Eitt kvöldið, hálfum mánuði fyrir ferminguna mína sem var þann 13. apríl komu foreldrar mínir inní herbergið mitt og spurðu mig hvað ég vildi í fermingargjöf. Ég sagðist ekki hafa hugmynd um það en þá buðu þau mér að fara til Palestínu með pabba mínum (Sveini Rúnari) og systur minni (Ingu Sveinsdóttur). Þau sögðu mér að hugsa mig vel um hvort ég vildi fara. Ég gerði það en ákvað að lokum að fara með. Við fórum fyrst til Lundúna og vorum þar í tvær nætur og flugum svo beint til Tel Aviv. Á þessari ferð gistum við í húsi við Augusta Victoria Hospital á Olíufjalli í Austur-Jerúsalem, sem prestur að nafni Rudolf Hinz hefur til umráða, en hann er forstöðumaður þarna á vegum Lúterska heimsambandsins. Við ferðuðumst til Ramallah, Hebron og Betlehem en pabbi minn og systir mín fóru líka til Jenin en ég varð eftir í Ramallah vegna magakveisu. Ég kynntist mataræði í Palestínu og mér líkaði það, sérstaklega Kebab (skyndibitamatur Palestínu) og Makluba eða „á hvolfi“ . Svo kynntist ég unglingum og ungu fólki bæði í Ramallah og Hebron og komst meðal annars að því, að langflestir karlmenn þarna úti reykja og byrja mjög snemma eða jafnvel um 12 ára gamlir. Svo spjallaði ég við þessa krakka og fór líka með 2 stelpum og systur minni „útí bæ“ og var það mjög skemmtilegt. Það sem maður tók hins vegar helst eftir var óþrjótandi örlæti Palestínumanna og glaðlyndi þrátt fyrir ástandið úti. Við fórum á markaðinn í Gömlu borginni í Jerúsalem, eyddum heilum degi við Dauðahafið, fórum í mótmælagöngu og einnig í ferð með sjúkrabíl til að gefa veikum lyf í litlum þorpum. Í heildina séð finnst mér þetta frábært land og mjög gott fólk og mundi endilega vilja fara þangað aftur og vera í lengri tíma.
Birtist í Frjáls Palestína.