Hið siðferðislega neyðarástand Vesturlanda

Ein af uppáhaldsréttlætingum síonista fyrir þjóðarmorðinu í Palestínu er þessi: Ef hinsegin fólk fari þangað, yrði því kastað af húsþökum.

Þessi setning virðist lifa sjálfstæðu lífi og er gjarnan hreytt í hinsegin fólk sem sýnir samúð með saklausum borgurum sem sæta þjóðarmorði og linnulausu ofbeldi í Palestínu. Þessi setning á að lýsa svo grafalvarlegu siðferðislegu neyðarástandi á svæðinu að allar hernaðarlegar aðgerðir eru réttlætanlegar, sama hversu ómannúðlegar þær eru og sama hversu mörg börn og saklausir borgarar láta lífið.

Þetta er endurtekinn orðrómur sem fólk hættir að efast um því að það hefur heyrt þetta svo oft, enda hafa síonistar og vestrænir heimsvaldasinnar markvisst ýtt þessum áróðri áfram, þrátt fyrir að engar áreiðanlegar heimildir styðji þessa fullyrðingu. Fullyrðingin hefur orðið að einhvers konar sannleika í hugum þeirra sem annaðhvort vita ekki betur og eru hrædd eða vita betur og nota hana markvisst til að réttlæta dráp á almennum borgurum í heimshlutum sem þau hafa aldrei komið til.

Undirtónninn í þessu er svo að ofbeldi gegn hinsegin fólki sé eitthvað sem við þurfum að ferðast út fyrir okkar heimshluta til að sjá og upplifa, eins og það gerist ekki og hafi aldrei gerst á Íslandi. Eða bara hjá vinaþjóðum okkar í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem ofbeldi gegn hinsegin fólki hefur aukist gríðarlega síðustu ár og fjölmörg lagafrumvörp sem skerða réttindi hinsegin fólks, eða glæpavæða hinseginleika, eru lögð fram. Þannig gerir þessi áróður tvennt í senn: afmennskar múslima og reynir að réttlæta ofbeldi gegn þeim og býr til þá skökku ímynd að á Vesturlöndum sé ekki vegið að réttindum og öryggi hinsegin fólks.

Þessi áróður er samt ekki bara notaður um Palestínu þótt við heyrum hann að mestu í því samhengi þessa dagana. Þessi áróður er líka notaður um önnur ríki Mið-Austurlanda sem Bandaríkin og Ísrael sjá hagsmuni sína í að sprengia hverju sinni. Afmennskunin er orðin svo almenn að hugmyndin um múslima sem náttúrulega hómófóbíska hefur orðið eðlileg á Vesturlöndum. Þannig eru innflytjendur frá þessum löndum lika gerðir að óvinum okkar og okkur sagt að óttast þau – loka dyrunum fyrir hverju einasta þeirra. Fyrst og fremst eigum við að vera hrædd við þetta fólk, því að þar liggur afmennskunin.

En afhverju er hinsegin- og hómófóbía aðeins siðferðilegt neyðarástand þegar hún á sér stað í Mið-Austurlöndum? Svo alvarlegt neyðarástand að það réttlæti jafnvel skelflegustu glæpi sem framdir eru í mannlegu samfélagi? Hvað ef við yfirfærum þetta yfir á Bandaríkin?

Í ríkjum Bandaríkjanna eru nú lögð fram hundruðir lagafrumvarpa gegn hinsegin fólki. Ofbeldi hefur aukist til muna, gerðar eru skotárásir á hinsegin skemmtistaði, sjálfvígstíðni hinsegin ungmenna hækkar og réttindi hinsegin fólks eru afnumin eða í hættu í fjölda ríkja Bandaríkjanna. Tjáningarfrelsi og málfrelsi er heft og vegið er að grundvallarréttindum fólks til að koma saman. Eru ríkislög í Texas eða hatursglæpir í Flórída þá orðin réttlæting fyrir sprengjuregni á almenna borgara í Bandaríkjunum? Er hið siðferðislega neyðarástand orðið þess eðlis? Eigum við að setja þessar hundruði milljóna Bandaríkjamanna undir sama hatt og gera þau réttdræp í hugum okkar vegna þessa? Er það jafnvel ástæða til að varpa sprengjum á Kanada? Ef ég myndi svo kalla þetta þjóðarmorð og stríðsglæpi, væru eðlileg viðbrögð að segja „Hversu heimskur geturðu verið? Þú yrðir skotinn í Bandaríkjunum.“ Þetta er auðvitað vitfirrt, eiginlega alveg galið að skrifa þetta niður, en þetta eru engu að síður rökin sem fólk notar til að réttlæta dráp á saklausum palestínskum borgurum eða hatur sitt á múslimum sem flýja átökin. Og það er vitfirrt.

Við þurfum virkilega að íhuga hvert hið raunverulega siðferðislega neyðarástand sem Vesturlönd þurfa að glíma við er. Það birtist þegar það er bent á okkur og sagt: „Það er verið að vernda þau!“ í þeim eina tilgangi að réttlæta þjóðarmorð í fjarlægum heimsálfum. Það birtist okkur í Reykjavík þegar ráðist er á hinsegin fólk vegna þess hvernig það lítur út, eða skrifaðar eru um okkur níðgreinar á samfélagsmiðlum. Þegar það er gelt á eftir okkur. Það birtist í múslimahatri og íslamófóbíu sem við finnum áþreifanlega á Íslandi þessa dagana. Það birtist okkur þegar jafnaðarmenn og frjálslyndir einstaklingar apa upp áróður öfga-hægrisins til að auka fylgi sitt í staðinn fyrir að leiðrétta þær. Svo fátt eitt sé nefnt.

Þad er hættulegt þegar markvisst er ýtt undir ótta hjá okkur og hann nýttur til að knýja fram samþykki í þágu hernaðar, þjóðarmorðs og íslamafóbíu. Það er ofbeldi gagnvart okkur líka. Við megum ekki láta ræna okkur hjartanu og rökhugsuninni. Það er það sem óttinn gerir og það er markmiðið með þessum hræðsluáróðri. Þannig verðum við ekkert nema verkfæri þeirra sem leitast við að afmennska nágranna okkar og drepa fólk i öðrum heimshlutum. Þessi ótti, þetta hatur og ofbeldið sem það leiðir af sér gera okkur ekki örugg. Að lokum verðum við bara að bandamönnum kúgarans og glötum sjálf mennskunni.

The West’s Ethical Crisis

A familiar Zionist trope claims LGBTQ+ people would be thrown off rooftops in Palestine – a myth repeated so often it’s taken as fact, despite no credible evidence. This rhetoric dehumanises Muslims and justifes atrocities, while ignoring rising queerphobia and anti-LGBTQ+ laws in the West. By contrasting this hypocrisy with escalating homophobic violence in the United states, the author condemns how fear is manufactured to enable war, Islamophobia and authoritarianism. The true ethical crisis lies not abroad but within societies surrendering reason and empathy to propaganda. When fear becomes policy, humanity itself is at stake.

Birtist í Tímariti Hinsegin daga.

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top