Verjandi hins glataða málstaðar“ var fyrirsögnin á þriggja síðna viðtali í Morgunblaðinu 4. apríl sl. „Málsvari morðingja“ hefði það eins getað verið. Lögfræðingur sem hlotið hefur heimsfrægð fyrir að bjarga ríku fólki frá rafmagnsstólnum og er stoltur yfir því að enginn þeirra tíu einstaklinga sem hann hefur bjargað frá dauðadómi hafi drepið aftur. Hann getur hins vegar ekki hreykt sér á sama hátt yfir fjöldamorðingunum fyrir botni Miðjarðarhafs sem hann ver líka af miklum krafti og kunnáttu og sennilega án þess að fá borgað fyrir það. Þeir halda nefnilega áfram að drepa.
Hvergi hefur komið fram að Dershowitz er bandarískur gyðingur sem gegnt hefur veigamiklu hlutverki fyrir ísraelsk stjórnvöld, verið þeirra helsti sérfræðingur varðandi pyntingar og handgenginn mörgum helstu forystumönnum Ísraelsríkis. Dershowitz skilgreinir sig sem vinstrimann í bandarískum stjórnmálum. Hann er demókrati sem styður Hillary Clinton en myndi kjósa Barack Obama ef svo færi, enda Obama gamall nemandi hans. Þótt afstaða Dershowitz gagnvart Palestínumönnum sé býsna skuggaleg, þá er hægt að vera honum sammála um ýmislegt, þar á meðal þegar hann hvetur til viðræðna við Hamas-samtökin og stjórnvöld á Gaza.
Alan Dershowitz var leiddur til hásætis í íslenskum fjölmiðlum og var þar hafinn til skýjanna fyrir gáfur sínar, fyrir að vera lagaprófessor við Harvard og fyrir að hafa orðið prófessor þar yngri að árum en nokkur annar. Sjálfum þykir honum vænst um að hafa bjargað mannslífum, þessum sem beið dauðadómur fyrir morð, sumir sekir að hans áliti, aðrir saklausir. Alls tíu manns.
„Eitthvað verða Ísraelsmenn að gera“
En Dershowitz ver líka, og ekki af minni ástríðu, fjöldamorð Ísraelshers á Gazaströnd. „Eitthvað verða Ísraelsmenn að gera“, segir lögfræðingurinn. Eins og sendiherrar Ísraels og áróðursmaskína Ísraelsstjórnar sem heild, þá leggur Dershowitz megináherslu á smábæinn Sderot sem byggður er á landtökusvæði frá 1948 í námunda við Gazaræmuna. Sderot er nánast eini þéttbýlisstaðurinn sem heimatilbúnar Qassam-flaugar andspyrnuhópa á Gazasvæðinu ná til, og þar hefur á liðnum áratug um einn maður fallið á hverju ári af þeirra völdum. Síðast gerðist það 23. mars síðastliðinn, að Ísraeli á fimmtugsaldri fórst af völdum slíkrar flaugar. Þá hafði enginn farist í níu mánuði og enginn eftir það. „Eitthvað verða Ísraelsmenn að gera,“ segir Alan og nú voru nærri 130 manns látnir gjalda fyrir með lífi sínu, þar af fjöldi barna.

Fram hefur komið að stærstur hluti þeirra sem látið hafa lífið í árásum Ísraelshers eru óbreyttir borgarar sem engan beinan þátt hafa átt í vopnaðri andspyrnu gegn Ísrael. Með lögfæðilegri kunnáttusemi er Dershowitz búinn að breyta hlutföllunum milli andspyrnumanna og óbreyttra borgara, en lætur að því liggja að hinir fyrrnefndu, sem hann skilgreinir sem hryðjuverkamenn, séu réttdræpir. Herinn sem grimmdarverkin fremur og ríkisstjórnin sem ábyrgð ber eru ekki hryðjuverkamenn samkvæmt skilgreiningu lagaprófessorsins.
Dershowitz hefur sína skilgreiningu á hverjir eru stríðsmenn og hverjir ekki. Hann er á því til dæmis að móðir ungs manns sem tekur þátt í andspyrnuhreyfingunni, sé líka sek ef hún skýtur skjólshúsi yfir son sinn. Baráttumaður sem skýtur Qassam-flaug á Sderot og fer svo heim til fjölskyldunnar gerir hana þar með til fjölskyldunnar gerir hana þar með samseka og svo ber að skilja að Dershowitz vilji telja allt heimilisfólk hryðjuverkamenn.
Eyðilegging heimila og pyntingar
Dershowitz vísar til þess að Hæstiréttur Ísraels samþykki ekki eyðileggingu heimila nema eigandur þeirra séu samsekir um hryðjuverk. Tugir þúsunda heimila hafa verið sprengd í loft upp af hernámsliðinu og Dershowitz getur réttlætt það með sinni endurskilgreiningu á hverjir séu sekir um hryðjuverk, og það er alla vega ekki herinn samkvæmt hans skilgreiningum.
