Hvað sögðu Palestínumenn við Baker?

Þriðjudaginn 12. mars hittu málsmetandi Palestínumenn frá herteknu svæðunum í Palestínu utanríkisráðherra Bandaríkjanna, James Baker, í Jerúsalem. Þetta var fyrsti fundur háttsetts bandarísks embættismanns og fulltrúa Palestínumanna á herteknu svæðunum síðan 1986. Palestínumennirnir gerðu það fyllilega Ijóst að þeir hittu Baker að fengnu leyfi Frelsissamtaka Palestínumanna, PLO.

Í nefnd Palestínumanna sátu Faisal Husseini, formaður Félags arabískra fræða í Jerúsalem, Freih Abú Midyan, formaður félags lögfræðinga í Gaza, Hanan Ashrawi, lektor í enskum bókmenntum við Bir Zeit háskólann, Mústafa al-Natshe, fyrrverandi borgarstjóri í Hebron, Saeb Erakat, lektor í stjórnmálafræðum við an-Najah háskólann, Hanna Seniora, ritstjóri blaðsins al-Fajr, Zahira Kamal, formaður Samtaka útivinnandi kvenna, Maher el-Masri, kaupsýslumaður í Nablús, Haidar Abdul Shafi, formaður Rauða hálfmánans í Gaza og Elías Freij, borgarstjóri í Betlehem. Í nefndinni voru ekki fulltrúar næststærstu stjórnmálasamtaka Palestínumanna, PFLP og DFLP. Þeir töldu óráðlegt og tilgangslaust að hitta James Baker.

Rétt er að geta þess að fundurinn bar ekki árangur. Stefna Bandaríkjanna er að koma f veg fyrir að Palestínumenn geti neytt sjálfsákvörðunarréttar síns. Friðartilraunir Bakers eru að dómi margra Palestínumanna settar á svið til að hjálpa Ísrael að vinna tíma og festa hernám sitt í sessi. Bandaríkjamenn neita að ræða við PLO eða viðurkenna formlega rétt palestínsku þjóðarinnar til sjálfsákvörðunar. Þennan rétt viðurkenna öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna nema Bandaríkin og Ísrael.

Hér á eftir er birtur hluti af greinargerð þeirri, sem nefndin afhenti James Baker á fundinum.

„Við, Palestínumenn þátttakendur í Intifada, sá hluti palestínsku þjóðarinnar sem fremur afber ok hernáms en fara í útlegð og tvístrast, lýsum hér með yfir:

