Heilsugæslustöðvar og sjúkrahús ættu að vera griðland allra. En ekkert virðist heilagt í augum ísraelskra hermanna. Hermenn ráðast daglega inn á sjúkrahús til að leita að slösuðum mönnum sem þeir vilja handtaka.
Jafnvel heilsugæslustöðvar UNRWA (á vegum Sameinuðu þjóðanna) eru ekki óhultar fyrir ágengni og árásum ísraelskra hermanna. Margir slasaðir unglingar forðast sjúkrahúsin til að komast hjá handtöku. Afleiðingin verður sú að bein þeirra gróa illa og þeir fá alls kyns sýkingar. Palestínumönnum er oft neitað um læknismeðferð. Mörg dæmi eru þess að hermenn torveldi ferðir sjúkrabíla. Dr. M. Al-Aker, sérfræðingur í þvagfæralækningum við nokkur sjúkrahús á Vesturbakkanum og í Jerúsalem, sagði við blaðamenn í London að með því að tefja af ásettu ráði ferðir sjúkrabíla, væri herinn valdur að dauða margra sem slasast hafi. Endurhæfing fatlaðra er að verða eitt af stærstu langtíma verkefnum palestínskrar heilbrigðisþjónustu og er ekki víst að Palestínumenn ráði einir við þetta verkefni.
Birtist í Frjáls Palestína.
