Menntun eða hugsýking?

Ræða sem Nurit Peled-Elhanan hélt í Háskólanum í Connecticut 27. september 2006.


Mig langar að tileinka þessi orð öllum palestínsku drengjunum og stúlkunum, og öllum líbönsku drengjunum og stúlkunum, og öllum írösku drengjunum og stúlkunum, sem hafa verið myrt af hugsjúkum ísraelskum og bandarískum hermannastrákum, og hafa nýlega bæst í hópinn, með litlu stúlkunni minni, í neðanjarðaríki dauðu barnanna, sem stækkar undir fótum okkar á meðan ég tala. Mig langar að segja þeim að örvænta ekki: „Það verður tekið vel á móti ykkur þarna, börn, og enginn mun meiða ykkur bara vegna þess að þið römbuðuð af leið á ferð ykkar í skólann, eða vegna þess að þið genguð með höfuðklút, eða vegna þess að þið bjugguð á tilteknum stað. Hvílið í friði, allir eru jafn mikils virði í nýju veröldinni ykkar. Þetta er veröldin þar sem ísraelsk og palestínsk börn dvelja hlið við hlið. Þarna liggja þau, fórnarlömb og morðingjar, og landið helga hefur fyrir löngu drukkið blóð þeirra í sig, en landinu hefur alltaf staðið á sama um blóð. Þarna hvíla þau öll, fórnarlömb blekkingar.

Þið, látnu börn, voruð öll blekkt, vegna þess að ekkert hefur áunnist með dauða ykkar og heimurinn heldur áfram, rétt eins og blóði ykkar hefði aldrei verið úthellt. Vegna þess að leiðtogar heimsins halda áfram morðleikjunum sínum og nota ykkur sem teninga og sorg okkar sem eldsneyti til að kynda drápsvélarnar sínar. Vegna þess að fyrir hershöfðingjum eru börn afstæð hugtök og sorg pólitískt verkfæri. Þar sem ég lifi báðu megin, á hlið fórnalambanna og dráparanna, spyr ég sjálfa mig hvernig góðum ísraelsk um börnum sé breytt í myrðandi skrímsli, hvernig þau eru svo hugsýkt að þau drepi, pynti og niðurlægi önnur börn, for eldra þeirra, afa og ömmur og fórni eig in lífi fyrir ekkert annað en flónsku og mikilmennskubrjálæði yfirmanna sinna? Á hinum svokölluðu upplýstu Vesturlöndum finnst öllum fyllilega réttmætt að kenna íslam um sjálfsmorðssprengingar og hryðjuverk. En hver myndi nokkurn tímann kenna gyðingdómi um morð? Þó vita börn bókstafstrúargyðinga, sem hafa aldrei farið út fyrir Brooklyn, að það er „mitzva“ (heilagt boðorð) að drepa araba, því að þeir eru „vilde hayeths“ (villidýr). Ísraelsk börn fremja þessa glæpi svo í raun og veru, pyntingar og morð. Hvorki gyðingdómur né íslam, né nokkur önnur trúarbrögð ef út í það er farið, eru orsök morða og hryðjuverka. Hennar er hins vegar að leita í rasísku uppeldi, í bandarískri heimsvaldastefnu og miskunnarlausu hernámsveldi Ísraels. Af öllum þeim konum og börnum sem þjást af völdum ofbeldis af hálfu vesturveldanna í dag, þjást múslimakonur mest, en rasisminn fær samt fram að ganga og orsök þjáninga þeirra er rakinn til þess að þær eru múslimar.

Í dag eru vesturveldin sýkt af ótta við íslam og móðurlíf múslima. Hið mikla Frakkland frelsis, jafnréttis og bræðralags er hrætt við litlar telpur með höfuðklúta. Í ræðum og skólabókum í gyðingaríkinu Ísrael eru arabískir borgarar kallaðir lýðfræðileg martröð og hinn innri óvinur. Hvað viðvíkur palestínskum flóttamönnum sem búa við hernám, þá eru þeir skilgreindir í sögubókum Ísraels sem „vandamál sem þarf að leysa“. Það er ekki langt síðan að gyðingar voru álitnir vandamál sem þyrfti að leysa.

