Rögnvaldur Finnbogason
1927-1995

Sr. Rögnvaldur Finnbogason, prestur á Staðastað og fyrsti formaður Félagsins Íslands-Palestína, lést 3. nóvember síðastliðinn. Rögnvaldur var einstakur maður fyrir margra hluta sakir. Hann hafði til að bera betri skilning en flestir aðrir á trúarbrögðum og menningararfi fjarlægra þjóða. Fáir íslenskir kennimenn þekktu betur til Austurkirkjunnar (grísk-ortódox) og sennilega hafði enginn þeirra meiri innsýn í trúarheima íslams. Séra Rögnvaldur lét til sín taka ef honum þótti réttur brotinn á manni. Það lá því nærri að leita til hans um forystu í félagi sem setti sér það markmið að styðja Palestínumenn í baráttu þeirra gegn hernámi og kúgun og stuðla að réttlátum friði í Austurlöndum nær. Rögnvaldur ferðaðist til hinnar hersetnu Palestínu og reit bók um þá ferð, Jerúsalem, borg hinna talandi steina. Séra Rögnvaldur og frú Kristín Thorlacius tóku ævinlega með sérstökum sóma á móti gestum sem hingað komu frá Palestínu. Um leið og Félagið Ísland-Palestína vottar frú Kristínu samúð, þakkar félagið skerf þeirra til baráttunar fyrir frelsi palestínsku þjóðarinnar.
Arna Mer-Khamis
1929-1995

Arna Mer var þekkt baráttukona í sínu heimalandi. Hún sneri baki við zíonisma varð leiðandi meðal róttækra í Ísrael í mótmælum gegn grimmilegu framferði Ísraelska hersins á herteknu svæðunum. Það sem umfram allt mun þó halda minningu hennar á lofti er starf sem hún vann meðal palestínskra barna í Jenín. Hún stofnaði samtök (Care and Learning) sem komu á laggirnar skóladagheimilum, bæði í flóttamannabúðum og borgarhverfum Jenín. Þarna fengu börnin tækifæri til leikja, söngs og náms sem styrkti sjálfsvitund þeirra og þrek til að lifa af lokun skóla og annað harðræði sem einkennt hefur hernámið í Palestínu. Arna Mer kom til Íslands árið 1991 í boði nokkurra félagasamtaka og sagði frá starfi sínu sem hlaut stuðning bæði einstaklinga og opinberra aðila hérlendis. Undirritaður er þakklátur fyrir að hafa árið 1992 fengið tækifæri til að heimsækja Örnu Mer og kynnast af eigin raun starfi hennar og hetjuskap. Fordæmi Örnu lýsir veginn fyrir nauðsynlegri samvinnu Ísraela og Palestínumanna sem byggir á gagnkvæmri virðingu og samstöðu um mannréttindi öllum til handa.
Birtist í Frjáls Palestína.
