þjóðarmorðssáttmálans, og heimila aðgang rannsóknarnefnda og alþjóðlegra aðila til Gaza í þessu skyni.
- Skila skýrslu til dómstólsins um allar ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að framfylgja úrskurðinum innan viku frá útgáfu hans og með reglulegu millibili þar til endanleg ákvörðun er tekin.
- Ísrael verður að forðast allar aðgerðir sem gætu aukið eða lengt deiluna fyrir dómstólnum eða gert hana erfiðari í úrlausn.
Ofangreint er úrdráttur (lausleg þýðing) úr skjalinu „A Comprehensive Overview of South Africa’s Legal Battle with Israel at the International Court of Justice“ frá Law for Palestine.
Bráðabirgðaúrskurður Alþjóðadómstólsins
Eftirfarandi er lausleg þýðing á bráðabirgðaúrskurði Alþjóðadómstólsins sem tekin var þann 26. janúar 2024 (sjá skjal að neðan):
VI. NIÐURSTAÐA OG AÐGERÐIR SEM SKAL INNLEIÐA (75.-84. GR.)
Dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu, á grundvelli ofangreindra sjónarmiða, að skilyrðin sem lög hans kveða á um að tilgreina bráðabirgðaráðstafanir séu uppfyllt. Því er nauðsynlegt, þar til lokaákvörðun hans er tekin, að dómstóllinn tilgreini ákveðnar ráðstafanir til að vernda réttindi sem Suður-Afríka krefst og sem dómstóllinn hefur talið raunhæfar. Í þessu máli, eftir að hafa skoðað skilmála bráðabirgðaráðstafana sem Suður-Afríka óskar eftir og aðstæður málsins, kemst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ráðstafanirnar sem tilgreina þarf þurfi ekki að vera eins og þær sem óskað er eftir.
Dómstóllinn telur að með tilliti til þeirra aðstæðna sem lýst er hér að ofan verði Ísrael, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt þjóðarmorðssáttmálanum, gagnvart Palestínumönnum í Gaza, að grípa til allra ráðstafana sem í valdi þess er að koma í veg fyrir að allar aðgerðir sem falla undir II. grein þessa samnings séu framdar, einkum: (a) að drepa meðlimi hópsins; (b) að valda alvarlegum líkamlegum eða andlegum skaða á meðlimum hópsins; (c) að þröngva vísvitandi lífsskilyrðum á hópinn sem ætlað er að valda líkamlegri eyðileggingu hans að hluta eða í heild; og (d) að grípa til aðgerða sem ætlað er að koma í veg fyrir fæðingar innan hópsins. Dómstóllinn minnir á að þessar athafnir falla undir gildissvið II. greinar samningsins þegar þær eru framdar með þeim ásetningi að eyða að hluta eða í heild hópnum sem slíkum. Dómstóllinn telur enn fremur að Ísrael verði að tryggja með tafarlausum hætti að herlið þess fremji ekki neina af ofangreindum athöfnum.
Dómstóllinn telur einnig að Ísrael verði að grípa til allra ráðstafana sem í valdi þess er að koma í veg fyrir og refsa fyrir beina og opinbera hvatningu til þjóðarmorðs í tengslum við meðlimi palestínska hópsins á Gazaströndinni.
Dómstóllinn telur enn fremur að Ísrael verði að grípa til tafarlausra og árangursríkra aðgerða til að gera kleift að veita brýna grunnþjónustu og mannúðaraðstoð til að takast á við erfið lífsskilyrði sem Palestínumenn á Gazaströndinni standa frammi fyrir. Ísrael verður einnig að grípa til árangursríkra ráðstafana til að koma í veg fyrir eyðileggingu og tryggja varðveislu sönnunargagna sem tengjast ásökunum um aðgerðir sem falla undir II. og III. grein þjóðarmorðsssáttmálans gegn meðlimum palestínskra hópa á Gazaströndinni.
Að lokum, í ljósi þeirra sértæku bráðabirgðaráðstafana sem dómstóllinn hefur ákveðið að tilgreina, telur hann að Ísrael verði að leggja fram skýrslu fyrir dómstólinn um allar ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að framfylgja þessari skipun innan eins mánaðar frá útgáfudag þessarar skipunar. Skýrslan sem lögð er fram skal síðan send Suður-Afríku, sem skal fá tækifæri til að leggja fram athugasemdir sínar við hana fyrir dómstólinn.
*
Dómstóllinn telur nauðsynlegt að leggja áherslu á að allir aðilar að átökunum á Gazaströndinni eru bundnir af alþjóðlegum mannúðarlögum. Hann hefur miklar áhyggjur af örlögum gísla sem voru rændir í árásinni á Ísrael 7. október 2023 og hafa verið haldið síðan af Hamas og öðrum vopnuðum hópum og kallar eftir tafarlausri og skilyrðislausri lausn þeirra.
Kæra Suður Afríku til Alþjóðadómsstólsins
Bráðabirgðaúrskurður Alþjóðadómsstólsins
Krækja í skjalið hjá Alþjóðadómstólnum.
Yfirlit yfir lagalega baráttu Suður-Afríku við Ísrael fyrir Alþjóðadómsstólnum
Heimildir:
Upplýsingar og gögn varðandi kæru Suður Afríku gegn Ísrael varðandi brot á Þjóðarmorðssáttmálanum.
