Ísraelskar vörur á Íslandi

Margir hafa að undanförnum haft samband við Félagið Ísland-Palestína og spurt hvort ekki standi til að vera með sniðgönguátak gegn ísraelskum vörum. Greinarhöfundur hefur síðastliðið ár farið í verslanir ásamt fleirum og kannað úrvalið. Á vefsíðunni sem gefin er upp hér að neðan er hægt að sjá nöfn og myndir af flestum þeim vörum sem fundust.

Þær ísraelsku vörur sem helst standa almenningi til boða í verslunum eru landbúnaðarvörur, t.d. avókadó og greipaldin. Varast ber að þær vörur sem merktar eru „Palestinian Produce“ eða jafnvel „Product of Palestine“ eru oftar en ekki framleiddar af ísraelskum landtökumönnum á herteknu svæðunum en ekki Palestínumönnum, og er því um ísraelska vöru að ræða. Dæmi um slíkt eru „Coral“-jarðarber sem voru um tíma seld í verslunum 10–11, 11–11 og í Bónus. Auk þessa hefur Ölgerðin Egill Skallagrímsson flutt inn léttvín frá Ísrael sem seld eru í ÁTVR. Dæmi um þau eru Golan-rauðvín, sem eru framleidd á hinum herteknu Gólanhæðum. Skv. upplýsingum frá Agli Skallagrímssyni eru fleiri tegundir frá Ísrael væntanlegar á markað. Einnig vekur athygli að samkvæmt tölum Hagstofunnar er árlega fluttur til landsins fjarskipta- og tæknibúnaður frá Ísrael fyrir tugi milljóna. Þau fyrirtæki sem byggja fjarskiptakerfi sín að hluta upp á búnaði frá Ísrael eru Lína .net (Loftnet Línu.net), og Landssími Íslands (RAD háhraðamódem, o.fl.). Í sumum tilvikum er notandanum látinn í té ísraelskur búnaður frá þjónustuaðila kaupi hann þjónustu hans, þetta á til að mynda við um Loftnet Línu.Nets.

Ég hvet félagsmenn til að vera á varðbergi og kaupa ekki ísraelskar vörur. Þeim sem frétta af ísraelskum vörum til sölu er bent á að hafa samband við höfund í tölvupósti svo hægt sé bæta þeim á sniðgöngusíðu félagsins, oft er hægt að þekkja ísraelskar vörur á því að vörunúmerið (undir strikamerkinu) byrjar á „729“ . Einnig er hægt að skrifa forsvarsmönnum viðkomandi verslana kurteisislegt bréf þar sem þið hvetjið þá til að hætta að sölu á ísraelskum vörum.

Slóðin að sniðgöngusíðunni, með myndum af vörunum, er: https://snidganga.is

Nytsamlegar slóðir:

https://boycott-israel.org

https://boikottisrael.no

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top