Vonandi opnast augu þeirra

Sigurlaug Ásgeirsdóttir, varaformaður Félagsins Ísland-Palestína, er Íslendingur en hún var gift Palestínumanni í mörg ár. Hún hefur lengst af búið á Íslandi en bjó þó í Palestínu um tíma, á Vesturbakkanum svonefnda.

„Ég kom þangað síðast 1989 og var þá í 8 mánuði. Ég hef ekki mikil tengsl í dag en tengdarsonur minn er frá borginni Hebron. Þar hafa oft verið mikil læti og mikill rígur nú, því þar er mest um landnema. Stærsta og ein elsta gyðingabyggðin á Vesturbakkanum Kiryet Arba, liggur utan í Hebron. Landið var tekið af landi Hebronbúa. Ég þekki best til í Hebron og þar er kúgunin á fólkinu hvað mest.“

– Nú er verið að semja um ákveðin réttindi til handa Palestínumönnum í eigin landi, að vísu takmörkuð. Hvaða áhrif heldur þú að það hafi á líf fólks, t.d. í Hebron? Hefur það breytt einhverju?

„Varla meðan gyðingar eru áfram í Hebron og yfirgefa ekki það sem þeir hafa tekið. Þeir hafa hertekið opinberar byggingar eins og skóla og meira að segja strætisvagnastöðina.

Þeir búa þar með fjölskyldur sínar sem landnemar og eru þarna með gaddavír og loka götunum af. Á meðan þeir halda þessu öllu og geta gengið um alvopnaðir, þá sé ég ekki að mikið breytist á svona stöðum fyrir þetta fólk.“

– Þetta hljómar ótrúlega, að þeir taki skólann og strætisvagnastöðina og setjist þar að.

„Já, þeir hafa innréttað þarna einhvers konar íbúðir fyrir þessa landnema. Þar eru konur og börn og þegar þetta fólk labbar út þá eru mennirnir aftastir með byssur.

– Þegar við Íslendingar heyrum orðin landnám og landnemi sjáum við fyrir okkur að verið sé að nema ónumið land, óbyggt, ófrjósamt og jafnvel ógróið, og byggja þar upp og rækta. Mér heyrist þú lýsa allt öðru.

„Já, ég hef ekki séð annað en að þeir hafa yfirleitt tekið fallegustu staðina. Þeir taka hæstu toppana og það skiptir þá engu máli hvort þar séu hús eða fólk hafi haft atvinnu af að rækta þar vínber, ólívur og annað. Þeir taka þessa staði því þeir vilja sjá yfir allt og geta lokað öllum leiðum. Þannig geta þeir alltaf haft auga með öllu sem er að gerast í kringum þá. Það er alveg greinilegt og alveg sama þó þetta sé langt útúr fyrir þá og langt fyrir þá að fara í vinnu. Kiryet Arba er undantekning; þar stunda þeir vinnu og mér skilst að þar séu aðallega framleidd vopn.“

– Hvernig var að búa í Hebron?

„Þegar ég bjó þar var ég ein af fólkinu og það var tekið af okkur vatn og rafmagn í tíma og ótíma. Vatn hefur lengi verið vandamál hjá þessu fólki. Á sama tíma og vatnið rennur út á göturnar hjá gyðingum eru hinir kannski vatnslausir í heila viku. Fólk reynir að safna regnvatni til að hafa eitthvað. Rafmagnið var lengst tekið af okkur í 17 daga. Sem betur fer var eldað með gasi.“

– Er mikil fátækt þarna?

„Já, það var fátækt víða þegar ég var þar og mér skilst að hún sé ennþá meiri núna þegar fólk hefur ekki fengið að stunda neina vinnu. Margt verkafólk stundar vinnu í nálægum borgum en hefur ekki komist þangað.“

– Hvers vegna?

„Vegna útgöngubanns. Fólk má oft ekki vera utan dyra eftir klukkan sex á kvöldin. Ógift fólk hefur ekki fengið að fara milli Hebron og Jerúsalem allavega síðustu þrjú árin.“

– En giftir?

„Já, eldra fólk – ef það er gift.“

– Hvaða máli skiptir það hvort fólk er gift þegar það ferðast milli borga?

„Ég veit það ekki. Það er bara eins og Hafnfirðingar fengju ekki að fara til Reykjavíkur nema vera giftir. Þetta er náttúrulega fáránlegt. Það var ekki svona þegar ég var þarna 1989; þetta komst á eftir það.“

– Hvað sérðu framundan?

„Í kjölfar morðsins á forsætisráðherra þeirra er vonandi að augu þeirra opnist fyrir því að meðal gyðinga eins og þessara landnema er allavega fólk. Það er skrítið að þetta fólk skuli alltaf geta borið byssu um allt, til dæmis þar sem fólk er að versla, en allir arabar alltaf vopnlausir og sífellt verið að stoppa þá ef þeir fara á bílum milli borga.“

– Mega arabar ekki bera vopn?
Með almennum kosningum í janúar 1996 færðist barátta Palestínumanna á nýtt stig.

„Nei, nei, þeir mega aldrei bera vopn. Þannig hefur það verið frá því áður en ég kom þangað fyrst 1974. Ef það sést hnífur á manni, segjum að ég væri með lyklakippu sem lítill hnífur væri í, þá gæti ég verið sett inn fyrir það. Fólk er iðulega rekið út úr strætisvögnum og leitað á því. Þeir sjá það kannski núna að það á ekki bara að vara sig á Aröbum.“

– Er ekki stundum erfitt fyrir yfirvöldin að þekkja í sundur araba og gyðinga? Nú eru t.d. sumir gyðingar arabískt ættaðir.

„Þegar við vorum þarna 1986-’87 vorum við á bíl með R-númeri og gátum farið um allt án þess að vera stoppuð. Þá vorum við eins og útlendingar á þessum bíl og fengum að fera í friði. Ef við hefðum verið á bíl með arabísku númeri hefðum við verið stoppuð í tíma og ótíma. Eitt sinn er við komum inn í landið komu þrjú stór skemmtiferðaskip samtímis og hafa eflaust verið 2000 manns á hverju skipi. Við, ásamt fjöldskyldu frá Svíþjóð, komumst síðust í land því eiginmennirnir voru Palestínumenn. Allt okkar dót var rifið í sundur, hvert einasta stykki. Við komum þarna klukkan sex að morgni og komumst ekki í land fyrir en klukkan tvö eða þrjú því það var alltaf verið að leita hjá okkur. Það sama skeði þegar við fórum úr landi.“

Þar með lauk spjalli okkar Sigurlaugar. Ég hugsaði, að það væri lán í óláni að það var ísraelskur öfgamaður sem skaut Ísak Rabin. Ef arabískur öfgamaður hefði skotið hann er eins víst að ísraelsk stjórnvöld hefðu hefnt hans með því að drepa tugi eða hundruð saklausra Palestínumanna, auk þess sem allir friðarsamningar hefðu verið fyrir bý. Ég vona, líkt og Sigurlaug, að Ísraelsmenn dragi einhverja lærdóma um eigin öfga af morðinu á forsætisráðherra þeirra.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top