Þann 31. mars síðastliðinn greindi fréttavefur Morgunblaðsins frá því að það hefði komið til ryskinga þegar Palestínumenn reyndu að skemma „varnargirðingu sem Ísraelar reisa nú á milli sín og palestínsku sjálfstjórnarsvæðanna.“ Þótt það sé rétt í sjálfu sér, sem sagt var, þá er ekki nema hálf sagan sögð með þessu orðavali.

Nú í júní eru liðin 40 ár frá Sex daga stríðinu, þegar Ísraelar lögðu undir sig þau svæði sem síðan er þekkt sem Herteknu svæðin. Svo langt hernám á sér fáa líka í seinni tíð, og er mér ekki kunnugt um að í seinni tíð hafi jafnmargir þurft að sæta hlutskipti flóttamanna jafnlengi og í tengslum við þetta hernám.
Andspyrna Palestínumanna gegn hernáminu ratar oft í fréttir, einkum þó þegar ofbeldi er með í spilinu. Friðsamleg andspyrna, sem er mun algengari, er síður fréttnæm, en stærsta fréttin er sú sem sjaldnast er sögð. Hún er sú að Palestína er hertekið land, að ísraelskir landtökumenn setjast að í þessu hertekna landi, með vitund og vilja stjórnvalda en í trássi við alþjóðalög, og að ástandinu þar hefur hrakað og hrakað – stundum hægt, stundum hratt, en stöðugt hrakað – áratugum saman.
Palestínskir stjórnmálamenn eru misjafnir eins og aðrir stjórnmálamenn, en ábyrgðin liggur fyrst og fremst hjá hernámsliðinu – Ísrael. Það er nefnilega svo, að Palestínumönnum er ókleift að reka efnahagskerfi þegar þeim eru allar bjargir bannaðar, eða að reka eðlilegt þjóðfélag undir oki hernáms og tilheyrandi mannréttindabrota.
Landtaka Ísraela er kafli út af fyrir sig. Hún fer þannig fram, í stuttu máli, að hópur vopnaðra manna kemur sér fyrir, yfirleitt á „óbyggðu svæði“ – þ.e.a.s hólum mitt á meðal palestínskra byggða – á herteknu svæðunum. Þeir setjast þar að, með fjölskyldur sínar og allt, og krefjast þess, öryggis síns vegna, að engum Palestínumönnum sé hleypt nær „byggðinni“ þeirra en sem nemur skot færi. Þetta gera þeir í krafti trúarsannfæringar sem segir þeim að guð hafi gefið Abraham og niðjum hans þetta land eins og það leggur sig. Þeir fá líka hlunnindi frá ísraelsku ríkisstjórninni.
Mikið vatn er runnið til sjávar síðan fyrstu byggðum af þessu tagi var komið upp, og eru sumar þeirra nú orðnar afar stórar. Sú stærsta af þeim öllum heitir Ariel, og er á norðanverðum Vesturbakkanum. Beint fyrir sunnan hana er bærinn Salfit, sem um gat í byrjun þessarar greinar. Á milli Salfit og Ariel hefur verið reistur veggur – sums staðar „bara“ margföld gaddavírs-rafmagnsgirðing – til þess að koma í veg fyrir að íbúar Salfit geti nálgast Ariel. Í leiðinni hafa landtökumenn slegið eign sinni á ræktarland og vatnsból, og lokað leiðinni til héraðshöfuðborgarinnar, Qalqiliya. Bærinn Salfit stendur ekki rétt við landamærin, heldur tæpa 20 km inni á Vesturbakkanum – og hann er ekki stærri en Árnessýsla. Alþjóðadómstóllinn hefur úrskurðað að þessi aðskilnaðarmúr sé í andstöðu við alþjóðleg lög.
Það er í stuttu máli það sem þessi „varnargirðing“ gerir. Öðru megin við hana eru Palestínumenn, með sína vanmáttugu heimastjórn, hinu megin Ísraelar, sitjandi á stórum hluta hertekinnar Palestínu.
Birtist í Frjáls Palestína.