Minningarbrot úr ferðum mínum til Palestínu

Ég hef komið nokkrum sinnum til Palestínu. Faðir minn var fæddur í Jerúsalem og ólst þar upp til 5 ára aldurs en þá var fjölskylda hans rekin burt úr húsi þeirra. Þurftu þau að fara fótgangandi til Hebron og dó 5 ára systir hans á leiðinni. Hann bjó þar til rúmlega tvítugs og fluttist þá til Íslands.

Ég fór oft ásamt foreldrum mínum og systkinum til Palestínu. Það hafa orðið svo miklar breytingar þar, frá því ég kom þangað fyrst. Ég lék mér við krakkana og heyrði og sá margt sem enginn hér á landi gæti látið sér detta í hug að fólk þyrfti að búa við.

Ísraelski herinn og landnemarnir koma svo hroðalega illa fram við fólkið. Það finnst varla sú fjölskylda sem ekki á skyldmenni sem hafa verið sett í fangelsi – í flestum tilfellum án neinna saka, bara fyrir að vera Palestínuarabi – eða barin og heimili þeirra skemmd, jafnvel jöfnuð við jörðu eða innsigluð.

Árið 1989 var ástandið ömurlegt, útgöngubann eftir kl. 6-7 á kvöldin, jafnvel fyrr. Skólum og verslunum yfirleitt lokað. Ég fór í heimsókn til fjöldskyldu manns míns í ágúst 1992. Þá var orðin mikil breyting, eins og alltaf þegar ég kem þangað. Núna þurftu allir að fá sérstakt leyfi til að fara á milli Hebron og Jerúsalem og brot á því varðaði sekt sem nemur 10 dag-launum. Það er mikið um að sömu fjölskyldur búi á báðum þessum stöðum. Það má líkja þessu við að það þyrfti leyfi til að fara á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Það er ömurlegt hvað Ísraelsmenn geta kúgað Palestínumenn mikið. Heimurinn virðist vera algjörlega lokaður fyrir því sem Ísraelsmenn gera, þeir komast upp með hvað sem er. Ísraelski herinn er uppi á flestum háum húsum í Hebron svo þeir sjá yfir allt. Þeir eru líka búnir að loka öllum útgönguleiðum út úr Hebron, svo að þeir geti lokað henni þegar þeim dettur í hug.

Það má segja að Hebron sé borg í sóttkví, eins og eflaust flestar arabískar borgir á Ísralskum hernámssvæðum.

Birtist í Frjáls Palestína.

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top