Prófessorinn hefur á sama hátt haft áhuga á pyntingum og gerst helsti sérfræðingur ísraelskra yfirvalda í að lögleiða pyntingar. Hann segir skemmtilega opinskátt frá því að 93 ára gömul móðir sín kvarti næstum daglega yfir því sem hún sé ósammála í skrifum hans og að eiginkona hans gagnrýni sig fyrir ósamkvæmni, því að ekki sé hægt „að vera andvígur pyntingum en þó hlynntur pyntingaheimildum.“ Prófessor Dershowitz mun hafa gegnt lykilhlutverki í því að ísraelska leyniþjónustan, lögregla og her hefur fengið lagalegar heimildir til pyntinga. Ísrael er nú eina landið sem hefur lögleitt pyntingar sem yfirheyrsluaðferð – að sjálfsögðu „hóflegar“ pyntingar.
Hver er hryðjuverkamaður?
Einhver samsinna lögfræðiprófessornum sagði líka á undan honum að börnin sem létu lífið í loftárásum Ísraelshers væru vís með að verða hryðjuverkamenn ef þau næðu til þess aldri og þroska. Þetta minnir að nokkru á réttlætingar sem heyrst hafa á sjálfmorðsárásum Palestínumanna sem gerðar hafa verið á almenningsstaði í Ísrael, þar á meðal á veitingahúsum. Þá er því haldið fram að þótt þar hafi fáir farist íklæddir einkenningsbúningi hersins þá séu Ísraelar herþjóð, þar sem allir, jafnt konur sem karlar, gegni herskyldu. Og eftir að henni lýkur er fólk skráð í varalið. Þannig séu allir íbúar Ísraels óvinahermenn í augum þess sem gerir sjálfsmorðsárás.
Dershowitz er með samskonar málflutning og segir í viðtalinu við Morgunblaðið að „stríð sé ekki lengur háð af fólki einkennisbúningum“ og segir gömlu reglurnar fáranlegar sem voru þess efnis, „að menn væru almennir borgarar nema þeir væru klæddir einkennisbúningum.“ Dershowitz segir Ísraelsher hafa náð stórkostlegum árangri í að laga hlutfallið á milli almennra borgara og vígamanna sem falla í árásum hersins, það hafi verið einn á móti einum í loftárásum á árunum 2001-2002, en á þessu ári sé hlutfallið orðið þannig að „á móti 27 vígamönnum falli aðeins einn almennur borgari.“ Lögfræðingurinn vísar til árásar Ísraelshers á Gaza þegar hann segir: „í mars þegar 120 manns létu lífið, 93 hryðjuverkamenn og 20 óbreyttir borgarar.“ Hér er um að ræða óhugnanlegan leik að tölum til að réttlæta fjöldamorð.
Ekki þarf að fjölyrða um að tölur sjúkrahúsanna á Gaza, Rauða hálfmánans og alþjóðastofnana eru allt aðrar. Langflestir sem létu lífið af völdum Ísraelshers á fimm dögum í lok marsmánaðar voru óbreyttir borgarar, börn og fullorðnir sem hvorki höfðu komið nálægt Qassam-flauga-árásum á Sderot né neins konar hernaði. Þeir sem þar koma nærri eru fámennir hópar baráttumanna úr ýmsum áttum, sumir tengdir Fatah eða Hamas og aðrir eru frá minni samtökum eða engum.
„Þeim sjálfum að kenna“
Dershowitz er svo ákafur í málsvörnininni fyrir ísraelsku fjöldamorðingjana, að til að vera fyrri til þá vænir hann Palestínumenn um stríðsglæpi og er þá væntanlega að vísa til árásanna á Sderot og Ísraelans sem fórst þar 23. mars. Hann ver hins vegar stríðsglæpi Ísraelsríkis, stjórnar og hers, af sinni lögfræðilegu kunnáttusemi og segir það ekki vera stríðsgæpi því að Gaza sé ekki hertekið svæði og því sé ekki um að ræða brot á Genfarsáttmálum. Hér er að sjálfsögðu um útúrsnúning að ræða sem málsvarar morðingja eru oft snjallir í fyrir dómstólum og við fáum að sjá í amerískum bíómyndum. Íbúar Gazastrandarinnar búa við enn grimmara hernám en áður, eftir að Sharon ákvað að draga her sinn og landtökufólk til baka frá Gazaströnd fyrir nokkrum árum. Það var einhliða aðgerð og ekkert samband haft við palestínsk yfirvöld og svæðinu ekki skilað til þeirra. Innilokun íbúanna hefur verið meiri eftir þetta, sem og árásir hersins, bæði úr lofti, af landi og af sjó.
Dershowitz nefnir ekki Vesturbakkann þótt íbúarnir þar verði fyrir stríðsglæpum af völdum hernámsins dag hvern. Hann var spurður að því í sjónvarpsviðtali, eftir að hafa lýst rækilega hörmungum íbúanna í Sderot þar sem einn maður hefur fallið af völdum Palestínumanna á liðnu ári, hvað hann hefði að segja um það sem palestínsku íbúarnir hefðu mátt þola. Dershowitz hafði lítið um hörmungar Palestínumanna að segja. „Þetta er mest þeim sjálfum um að kenna (self-inflicted)“ svaraði hann. Best að sakfella fórnarlambið. Við þau orð er litlu að bæta. Mörgum rennur þó sennilega kalt vatn milli skinns og hörunds.
Ritað í Skálholti 12. og 26. apríl 2008.
Birtist í Frjáls Palestína.