Það var fyrir rúmu ári síðan að ég ákvað að fara til Palestínu. Viðar Þorsteinsson og Sveinn Rúnar Hauksson voru þá nýkomnir af svæðinu, en þeir höfðu meðferðis myndupptökur úr ferð sinni. Það er óhætt að segja að myndefnið sem við fengum að sjá þaðan [á stórum fundi í Háskólabíói, innsk. ritstjóra] hafi hreyft við manni svo um munaði. Ég hefði aldrei trúað því að ég ætti sjálfur eftir að verða vitni að svona mikilli eyðileggingu á ferðum mínum þar, en sú varð þó raunin.
Eftir að haf sloppið í gegn um stífar yfirheyrslur á Ben Gurion flugvellinum við Tel Aviv var förinni heitið til Austur-Jerúsalem þar sem margir alþjóðlegir sjálfboðaliðar höfðu aðsetur. Ég hitti þá fyrir Eirík Hjálmarsson, fréttamann á Stöð tvö og það varð úr að við ákváðum að fara vítt og breitt um Vesturbakkann skoða ástandið þar. Við fórum til Betlehem, Ramallah, Nablus, Jenín og Gaza og hittum þar fyrir heilbrigðisstarfsfólk og heimamenn ásamt því sem við skoðuðum eyðileggingarslóð ísraelska hersins. Það er ekkert hægt að skafa utan af því að eyðileggingin var skelfileg. Heimili fólks höfðu verið jöfnuð við jörðu með feiknastórum jarðýtum, annars staðar höfðu verið gerðar sprengjuárásir úr þyrlum á íbúðahverfi og sumsstaðar höfðu skriðdrekar verið notaðir til að brjóta og bramla. Ein harðasta árásin sem gerð hafði verið á íbúðahverfi Palestínumanna hafði verið gerð í Jenín nokkru áður en við fórum þar um.

Aðstæðurnar þar voru þær verstu sem ég hef nokkurntímann séð. Þær voru í raun svo slæmar að ísraelskum yfirvöldum var mjög í mun að halda aðkomumönnum í góðri fjarlægð frá staðnum. Við laumuðum okkur þó „bakdyramegin“ inn í borgina. Aðstæðurnar þar voru svo átakanlegar að það fór hrollur um mann. Heilt íbúðahverfi hafði verið gereyðilegt en þegar árásin hafði verið gerð voru margir heima fyrir. Það fann maður á nályktinni, en hún blandaðist brunalykt og lyktaði blandan ólýsanlega illa.
För minni var síðar heitið til Ramallah, stjórnarseturs palestínsku heimastjórnarinnar, en þar var og er stöðug þörf fyrir fólk til hinna ýmsu starfa. Eftir nokkurra daga dvöl þar varð það úr að ég hélt ásamt hópi fólks upp til Balata-flóttamannabúðanna sem liggja við hlið Nablus-borgar, en þar hafði herinn þjarmað mikið að fólki með húsleitum, handtökum og almennum yfirgangi.
Við urðum þess fljótt áskynja að reglur um framferði ísraelsku hermannanna á svæðinu voru í litlu samræmi við það sem þeir raunverulega voru að aðhafast. Hermenn lögðu til dæmis undir sig mosku til þess að nota sem fjarskiptamiðstöð, en slíkt er harðbannað samkvæmt Genfarsáttmálanum.
Svo fóru hermennirnir hús úr húsi til að handtaka alla karlmenn og þá notuðu þeir gjarnan tækifærið og brutu og brömluðu innanstokksmuni. Svakalegast þótti okkur þó framferði þeirra þegar þeir, með sleggjum, brutu sér leið í gegn um skilveggi milli íbúða, í gegnum þver og endilöng, þéttbýl hverfi til þess að búa sér til flóttaleiðir að eigin sögn. Gerðu þeir þá göng um samliggjandi íbúðir og spáðu ekkert í hvað lægi hinumegin við þá veggi sem þeir felldu.
Víða mátti sjá bíla sem keyrt hafði verið yfir af skriðdrekum að ástæðulausu og við verslunargötur höfðu skriðdrekar keyrt um verslanir og gereyðilagt þær.
Það fór svo að lokum að við vorum fjarlægð með valdi og sett í fangelsi fyrir þær sakir einar að trufla opinbera starfsmenn við vinnu sína. Það leikur þó enginn vafi á því að hinar raunverulegu ástæður þess að við vorum fjarlægð voru þær að aðgerðir ísraelska hersins á staðnum þoldu ekki nána skoðun okkar.
Eftir að hafa verið á ferðinni um Vesturbakkann og Gaza sannfærðist ég um ágæti þeirrar aðferðar að sýna nærveru sína þar sem ísraelski herinn fer með ofbeldi gegn palestínskri alþýðu. Nærvera utanaðkomandi aðilja er til þess fallin að draga úr hörku hersins og milda þar með skaðann sem hann veldur. Það sýnist mér í fljótu bragði vera það árangursríkasta sem einn einstaklingur getur gert upp á eigin spýtur. Þess vegna hlýt ég að hvetja þá sem sjá sér fært að mæta á svæðið í mannúðarskyni til að gera það.
Birtist í Frjáls Palestína.