Spurning dagsins í Fréttablaðinu 28. okt. sl. var villandi og í raun ekki hægt að svara henni. Spurt var: „Mun brottflutningur landnema frá Gaza og Vesturbakkanum flýta fyrir friðarferlinu?“

Friðarferlið svonefnda er fyrir löngu úr sögunni. Það dó daginn sem Ariel Sharon tók við völdum. Hann lofaði því í kosningabaráttunni að semja ekki frið við Palestínumenn og hefur staðið fullomnlega við það kosningaloforð. Sá friður sem hann vill koma á verður aldrei neinn friður, því í því felst að sigra Palestínumenn í hernaði og loka þá inni í níðþröngum, ólífvænlegum gettóum með aðskilnaðarmúrnum. Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur úrskurðað múrinn ólöglegan og fyrirskipað að hann verði rifinn. Ísraelsmenn ætla (með stuðningi Bandaríkjanna) að hundsa dóminn líkt og samþykktir annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna í hálfa öld. Réttsýnu fólki svíður það óréttlæti.

Spurningu Fréttablaðsins er hægt að skilja sem svo að verið sé að flytja alla ísraelska landræningja frá Gaza og Vesturbakkanum, en því fer fjarri. Þetta er bara lítið brot af ólöglegum landnemabyggðum á palestínsku landi og í staðinn er verið að innlima mun meira af landi Palestínumanna á Vesturbakkanum og gera að hluta af Ísrael.
Birtist í Frjáls Palestína.