Yassir Arafat lést á sjúkrahúsi í París fyrir skömmu. Arafat er einn þeirra þjóðarleiðtoga sem settu svip sinn á síðustu öld, rétt eins og Ho Chi Minh og Nelson Mandela. Þessir leiðtogar eiga það sameiginlegt að hafa leitt þjóðir sínar í frelsisbaráttu gegn nýlendustefnu, heimsvaldastefnu og apartheid – aðskilnaðarstefnu.

Yasser Arafat hefur leitt þjóð sína í 40 ár og liðin er hálf öld síðan hann stofnaði fyrstu samtökin til frelsunar Palestínu. Arafat er löngu orðinn lifandi tákn réttindabaráttu palestínsku þjóðarinnar. Þrautseigja hans og þolgæði í þessari baráttu er táknræn fyrir þjóð sem á undraverðan hátt hefur lifað af grimmúðlegt hernám í áratugum saman, án þess að reisn hennar, mildi og mannúð hafi farið forgörðum.
Framan af gekk barátta Arafats og félaga hans út á að frelsa alla Palestínu undan oki nýlendustefnu og zíónisma. Markmiðið var eitt lýðræðislegt ríki fyrir alla íbúana, jafnt gyðinga, múslima sem kristna. Sú stefna fól í sér afnám Ísraelsríkis í núverandi mynd, en það skilgreinir sig sem gyðingaríki og grundvallast þannig á aðskilnaðarstefnu.
Árið 1988 varð grundvallarbreyting á stefnu PLO. Arafat lýsti yfir sjálfstæði Palestínu þann 15. nóvember 1988 og þá var hann kjörinn forseti Palestínu af þjóðþingi Palestínu. Sama haust ávarpaði Arafat Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og fordæmdi öll hryðjuverk, jafnt einstaklinga sem hópa og ríkja.
Sjálfstæðisyfirlýsingin fól í sér vilja til að stofna fullvalda ríki á fimmtungi (22%) upphaflegrar Palestínu, það er Gaza og Vesturbakkanum að meðtalinni Austur-Jerúsalem. Þessi yfirlýsing fól í sér stórkostlega eftirgjöf. Hún fól í sér viðurkenningu á tilvist Ísraelsríkis og þess utan eftirgjöf á öllu því svæði sem Ísrael hertók á árunum 1948–49. Landamærin skyldu miðast við Grænu línuna, vopnahléslínuna frá 1949 sem var í gildi fram að hernáminu árið 1967.
Eftir Yom Kippur stríðið 1973 varð Arafat endanlega ljóst að baráttan yrði ekki leidd til lykta með vopnum. Ísraelsríki hafði frá upphafi haft hernaðarlega yfirburði yfir alla nágranna og nú lá fyrir að Ísraelar, einir þjóða í Austurlöndum nær, réðu yfir kjarnorkuvopnum. Segja má að hið svokallaða friðarferli hafi hafist þá með leynilegum viðræðum Frelsissamtaka Palestínu (PLO) og Ísraelsstjórnar, en PLO eru enn eini lögmæti fulltrúi allrar palestínsku þjóðarinar og samningsaðili í friðarviðræðum. Þessar leynilegur viðræður leiddu um síðir til Oslóarsamkomulagsins 1993.
Þær vonir sem bundnar voru við Oslóarsamkomulagið reyndust tálvonir, einkum eftir að Yitshak Rabin forsætisráherra var myrtur af ofstækisfullum Ísraela, skoðanabróður þeirra sem til valda hafa komist. Sharon hafnaði algerlega Oslóarsamkomulaginu sem fól í sér að Ísraelar skyldu skila herteknu landi í samræmi við ályktanir Öryggisráðsins. Arafat og forystu PLO hafði verið hleypt inn á herteknu svæðin 1994 og árið 1996 var Arafat kjörinn forseti í lýðræðislegum kosningum á herteknu svæðunum með 84 % atkvæða. En í stað þess að Ísraelar stæðu við samninga um að skila landinu til Palestínumanna, minntu herteknu svæðin stöðugt meir á allsherjar fangabúðir. Atvinnuleysi og fátækt hefur vaxið með ári hverju. Sjálfur forseti landsins, Arafat, hefur verið fangi í tvö og hálft ár í stjórnarbyggingu sem Ísraelsher hefur lagt í rústir.
Sjálfsákvörðunarréttur palestínsku þjóðarinnar, rétturinn til að stofna sjálfstætt, fullvalda ríki og réttur palestínskra flóttamanna til að snúa heim aftur og til bóta fyrir eignatjón, eru réttindi sem Sameinuðu þjóðirnar hafa margsinnis áréttað og eru í samræmi við alþjóðalög og rétt. Þótt Ísraelsríki hafi staðið nánast eitt gegn réttmætum kröfum Palestínumanna um endurheimt síns lands, frelsis og mannréttinda þá hefur Bandaríkjastjórn æ ofan í æ beitt neitunarvaldi og framlengt þannig kúgun og manndráp sem hernámið hefur í för með sér.
Sharon hefur engan áhuga á friðargjörð við Palestínumenn. Hann tilheyrir þeim hluta Ísraela sem er því miður alltof stór og lítur svo á að allt land upphaflegrar Palestínun og meira til sé gjöf Guðs til Ísraela. Þeir segja að það standi í Biblíunni. Ef Palestínumenn sýna landtökuliðum lögleg skjöl um eign sína á landi, þá brosa þessir Ísraelar og segja: „Já, já, þú ert með þína pappíra. Mínir pappírar eru frá Guði“.
Landtökuliðið er sagt Sharon reitt fyrir að ætla að skila Gaza. Sennilega er það að hluta til leikaraskapur til að gera sig dýrkeypta og fá sem hæstar bætur fyrir að flytja. Út frá útþenslustefnu síonismans er áætlun Sharons skynsamleg. Hún gengur út á að ná sem mestu landi með sem minnstum tilkostnaði. Hin hliðin á áætlun Sharons varðandi Gaza er nefnilega sú, að styrkja og stækka landtökubyggðirnar á Vesturbakkanum.
Aðskilnaðarmúrinn á að innsigla þá stefnu með sementi og gera landránið varanlegt. Með múrnum eru Ísraelar að ræna Palestínumenn rúmum helmingi Vesturbakkans og koma í veg fyrir að Austur-Jerúsalem geti orðið höfuðborg sjálfstæðs ríkis. Raunar er áætlun Sharons, eins og helsti ráðgjafi hans, Dov Weissglass, upplýsti nýverið í ísraelska dagblaðinu Haaretz, að sópa alfarið af borðinu öllum hugmyndum um sjálfstætt ríki og ekki standi til að semja um frið.
Við fráfall Arafats er palestínska þjóðin að missa leiðtoga sem verið hefur holdgervingur baráttu hennar fyrir réttlæti, kyndilberi vonar og sameiningartákn. Arafat fellur frá án þess að draumur hans hafi ræst, en í minningunni um hann lifir vonin áfram og þrautseigur baráttuandi sem skila mun palestínsku þjóðinni sigur um síðir.
Birtist í Frjáls Palestína.