Árið 1991 nam fjárhagsstuðningur norskra yfirvalda við palestínumenn u.þ.b. 750 milljónum íslenskra króna. U.þ.b. 80% af þessu fé fór til UNRWA, stofnunar Sameinuðu þjóðanna til stuðnings palestínskum flóttamönnum, en afgangurinn, 120 milljónir, fór til frjálsra félaga í Palestínu gegnum norsk félög sem vinna að hjálparstarfi í Palestínu í samstarfi við þarlend félög.
Þetta getur talist góður stuðningur á norskan mælikvarða, hvað þá á íslenskan. Að sögn Jan Egeland, fulltrúa í norska utanríkisráðuneytinu, felst í svo myndarlegum stuðningi eins konar stuðningsyfirlýsing og pólitísk uppörvun við þjóð sem ekki fær ráðið eigin framtíð og á í erfiðleikum með að byggja upp eigið atvinnulíf vegna hörku hernámsstjórnarinnar.
Ef sjálfstjórn Palestínumanna á hernumdum svæðum eflist vonast menn til að hægt sé að draga úr beinni neyðaraðstoð og auka aðstoð til sjálfshjálpar að sama skapi. Þá skiptir mestu að styðja Palestínumenn í því að taka sem flest mál í eigin hendur, að auka getu staðbundinna félaga til að byggja upp félög, fyrirtæki og stofnanir.
Það er til umræðu í Noregi að láta meira af aðstoðinni renna til frjálsra félaga, einkanlega til atvinnuskapandi verkefna í Palestínu.
Unnið upp úr ritstjórnargrein í Fritt Palestína og Palestina-Nytt. ÞÖÁ
Birtist í Frjáls Palestína.