  1. Frelsissamtök Palestínumanna, PLO, eru einu réttmætu forystusamtök okkar; í þeim felst þjóðarvilji okkar og þau tjá vilja Palestínumanna, hvar sem þeir búa. Sem slík hafa samtökin umboð til að fara með okkar mál í öllum pólitískum samningum, þau hafa lýðræðislegt umboð til þess frá palestínskri alþýðu og njóta yfirgnæfandi stuðnings meðal Palestínumanna. Palestínumenn einir hafa rétt til að velja sína forystu og munu ekki líða tilraunir annarra til afskipta í þessu afdrifaríka máli.
  2. Við staðfestum stuðning okkar við þá friðaráætlun og stefnuyfirlýsingu, sem birtast í ályktunum 19. þings Þjóðarráðs Palestínumanna frá því í nóvember 1988. Við höldum fast við ásetning okkar að vinna að réttlátri pólítískri lausn á deilu Ísraels og Palestínumanna á þessum grundvelli. Markmið okkar eru óbreytt: Að stofna Palestínuríki á palestínsku landi við hlið Ísraelsríkis og innan ramma tveggja-ríkja lausnarinnar.
  3. Við lýsum tryggð okkar við alþjóðalög með því að samþykkja og styðja allar ályktanir Sameinuðu þjóðanna er varða Palestínumálið; við biðjum um að þeim verði framfylgt tafarlaust og án undanbragða.
  4. Það er nauðsynlegt að þjóðarréttindi Palestínumanna verði viðurkennd og tryggð – sér í lagi réttindi okkar til sjálfsákvörðunar, frelsis og eigin ríkis.
  5. Hið alþjóðlega samfélag má ekki leyfa sumum ríkum að hegða sér eins og þau séu hafin yfir reglur og lög er varða samskipti þjóða. Það á ekki að leyfa Ísraelsríki að halda áfram að hunsa, hafna eða brjóta í bága við ályktanir Sameinuðu þjóðanna er varða Palestínumenn, einkum og sér í lagi með innlimun austurhluta Jerúsalemborgar, landnámi á herteknu svæðunum og upptöku lands og annarra auðlinda. Í þessu sambandi er brýnt að tryggja framkvæmd IV. Genfarsáttmálans frá 1949, svo óbreyttir og vopnlausir borgarar á herteknu svæðunum þurfi ekki að sæta ofbeldi hernámsliðsins. Það á að vernda fólkið fyrir sífelldum brotum á grundvallarmannréttindum, hóprefsingum á borð við það að leggja hús þess í rúst, loka skólum og háskólum, útgöngubönnum, herkví og efnahagslegri kúgun.
  6. Ísraelsmenn hegða sér eins og þeir eigi herteknu palestínsku svæðin. Þetta ólöglega framferði þarf að stöðva tafarlaust. Palestínumenn verða að fá einhverja vernd og Ísrael að bera ábyrgð á gerðum sínum. Sameinuðu þjóðirnar, einkum Öryggisráðið, verða að fá umboð til að fylgja þessu eftir.
  7. Friðarumleitanir verða að halda áfram, bornar fram af vilja samfélagi þjóðanna óháðar þvermóðsku Ísraelsmanna.
  8. Besta ráðið til að koma friðarsamningum áleiðis er hin alþjóðleg ráðstefna sem nær áþreifanlegum árangri. Sérhvert bráðabirgða fyrirkomulag á að vera liður í heildaráætlun, sem hefur að markmiði – innan skilgreinds tíma – að Palestínumenn geti stofnað eigið ríki.
  9. Það má ekki leyfa Ísraelsríki að grafa undan friðarumleitunum með því að skapa nýjar aðstæður á herteknu svæðunum, breyta stöðu og ásýnd svæðanna og samsetningu íbúanna. Óþolandi er að svipta Palestínumenn forystu sinni með því að handtaka og fangelsa pólitíska talsmenn og friðarsinna en það verður að taka enda. Pólitíska fanga verður að leysa úr haldi. Járnhnefastefna Ísraels og aukin kúgun á Palestínumönnum hafa ekki aðeins hörmulegar afleiðingar fyrir daglegt líf þeirra heldur kynda undir hatri og biturð sem grafa undan friðartilraunum.
  10. Öryggi í Austurlöndum nær verður aðeins tryggt með einlægum friði sem samfélag þjóðanna skuldbindur sig til að framfylgja, ekki með vígbúnaði, ofbeldi og yfirgangi. Einlægur friður og stöðugleiki verða að veruleika þegar menn beina sjónum að grundvallar orsökum deilna með alvarlegum hætti og með heildarlausn í huga. Palestínumálið er lykillinn að öryggi á svæðinu. Aðeins með því að leysa deilu Ísraels og Palestínumanna verður unnt að finna varanlega og réttláta lausn á deilu Ísraels við arabaheiminn.
  11. Það er hægt að koma á stöðugleika og velferð á svæðinu öllu í framtíðinni með samvinnu, sem byggist á gagnkvæmni, og með því að viðurkenna og framfylgja sameiginlegum hagsmunum og réttindum.

Sem hernumdir Palestínumenn getum við horft til lengri tíma, fram hjá núverandi ranglæti og kúgun, fram til þess dags þegar friður og stöðugleiki ríkja. Með þessu undirstrikum við rétt þjóðar okkar, tryggð okkar við vilja samfélags þjóðanna og bindum vonir okkar við nýja heimsskipan sem byggist á réttlæti og siðgæði.“

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top