Þetta hugarfar ríkir þrátt fyrir þá staðreynd, það eru ekki múslimar sem helst eru að eyða heiminum í dag. Fólkið sem beitir háþróuðustu og banvænustu vopnunum til að drepa þúsundir saklausra borgara er ekki múslimar. Það er kristið fólk og gyðingar. Þrátt fyrir það dirfist fólk úr menningarheimi gyðinga og kristinna að kalla sig upplýst og að kenna einhverjum ímynduðum átökum menningarheima um þetta allt – fólk sem styður glæpi Bandaríkjanna, Bretlands og Ísrael gegn mannkyni, og sér í lagi gegn múslimum um allan heim, fólk sem sendir börnin sín til að berjast í þessum miskunnarlausu og gagnslausu stríðum í nafni lýðræðis og frelsis, sem eru yfirskin fyrir græðgi og mikilmennskubrjálæði. Hvaða lausn býður þessi óttaslegni heimur Palestínumönnum, Írökum og Afgönum sem eru áreittir, kúgaðir, pyntaðir og sveltir vegna vestrænna glæpa og arðráns? Alla jafna hljómar tilboð uppýsta heimsins á þessa leið: Verið eins og við. Komið á lýðræði eins og við erum með, takið gildismati okkar opnum örmum, gildismati þar sem þið eruð fyrirlitin, álitin óæðra frumstætt lið sem þarf annaðhvort að rækta eða hreinsa burt.

Það er með þessu viðhorfi, dömur mínar og herrar, sem bandarískum hermönnum leyfist að nauðga, pynta og drepa menn, konur og börn múslima í þúsundatali, ísraelskum hermönnum leyfist að skipa palestínskum konum að fletta sig klæðum fyrir framan börnin sín af öryggisástæðum, fangavörðum leyfist að halda þeim föngnum við ómannúðlegar aðstæður, án nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu, án þess að gefa þeim hreint vatn eða hreinar dýnur og skilja þær frá ungbörnum sínum og brjóstmylkingum. Með þessu viðhorfi leyfist að hindra aðgang þeirra að menntun, gera landið þeirra upptækt, rústa vatnbrunnunum þeirra, rífa trén þeirra upp með rótum og hindra fólkið í að vinna á ökrunum sínum. Með þessu viðhorfi leyfist ísraelskum hermönnum að varpa hundruðum sprengja, sem vega tonn hver, á eitt af þéttbýlustu svæðum í heimi – Gaza – og það daglega. Með þessu viðhorfi leyfist Ísrael að setja á rasísk lög sem skilja mæður frá feðrum og börnum.

Palestínskar, íraskar og afganskar mæður eru mæður eins og ég. Þegar þær missa barn, jafnvel þótt það sé aðeins eitt af tólf, er sársauki þeirra jafn mikill og minn. En auk þess að missa börnin sín glata þær líka heimilinu sín, lifibrauði og framtíð vegna þess að heimurinn hlustar ekki á þjáningar þeirra og refsar ekki morðingjunum. Heiður þeirra sem konur mæður og mæður er traðkaður niður. Sjálfsmynd þeirra er rústað og hrópum þeirra er ekki hlýtt. Trú þeirra, venjur og aldagamlir lífhættir eru hunsuð og fyrirlitin.

Það eru ekki aðeins bandarískir hermenn, heldur einnig ísraelskir hermenn, sem fremja í raun fjöldamorð á „aröbum“, þ.e. Palestínumönnum og Líbönum – sem sjá kannski aldrei andlit arabískrar manneskju fyrr en þeir eru kvaddir í herinn. En þeir læra, í tólf löng ár, að þetta fólk sé frumstætt, ali börn sín upp til að senda þau út á götu og kasta grjóti í hermennina okkar sem séu þarna til að tryggja frið, að það sé ómenntað vegna þess að það fær ekki sömu menntun og við, yfirsjónasamt og skítugt vegna þess að það hafi aðrar hugmyndir um kurteisi, klæðist öðruvísi og skýli höfðinu með einhverjum efnisbútum. Jæja, reynsla mín er sú að meðal friðarsinna séu kafíur mun algengari en kippur. Ísraelsk börn fá ekki að kynnast nágrönnum sínum, sögu þeirra, menningu og verðleikum. Ísraelskum börnum er kennt að líta á nágranna sína sem óæskilegt fyrirbæri. Þetta er ekki menntun heldur hugsýking.

Vísindamaðurinn Richard Dawkins varð fyrstur til að tala um veirur hugans. Vegna þess að hugur barna er auðtrúa og opinn, er hann næmur fyrir hugsýki í formi alls kyns áróðurs og tísku. Það er auðvelt að sannfæra börn um að fá sér hringa í andlitið, fá sér húðflúr á rassinn, snúa húfunum sínum öfugt, bera á sér magann og trúa á engla og álfa. Það er jafn auðvelt fyrir þau að öðlast pólitíska trú og gera sér mynd í huganum sem mun síðar hafa áhrif á afstöðu þeirra til legu landamæra ríkisins í framtíðinni, og um nauðsyn þess að heyja stríð.

