Svo kom herinn

Sigurlaug Ásgeirsdóttir heitir íslensk kona sem giftist Palestínumanni fyrir tæpum tuttugu árum. Maðurinn hét Ali Allan Jamil Shwaiki og vann hér sem verslunarmaður uns hann lést í ágúst 1989. Þau eignuðust 4 börn sem öll hafa alist upp hér á landi. Shwaiki var frá borginni Hebron á vesturbakka árinnar Jórdan.

Fp svo kom herinn mai 1992 1
Sigurlaug og Ami Shewaiki ásamt börnum sinum fyrir framan „Dome of the Rock“ i Jerúsaiem. Börnin eru Ásgeir Jamil, Diana, Hilda og Sara. Sigurlaug er fyrir miöri mynd en Ami lengst til hægri

Hebron er arabísk borg og þangað fór Sigurlaug nokkrum sinnum í heimsókn til ættingja manns síns í fylgd með honum. Fyrst kom hún þangað árið 1974 og nokkrum sinnum síðan, þar til 1987 að þau hjón bjuggu í Hebron í eitt ár. Með tilliti til atburða á þessum slóðum sem enn eru í fréttum þótti Frjálsri Palestínu ástæða til að hitta Sigurlaugu að máli og spyrjast fyrir um hennar reynslu af lífinu þarna.

– Hafa breytingar orðið í Hebron frá því þú komst þar fyrst?

„Já það eru miklar breytingar þarna. Gyðingar hafa tekið lönd af fólkinu og lagt undir sig byggingar eða jafnað þær við jörðu. Erfiðleikarnir hafa stóraukist.“

– Geturðu lýst ástandinu eins og þú sást það síðast?

„Það er af mörgu að taka. T.d. voru tveir synir mágkonu minnar, 17 og 18 ára gamlir, teknir úti á götu, þar sem þeir voru í krakkahóp. Þeir voru sakaðir um að hafa kastað steinum í hermenn. Herinn tók þá og dæmdi þá í eins árs fangelsi. Svona rassíur eru algengar. Svo kom herinn, innsiglaði hús foreldranna og rak fjölskylduna út. Fólkið fékk ekki húsið aftur fyrr en strákarnir losnuðu úr fangelsinu. Þau voru heppin því oft fær fólk ekki húsin aftur er svona lagað gerist. Oft er rafmagn tekið af íbúðahverfum, t.d. á morgnana eða á kvöldin. Árið sem ég bjó þarna var rafmagn eitt sinn tekið af samfellt í 17 daga. Fólkið sækir vatn í brunna og hífir uppúr þeim vatnið með rafmagnsdælum. Þegar rafmagnið fer verður fólkið að hala föturnar upp með handafli.“

– Voru átök þarna á þeim tíma?

„Gyðingar reyna allt til að æsa fólk upp. Ísraelsríki bannar aröbum að bera vopn og er því banni rækilega fylgt eftir. Gyðingar mega hins vegar bera hvaða vopn sem er. Þá var skólum lokað í desember 1987 og hefur öll kennsla verið mjög slitrótt síðan. Þarna er greinilega verið að eyðileggja menntun og menningu arabísku þjóðarinnar.“

– Er þá nokkuð til þarna sem getur kallast eðlilegt llf?

„Nei, það er allt gert til að trufla eðlilega lífshætti. Enginn arabi má t.d. vera á ferð eftir miðnætti í Jerúsalem en í Hebron var öll bílaumferð araba bönnuð eftir kl. 6 á daginn. Oft var útgöngubann dögum saman.“

– Þetta hafa verið mikil viðbrigði fyrir þig?

„Rosaleg viðbrigði. Þarna hefur allt verið á niðurleið. Fólk getur ekki stundað eðlilega vinnu, eða lifað venjulegu lífi. Fólkið er mjög duglegt og ræktar mikið sjálft til matar. Þannig bjargast margir, en þeir sem ekki eiga land fá hjálp frá vinum og kunningjum. Fólkið er gott og afar hjálpsamt. Allir reyna að hjálpast að við þessar erfiðu aðstæður. Fólk reynir að telja kjark hvert í annað og þraukar. Það reynir að lifa í von um að þessu linni einhverntíma. Enginn veit hvað kemur út úr friðarviðræðunum, en þær eru það eina sem fólk reynir að treysta á.“

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur (Jón frá Pálmholti) var rithöfundur og blaðamaður.

Scroll to Top