Friður á næsta leiti

Yfirlýsingin, sem undirrituð var af fulltrúum Palestínu og Ísraels í Washington 13. september 1993, vakti almennan fögnuð, enda þótt ýmsir yrðu til að véfengja gildi hennar. Þótt ekki væri tekið á mörgum mikilvægustu deilumálum svæðisins fyrir botni Miðjarðarhafs, þótti flestum sem yfirlýsingin væri afar mikilvægt skref úr langvarandi þrátefli. Í undirritun hennar fólst ekki síst viðurkenning Ísraels á tilverurétti palestínsku þjóðarinnar, að minnsta kosti í orði.

Eitt af þeim stóru málum sem var óleyst 13. september og einungis nefnt í yfirlýsingunni voru afdrif pólitískra fanga sem voru yfir 13 þúsund talsins og hefur enn lítið fækkað. Það var fagnaðarefni að þetta skyldi vera eitt fyrsta málið sem tekið var á dagskrá í tvíhliða viðræðum Ísraels og Palestínu til fullnægingar samkomulaginu. Fljótlega var nokkrum hundruðum pólitískra fanga sleppt og þá fyrst börnum og unglingum, konum og sjúklingum. Þá hefur þeim 415 manns sem rænt var af heimilum sínum fyrir ári síðan af Ísraelsher loksins verið leyft að snúa heim. Enn er þó langt í land með að öllum pólitískum föngum hafi verið sleppt. Þvert á móti virðist Ísraelsstjórn ætla að stunda þann Ijóta leik að nota fangana sem skiptimynt í viðræðunum.

Brottflutningur Ísraelshers af Gazasvæðinu og frá Jeríkó átti að hefjast 13. desember s.l. Ísraelsstjórn stóð ekki við þetta mikilvæga atriði og hleypir það samkomulaginu að sjálfsögðu í uppnám og orsakar aukna vantrú á raunverulegan vilja Ísraelsstjórnar til að viðurkenna þjóðarréttindi Palestínumanna.

Bandaríkjastjórn hefur svarað bón Palestínumanna neitandi um að beita áhrifum sínum til að Ísrael standi við Washington-yfirlýsinguna. Mjög greinir á um ýmis atriði hennar, til dæmis hvort með Jeríkó sé átt við borgina, sem er um 25 ferkílómetrar að stærð eða Jeríkó sem sýslu, en hún er um 340 ferkílómetra svæði. Þá hafa Palestínumenn gert kröfu til þess að Ísraelsher verði allur á brott og vilja sjálfir gæta landamæra frelsuðu svæðanna.

Um þessi mál er tekist og mörg fleiri, þar á meðal rétt flóttamanna til að snúa heim aftur. Það er enn mjög á huldu hvert mál stefna í kjölfar Washington-yfirlýsingarinnar. Hitt er víst að fyrr eða síðar mun Palestínska þjóðin fá rétt sinn til að búa í eigin landi með stjórn sem hún kýs sér sjálf.

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er læknir, formaður Félagsins Ísland Palestína (1991-2016) og heiðursborgari í Palestínu (frá 2015).

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top