Pabbi, það er bara ekki f**king fair að sumir hafi allt og aðrir ekkert“ varð tvítugum syni mínum að orði inni í ísraelskri hagkaupsverslun í Vestur-Jerúsalem. Er uppeldið að skila sér, var mín fyrsta hugsun og gladdist innra með mér yfir þessum merkjum um að hann var gæddur ríkri samúð með þeim sem minna mega sín, með þeim sem búa við kúgun án þess að hafa nokkuð til hennar unnið. Þetta var okkar fyrsta heimsókn í ísraelska verslun eftir nær hálfan mánuð í landinu. Við fórum ávallt í litla verslun nálægt verustað okkar á Ólífufjallinu, þar sem ljúfur og indæll palestínskur kaupmaður reyndi að uppfylla þarfir okkar eftir bestu getu.
Að sjá það ríkidæmi sem Ísraelar búa við og lifa innan um fátæka Palestínumenn í fjórar vikur var ógleymanleg upplifun. Að kynnast þrotlausri þrautseigju íbúanna á hernumdu svæðunum, þar sem hermennirnir niðurlægja íbúana reglulega. Að sjá hve þungt þessi kúgun leggst á alsaklaust fólk, gamla fólkið og konurnar. Konurnar nánast bera ástandið utan á sér, en manni rennur til rifja að sjá öldruðum bónda snúið frá eftirlitsstöð og sendan heim aftur með afrakstur vinnu sinnar – grænmetið sitt. Slíkur markaður er viðkvæmur fyrir ofþroskun í sumarhitanum og bóndinn lítur ekki út fyrir að hafa mikið bolmagn til að bera mikil áföll vegna uppskerunnar. En samt gefst þetta fólk ekki upp heldur gerir allt sem það getur til að halda reisn sinni, efla menntun sína og þekkingu og leggur mikla alúð við yngri kynslóðina. Það liggur við að maður öfundi það af þessu þreki – við þessir hóglífismenn Vesturlanda sem lítt þurfum fyrir lífinu að hafa.
Mestu áhrifin sem ég varð fyrir voru í Betlehem. Um fjölda ára skeið var ég búsettur erlendis og fannst ég ekki upplifa nein jól ef ekki var sungið „Í Betlehem er barn oss fætt. Laugardaginn 29. mars var ég staddur í fyrsta sinn í Betlehem, í Fæðingarkirkju Frelsarans og á torginu fyrir framan hana. Ég vissi að þarna átti að vera hátíð. Þarna ætluðu allir skólar flóttamannabúða Palestínumanna í og umhverfis Betlehem að koma saman til vorhátíðar. Börnin voru um 3000 talsins á aldrinum 6 til 12 ára. Auk þess var búist við um 2000 fullorðnum, foreldrum, ömmum og öfum, eða alls um 5000 manns. En ég kom „of seint. Í stað þess að hátíðin stæði í 2–3 klst. eins og ráðgert hafði verið, þá komu tveir herjeppar á svæðið 20 mínútum eftir að hátíðin hafði verið sett, fullsetnir hermönnum. Þeir óku tvisvar eða þrisvar inn á torgið fyrir framan Fæðingarkirkjuna og tókst að ögra einhverjum unglingum til að kasta einstaka steini í átt til þeirra. Það nægði. Táragas-sprengjum var skotið inn í vopnlausan mannfjöldann og einhverjum skotum líka þar sem farið var með 4 unglinga á slysavarðstofu. Hvers vegna? Hver var tilgangurinn með því að koma í veg fyrir þessa vorhátíð skólabarnanna?

Við fórum í staðinn í heimsókn í unglingamiðstöð. Þar var umsjónarmaðurinn að stjórna leikæfingu á „How to go through a checkpoint. Tilgangurinn var að vinna úr þeim tilfinningum niðurlægingar og reiði sem unglingarnir bera með sér. „Það er betra að leysa þessar tilfinningar hér innandyra en úti á götu“ sagði leiðbeinandinn.
Framtíðin?
Framtíðin er mörg spurningamerki. Við hittum ungt námsfólk í Hebreska háskólanum sem sá ekki mikla framtíð í að búa í Ísrael við núverandi aðstæður. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra ætlaði sér að setjast að annars staðar að námi loknu. Palestínumenn eiga ekki kost á þessum möguleika, þeir fá ekki að flytja úr landi. „Við förum ekki héðan nema í svörtum plastpokum“ eru svör sem við fáum meðal Palestínumanna.
Eins og margir vita eru Gyðingar og Arabar náskyldar þjóðir, bæði hvað tungumál og sameiginlega sögu varðar. Það er ekki um aðra lausn að ræða en að búa saman, hvenær sem menn svo finna leiðina til þess. Meðal Palestínumanna er ríkur vilji til þess meðal fólksins. Hægri öfgasamtök eins og Hamas eru í raun eina undantekningin. Við hittum palestínskan rithöfund sem býr sunnan við Gazaborg sem á ísraelskan rithöfund að vini, sem býr í Jerúsalem. „Hann þorir ekki að koma hingað og heimsækja mig og ég fæ ekki að fara af svæðinu, en við erum í reglulegu sambandi á netinu og svo hringjumst við einstaka sinnum“, segir hann og brosir þessu ljúfa en glettnislega brosi sem einkennir svo marga á þessum slóðum. Það vottar jafnvel fyrir ögrun í augnakróknum. Hann ætlar greinilega ekki að láta herinn taka af sér ísraelskan vin sinn.
Ég spurði unga ísraelska stúlku í Hebreska háskólanum hvort hún gæti hugsað sér að giftast Palestínumanni. „Því ekki, ég á palestínskar vinkonur sem búa í Austur-Jerúsalem, ástin fer sínar eigin leiðir og við gætum ekki búið hér. Við yrðum að reyna að flytja til Evrópu eða Bandaríkjanna. Vinkona mín gifti sig í fyrrahaust, en hún þorði ekki að bjóða okkur, ísraelskum vinkonum sínum, í brúðkaupið vegna öryggis okkar. Nokkrum vikum seinna héldum við þeim aðra veislu í Vestur-Jerúsalem” . Ef maður spyr fólk hver er það sem getur leyst vandann verður svarið ávallt það sama.
„Bandaríkjamenn.“
Birtist í Frjáls Palestína.