Daglegt líf í Palestínu

Ótti, útgöngubann, handtökur, pyntingar, rafmagnsleysi, vatnsleysi, atvinnuleysi, matarskortur, þunglyndi. Skólar eru lokaðir, hús eru sprengd upp, klóakleiðslur eru eyðilagðar og svo má lengi telja. Allt félagslíf og samgöngur liggja meira og minna niðri. Efnahagur í Palestínu hefur rénað og mikið er farið að bera á fátækt. Að búa við slíkar aðstæður verður ekki lýst með orðum og er hreint og beint óþolandi. Saklaust fólk getur átt von á því á hverjum degi og hverri nóttu að hurðum sé sparkað upp og það handtekið og haldið fangelsuðu án dóms og laga. Flestir ásakaðir um hryðjuverkastarfsemi.

Yustri frændi minn, föðurbróðir hans pabba, var handtekinn 4. janúar 2003 – tekinn á brott að næturlagi ásamt tveimur sonum sínum. Fyrir eru aðrir tveir yngri synir hans í fangelsi, 16 og 18 ára. Þeir, eins og flestir aðrir, eru sakaðir um þátttöku í hryðjuverkastarfsemi. Rétta átti yfir Yustri frænda 5. maí síðastliðinn, en því var frestað fram í júní, án nokkurrar ástæðu. Hvenær verður svo réttað yfir honum er í höndum Ísraela. Búið er að sleppa tveimur sonum hans sem voru fyrir í fangelsi og voru þeir þá búnir að vera í haldi í 1/2 ár – og þá var Rabbía, síðasti sonurinn, handtekinn. Í kjölfarið á handtöku Yustri og sona var hús þeirra sprengt upp 6. janúar 2003. Muckaram kona hans, dóttir og synir sem eru ekki í haldi búa nú í einu herbergi hjá frændfólki mínu.

Sökum útgöngubanns gengur fólki illa að sækja vinnu, og skólahald hefur nánast legið niðri, fólki getur reynst erfitt að sækja sér vatn í brunna þótt þeir séu upp við hús þeirra af ótta við að skotið sé að því þegar að útgöngubann er á – og það hefur verið meira og minna, stundum í nokkra tíma og stundum heilu dagana. Fólk á mjög erfitt með að leita sér læknisaðstoðar og fá lyf. Konur þurfa oft að ala börn sín við slæmar aðstæður heima fyrir og hefur í kjölfarið borið meira á barnadauða. Geðheilsa fólks er í mikilli hættu.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top