Börnin okkar eru öll hugsjúk frá unga aldri. Þegar þau svo eru orðin nógu gömul til að gerast alvöru hermenn, hafa þau fyrir löngu lært að vera góðir hermenn, sem þýðir að hugur þeirra er gjörspilltur og þau geta ómögulega efast um „sannleikann“ sem búið er að innræta þeim. Þetta skýrir að hluta þau skelfilegu voðaverk sem góðir ísraelskir drengir fremja í dag, drengir sem eru sífellt kallaðir „fólk með gildismat“. Þess vegna er löngu kominn tími til að spyrja: Hvaða gildismat er það? Eftirfarandi línur eru hluti af persónulegum formála eftir Tal Sela, sem er einn af nemendunum mínum við háskólann, að lokaritgerðinni sinni á önninni, en hún fól m.a. í sér greiningu á kennslubók í sögu:

„5. september 1997 tók ég þátt í björgunaraðgerð í Líbanon. Allir vinir mínir börðust í orrustunni, 12 hermenn voru drepnir. Næstu daga var ég hamingjusamur: „Ég er á lífi, ég slapp,“ sagði ég við sjálfan mig. Hins vegar fann ég, ári síðar, til mikils þunglyndis. Ég var dapur og sligaður af trega. Ég ákvað að leita til sálfræðings. Eftir nokkra tíma tókst mér að safna kröftum á ný, líkamlega og siðferðislega. Ég gat hent reiður á hugsunum mínum. Þá skildi ég að tilfinningauppnámið sem ég fann fyrir var í raun siðferðisvandi, hann varðaði samvisku mína. Það sem ég fann í raun fyrir var óþol, skömm og reiði. Hvernig gat ég verið svona auðtrúa og látið hafa mig að öðru eins ginningarfífli? Hvernig get ég útskýrt það, að friðsamur maður berskjaldi sig sjálfviljugur gagnvart jafn hryllilegri lísreynslu? Í dag keyrði ég friðaraktívista að eftirlitsstöðvum Ísraelshers á herteknu svæðunum, rétt eins og ég geri alltaf aðra hverja viku. Þar sá ég hermann handjárna leigubílstjóra vegna þess að leigubílstjórinn hlýddi ekki fyrirskipun hermannanna að leggja hér en ekki þar. „Við margsögðum honum þetta,“ sögðu hermennirnir. Maðurinn var látinn liggja þyrstur á jörðinni í versta sumarhitanum tímunum saman. Vinur hans var heppnari: Hann varð að standa uppréttur í fangaklefa án handjárna. Hvað er það sem fær þessa ísraelsku drengi til að skipa sjálfa sig hæstaréttardómara uns þeir tapa allri dómgreind? Ég tel að það sé hin mikla orðræða zíonismans sem þjónar því hlutverki að vera hópsamviska alls ísraelska samfélagsins, jafnt út á við sem inn á við. Þessi mikla orðræða er það kerfi gilda sem lætur okkur samsama okkur þessum tiltekna hópi.“

Þetta er kerfið sem ræður samskiptunum milli okkar og Palestínumanna. Hvernig getur maður annars skýrt það að ungt fólk sem var kennt að elska náungann eins og sjálft sig drepi nágranna sína, rústi menntastofnunum þeirra, bókasöfnum og spítölum að því virðist af þeirri ástæðu einni að þeir eru nágrannar þeirra? Eina skýringin er sú að hugir þeirra hafa verið sýktir af foreldrum, kennurum og leiðtogum sem sannfæra þau um að hinir séu ekki jafn miklar manneskjur og við erum og þess vegna sé maður í raun ekki að drepa fólk þegar maður drepur þá; þetta á sér fleiri nöfn, til dæmis „hreinsun“, „refsingu“, „aðgerð“, „áætlun“, „herferð“ og „stríð“. Þó svo að ég ég tali um ísraelska drengi, einskorðast þessi sótt ekki við Ísrael. Eins og þið vitið gengur hún um allan heim. Frændi minn, Doroni, sem er sjö ára gamall og býr í Bandaríkjunum, kom heim á Hrekkjavökunni og sagði að hann vildi verða hermaður og fara síðan til Íraks og bjarga Bandaríkjunum. Hversu margir ungir Bandaríkjamenn, sem áttuðu sig ekki á því, frekar en hann, hversu fáránleg þessi fullyrðing var, fóru í raun og veru til Íraks og dóu án þess að vita hvers vegna, en með orðin um að „bjarga Bandaríkjunum“ á vörunum? Spurningin er þessi: Hvernig voru þessi fölsku gildi stimpluð í huga þeirra, og hvernig er hægt að þurrka þau burt?

