Útifundur 30. des. 1992

Þann 30. desember 1992 gekkst félagið fyrir útifundi á Lækjartorgi með minna en tveggja sólarhringa fyrirvara. Tilefnið var brottnám 415 Palestínumanna frá heimilum sínum og nauðungarflutningur þeirra úr landi yfir á land Líbanons (svæði sem er hertekið af Ísrael), þar sem þeir eru enn á einskismannslandi við verstu skilyrði.

Frumkvæði að þessum útifundi með svo litlum fyrirvara kom frá fólki úr verkalýðshreyfingunni, sem hringdi inn á stjórnarfund 28. des., þar sem málið var á dagskrá, en ekki gert ráð fyrir aðgerðum fyrr en eftir áramót. Undirbúningur og framkvæmd tókst eins og best varð á kosið, með góðum stuðningi allra helstu samtaka launafólks, þar á meðal Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Verkamannasambands Íslands, Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, Trésmíðafélags Reykjavíkur, Félags járniðnaðarmanna, Starfsmannafélags ríkisstofnana, Iðju o.fl. Ræðumenn fundarins voru Steingrímur Hermannsson alþingismaður og fyrrv. forsætisráðherra og Ögmundur Jónasson form. BSRB. Fundarstjóri var Sveinn Rúnar Hauksson læknir, formaður Félagsins Ísland-Palestína.

Kröfur dagsins

Í ályktun fundarins var þess krafist að Palestínumennirnir 415 fái tafarlaust að snúa heim til sinna fjölskyldna og að íbúar herteknu svæðanna fái alþjóðlega vernd. Fundurinn skoraði á ríkisstjórn Íslands að stuðla að refsiaðgerðum gegn Ísrael ef þarlend stjórnlönd lúti ekki alþjóðalögum.

Útifundurinn gerði þá kröfu til ríkisstjórnar Íslands að hún tjái Ísraelsstjórn fordæmingu Íslendinga á voðaverkum ísraelska hernámsliðsins og vísaði til þess að fjölmargir óbreyttir borgarar, jafnt börn sem fullorðnir, hefðu verið skotnir til bana vegna mótmæla þeirra við útlegðardómi 415-menninganna. Fundinn sóttu 4-500 manns. Stuðningsskeyti bárust og tónlist fluttu KK og Stella Hauks. Nokkrum mínútum fyrir fundinn gaf utanríkisráðuneytið út fréttatilkynningu sem send var útifundinum og kynnt þar.

Yfirlýsing utanríkisráðherra

Í fréttatilkynningunni segir: „Utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur í dag ritað forsætisráðherra Ísrael, Yitzhak Rabin, þar sem hann lýsir áhyggjum íslenskra stjórnvalda vegna aðstæðna 400 landlausra Palestínumanna, sem ísraelsk stjórnvöld vísuðu frá hernumdu svæðunum fyrir jól. Í bréfinu eru ísraelsk stjórnvöld m.a. hvött til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja umræddum Palestínumönnum verði séð fyrir nauðþurftum. Einnig er látin í Ijósi von um að ákvörðun um brottvísun Palestínumannana verði afturkölluð og að mál þeirra fái eðlilega meðferð fyrir dómstólum.“

Afstaða forsætisráðherra

Ríkisútvarpið átti viðtal við Davíð Oddsson, forsætisráðherra, í aðalkvöldfréttatíma 30/12. Forsætisráðherrann byrjaði á því að lýsa þeirri skoðun sinni að það væri alveg Ijóst að þau vandamál sem Ísraelsríki ætti við að stríða hefðu ekki verið leyst með stjórnarskiptum. Hann vísaði í þessu sambandi til þeirra vandamála sem blöst höfðu við honum hvarvetna í heimsókn hans til Ísrael fyrir tæpu ári síðan. Hvað snerti mál dagsins væri það „ekki viðurkennt af hálfu neinna þjóða að hægt sé að vísa borgurum burtu á þann hátt sem Ísraelsstjórn reynir að gera þarna“. Davíð vísaði á bug þeim hugmyndum að það fælist einhver lausn í því að bjóða Palstínumönnunum hæli sem flóttamönnum í einhverju öðru landi. Það væri hvorki vilji þeirra sjálfra [Palestínumannanna] né þeirra þjóða sem hefðu látið málið til sín taka, að hægt sé að vísa þessum mönnum á burtu úr sínum heimkynnum eins og þarna er reynt að gera. Forsætisráðherra sagði að „þjóðirnar og stjórnvöld í hverju landi fyrir sig eigi að beita Ísraelsmenn þrýstingi að láta af framferði af þessu tagi.“

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er læknir, formaður Félagsins Ísland Palestína (1991-2016) og heiðursborgari í Palestínu (frá 2015).

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top