Um miðjan febrúar stóðu ísraelsmenn enn einu sinni fyrir stórtækum loftárásum á Líbanon. Árásirnar voru gerðar í hefndarskyni fyrir árásir Hizbullah skæruliða á Norður-Ísrael og á ísraelskt hersetulið i Suður-Líbanon. Að venju voru það óbreyttir borgarar sem urðu verst úti í árásum ísraela sem greinilega var beint að öðru en bækistöðum Hizbullah. Fjöldi óbreyttra borgara slasaðist í árásunum og margir misstu heimili sín. Þær ollu einnig stórtjóni á raforkuverum og öðrum byggingum í eigu líbanska ríkisins.
David Levy, utanríkisráðherra ísraels, var ekkert að fara í felur með skoðanir sínar á árásum ísraela á óbreytta borgara. Í ávarpi sínu eftir árásirnar hótaði hann öllum þeim sem styddu Hizbullah skæruliða eldi og brennisteini og sagði einnig: „Ef ráðist er á ísraelska borgara munu viðbrögð okkar vera fljót og hörð … Við munum drepa líbanönsk börn ef ráðist er á okkar borgara“. Eins og gefur að skilja vöktu þessi orð Levy hörð viðbrögð og arabar á ísraelska þinginu lýstu þeim sem villimannlegum og óviðeigandi fyrir forsætisráðherra. Til að engin misskildi neitt kom Levy í fjölmiðla daginn eftir og sagði: „Það sem ég sagði í gær voru ekki mistök og þetta var ekki sagt í bræði, ég meina það sem ég sagði.“

Þessar síðustu árásir ísraela á Líbanon hafa kallað á hörð viðbrögð um allan heim, og þá sérstaklega innan arabaheiminsins. Utanríkisráðherrar arabaríkja hafa fært fund sinn, sem þeir ráðgerðu að hafa í Kairó, til Beirút til að sýna samstöðu með Líbönum. Fundurinn mun fara fram 12. og 13. mars, en um svipað leyti árið 1978 samþykktu S.þ. ályktun númer 425 sem krefst skilyrðislauss brottflutnings ísraelsmanna frá Suður-Líbanon.
Í kjölfar árásana hafa þing 20 arabaríkja krafist þess að öllum samskiptum við Ísrael verði slitið þar til ísraelsmenn hafa samið frið við nágrannalönd sín. Margir leiðtogar arabaríkja hafa einnig viðurkennt rétt líbana til að veita hernámi ísraela andspyrnu og segja að árásir ísraela grafi undan friðarvonum í Mið-Austurlöndum. Egyptar, Kúveitar, Jórdanir og fleiri ríki hafa einnig boðist til að hjálpa Líbönum við uppbyggingu þeirra mannvirkja sem árásirnar ollu.
Ísraelsmenn hafa hernumið um 10% af flatarmáli Líbanon í samvinnu við bandamenn sína Suður-Líbanska herinn, sem samkvæmt mannréttindastofnunum hegðar sér, ef eitthvað er, villimannlegar gagnvart óbreyttum borgurum en ísraelar sjálfir. Hizbullah og aðrar skæruliðahreyfingar hafa haldið uppi stöðugri andspyrnu gegn hernámi ísraela sem hefur orðið til þess að Barak forsætisráðherra Ísraels hefur lofað að kalla ísraelska herinn frá Suður-Líbanon í júlí á þessu ári, 22 árum eftir að ísrealsmenn réðust inn í Líbanon.
Birtist í Frjáls Palestína.