„Fyrst Gaza og Jeríkó“

Washington-yfirlýsingin 13. september 1993:

Eins og heiti yfirlýsingarinnar ber með sér, sem Ísraelsstjórn og palestínsku fulltrúarnir komust að samkomulagi um síðastliðið haust, var henni ætlað að vera fyrsta skref að því að Ísrael skili herteknu svæðunum til palestínsku þjóðarinnar. Í upphafi lýsa viðræðuaðilar yfir því að „tími sé kominn til að binda enda á áratuga átök og deilur, virða gagnkvæm lögmæt og pólitísk réttindi og freista þess að búa í friðsamlegri sambúð með gagnkvæmri virðingu og öryggi til að ná réttlátri, varanlegri heildarlausn og sögulegum sáttum með því pólitíska ferli sem samkomulag er um“. Hér er í sjálfu sér ekki um friðarsamkomulag, það er varanlega heildarlausn, heldur samkomulag um markmið friðarviðræðna og hvernig vinna skuli að varanlegum friði. Hér fer á eftir greinargerð um fyrri hluta samkomulagsins sem var yfirlýsing um grundvallarreglur varðandi tímabundna sjálfstjórn. Síðari hlutinn innihélt viðauka um framkvæmd einstakra þátta og samþykkta minnispunkta um þessa yfirlýsingu grundvallaratriða og fylgir sá hluti ekki hér.

Fp fyrst gaza jeriko jan 1994 1

Texti sá sem stuðst er við er enska útgafan, samkvæmt AP-fréttastofunni, og birtist hún í dagblaðinu New York Times 1. september 1993. Eftir því sem næst verður komist er hann í samræmi við samkomulagið sem Shimon Peres fyrir hönd Ísraels og Mahmoud Abbas fyrir hönd Palestínu undirrituðu á grasflötinni við Hvíta húsið í Washington 13. september 1993.

Í 1. kafla yfirlýsingarinnar er gerð grein fyrir markmiði viðræðnanna. Þau er meðal annars að koma á tímabundinni sjálfstjórn Palestínumanna á Gazaströnd og Vesturbakka Jórdanár á umbreytingaskeiði sem verði lengst fimm ár og sem leiði til heildarlausnar er grundvallist á ályktunum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 242 og 338. Þær gera ráð fyrir að Ísraelar dragi her sinn til baka frá herteknu svæðunum, að stríðsátökum verði hætt og samið um varanlegan frið. Í 2. kafla er því einfaldlega lýst yfir að hér sé um að ræða ramma fyrir áfangalausn eða millibilsskeið (interim period). Í yfirlýsingunni er síðan gerð grein fyrir nokkrum grundvallarreglum um frjálsar kosningar og lögsögu kjörins ráðs yfir Vesturbakkanum og Gazasvæðinu. Kosningar til ráðsins eiga að fara fram ekki síðar en 9 mánuðum eftir að yfirlýsingin tekur gildi, það er ekki síðar en 13. júlí 1994 (3. og 4. kafli). Þá er fjallað um umbreytingaskeiðið en með því er átt við tímabil, hámark fimm ár, frá brottflutningi Ísraelshers frá Gazaströnd og Jeríkósvæði og þar til varanleg heildarlausn er fengin á deilumálum þjóðanna. Þann tíma á að nota til að semja um öll önnur mikilvæg mál sem enn hefur ekki náðst samkomulag um: Framtíð Jerúsalemborgar, málefni flóttamanna, landnemabyggðir, öryggismál, landamæri, samskipti og samstarf við nágranna og önnur sameiginleg hagsmunamál (5. kafli).

Fp fyrst gaza jeriko jan 1994 2
Þannig sér teiknarinn efndirnar á því ákvæði samkomulagsins að brottflutningur Ísraelsmanna skuli hefjast ekki síðar en 13.desember

Í 6. kafla er fjallað um hvenær og hvernig Palestínumenn taka við völdum og ábyrgð einstakra málaflokka úr höndum hernámsliðsins og í 7. kafla er kveðið á um gerð samkomulags um stjórn innri mála á millibilsskeiðinu („interim agreement“). Hér er átt við hafnarmál, vatnsveitu, rafveitu, umhverfismál, banka- og útflutningsmál og margt fleira. Í lok þessa kafla er tekið fram að þegar hið kjörna ráð hafi verið stofnsett, væntanlega ekki síðar en 13. júlí 1994, verði hernámsyfirvöldin (civil administration) leyst upp og ísraelska herstjórnin hafi sig á brott.

Í 8. kafla er fjallað um palestínska lögreglusveit sem tryggi innra öryggi Palestínumanna og haldi uppi lögum og reglu á Vesturbakkanum og Gazaströnd. Ísrael er hinsvegar ætlað að sjá um varnir gegn hugsanlegri ytri ógn á umbreytingarskeiðinu. Í 9. kafla er greint frá löggjafarvaldi hins kjörna ráðs og jafnframt því að aðilarnir muni koma sér saman um endurskoðun laga og hernaðarfyrirmæla sem gilt hafa. Í 10. kafla er sagt frá ísraelsk-palestínskri samstarfsnefnd sem samræmi þar sem það við á og leysi úr deilumálum. Í 11. kafla er fjallað um samvinnu á efnahagssviði og í 12. kafla um samstarf og samvinnu við Jórdaníu og Egyptaland. Í þessum síðastnefnda kafla er vikið að heimferð palestínskra flóttamanna er hröktust til þessara landa árið 1967 og hvernig framkvæmd þeirra mála verði háttað. 13. kafli fjallar um hvernig ísraelski herinn verði fluttur til. Hér er kveðið á um brottflutning Ísaelshers frá Vesturbakkanum og Gazaströnd, þ. e. frá byggðum svæðum. Frekari tilflutningur hersins á að vera í samræmi við framkvæmd 8. kaflans, það er samhliða því að palestínskar lögreglusveitir taka við löggæslu og öryggismálum á öllu svæðinu. Í 14. kafla er fjallað um brottflutning Ísraelsmanna frá Gazaströnd og Jeríkósvæði, en hann átti að hefjast ekki síðar en 13. desember, það er þrem mánuðum eftir að samkomulagið tók gildi. 15. kafli greinir frá því hvernig leysa á úr deilumálum. Fyrir utan samstarfsnefndina í 10. kafla er gert ráð fyrir stofnsetningu gerðardóms. Í 16. kafla er fjallað um fjölþjóða samvinnu með nágrannaþjóðum, „Marshall-áætlun“, og aðrar áætlanir á sviði efnahagssamvinnu, þar á meðal sérstakar áætlanir fyrir Vesturbakkann og Gazaströnd. Í 17. kaflanum sem er lokakafli þessarar yfirlýsingar var gildistöku samkomulagsins lýst mánuði eftir undirskrift og jafnframt að meðfylgjandi viðaukaskrár og samþykkt minnisatriði bæri að líta á sem eina heild með yfirlýsingunni.

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er læknir, formaður Félagsins Ísland Palestína (1991-2016) og heiðursborgari í Palestínu (frá 2015).

Scroll to Top