Dawkins segir að mannshugurinn sé haldinn tveimur miklum sjúkdómum: Hvötinni til þess að arfleiða komandi kynslóðir að blóðhefnd, og viðleitninni til að kenna fólki um sem hópi, frekar en sem einstaklingum. Leiðin til að sigra þessi kerfi falskra gilda er að afhjúpa þau. Hugsýkingar veikjast aðeins að hluta til fyrir tilstilli ungs fólks eins og Tal og annara Ísraela, sem neita að gegna herþjónustu, eins og „Stríðsmenn fyrir friði“. En flest hugsýktu börnin okkar losna ekki úr krumlum sýkingarinnar fyrr en þau öðlast hinstu hvílu í neðanjarðarríki hinna dánu barna. Fyrst þar mun renna upp fyrir þeim að það skiptir ekki máli hvort þau voru berhöfðuð í sýnagógu eða kirkju eða mosku, hvort þau voru umskorin eða ekki, hvort þau mæltu forboðin orð, borðuðu svín eða kú eða hvort þau fengu sér heitt súkkulaði á eftir salamipizzunni sinni rétt áður en þau voru sprengd í loft upp af einhverjum sem gerði það ekki. Ísraelskar, bandarískar, enskar og ítalskar mæður ala börnin sín upp með allri sinni umhyggju og ástúð, til þess að fórna þeim til dauðaguðsins, rétt eins og móðurlíf þeirra væri klakstöð fyrir hermenn, og feður hvetja börnin sín til að gerast trúir herjum sem tryggja allt annað en öryggi. Þegar þessi börn deyja, til þess að einhver annar græði, axla foreldrarnir missi sinn með virðingu og stolti, eins og þeim var sjálfum kennt, setja myndirnar af dánu börnunum sínum á arinhilluna og andvarpa: „Hann var svo myndarlegur í einkennisbúningnum sínum.“ Það er kominn tími til að segja þessum foreldrum að enginn er myndarlegur í einkennisbúningi hrottaskapar. Það er kominn tími til að segja þeim að einkennisbúningar, heiðursmerki og titlatog eru ógeð. Segið þeim að að virðingu þeirra og stolti sé kastað á glæ.

Það er kominn tími til að segja gyðingum að eina leiðin til að draga úr gyðingahatri sé að fordæma einu ríkisstjórnina í heiminum sem sendir unga gyðingastráka og stelpur vísvitandi í rauðan dauðann og ofsækir heila semíska þjóð svo jaðrar við þjóðarmorð – að útskýra fyrir þeim að það er ríkisstjórn gyðinga og aðgerðir hersins hennar, en ekki eitthvað áskapað hatur gegn kynstofni gyðinga, sem eru ástæður þess að nýja táknið sem við sjáum svo oft í kröfugöngum fyrir Palestínu var hugsað upp – þar sem Davíðsstjarnan er lögð að jöfnu við hakakrossinn.

Það er hræðilega erfitt fyrir fólk sem hlaut menntun sína í Ísrael eða Bandaríkjunum eða einhverju öðru „vestrænu lýðræðisríki“, að viðurkenna að við vorum alin upp við fölsk og rasísk gildi. Alin upp í ótta við þá sem eru öðruvísi. Það eina sem getur orðið til að breyta hugarfarinu er síendurtekin myndin af limlestu litlu líkunum af fórnarlömbum þessara gilda. Á morgun er Yom Kippur, helgasti dagur gyðinga. Á þessum degi er ætlast til þess að fólk biðjist fyrirgefningar. Ekki að það fyrirgefi, heldur að það reyni að öðlast fyrirgefningu. Mig langar til að vitna í erindi sem ljóðskáldið Hanoh Levin heitinn, sem var eitt mesta leikskáld Ísraels, orti á sjöunda áratugnum:

Kæri faðir,
þegar þú stendur yfir gröf minni,
gamall og þreyttur og einmana,
og sérð þá grafa mig í jörðina,
biddu mig þá um fyrirgefningu, faðir.

Við verðum öll að biðja börnin okkar fyrirgefningar fyrir að hafa ekki verið betur á verði, fyrir að hafa ekki barist nógu hart fyrir því að halda loforð okkar um betri heim, fyrir að vernda þau ekki fyrir þessum illa sýkli, fyrir að láta þau verða fórnarlömb þessarar hræðilegu hugarsóttar sem þjáir okkur öll. Við þurfum að líta á saklausu, dolföllnu, vonsviknu litlu andlitin þeirra og spyrja sjálf okkur: Hvers vegna er vangi þeirra blóðrisa?

Dr. Nurit Peled-Elhanan er tungumálakennari við Hebreska háskólannn í Jerúsalem. Í september árið 1997 var dóttir hennar, Samarder, drepin af palestínskum sjálfsmorðsprengjumanni. Hún og fjölskylda hennar tilheyra samtökum sem heita Harmslegnar palestínskar og ísraelskar fjölskyldur fyrir friði.

Einar Steinn Valgarðsson þýddi.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top