1948

Ég vona að einn daginn verði stofnuð „Sannleiks- og sáttanefnd“ um málefni Ísraela og Palestínumanna, að suður-afrískri fyrirmynd. Hún ætti að vera skipuð sagnfræðingum frá Ísrael, Palestínu og hvaðanæva úr heiminum, og grafast fyrir um hvað gerðist í raun í landinu árið 1948.

Á þeim 60 árum sem nú eru liðin, hafa atburðir stríðsins verið grafnir undir mörg lög af áróðri Ísraela og Palestínumanna, gyðinga og araba. Það þarf því hálfgerða fornleifarannsókn til þess að komast til botns.

Jafnvel eftirlifandi sjónarvottar eiga stundum erfitt með að greina á milli þess sem þeir sáu í raun og veru og goðsagnanna sem hafa skrumskælt og afbakað atburðina svo það er næstum ekki hægt lengur að bera kennsl á þá.

Ég er einn þessara sjónarvotta. Síðustu daga, í tilefni af 60 ára afmæli Ísraelsríkis, hefur fjöldi sjónvarps- og útvarpsspyrla víða að beðið mig að lýsa því hvað gerðist í raun og veru. Hér eru nokkrar af spurningunum og svör mín við þeim.

– Hvernig var þetta stríð frábrugðið öðrum?

Í fyrsta lagi var þetta ekki eitt stríð heldur tvö, og það var var ekki hlé á milli þeirra.

Í fyrra stríðinu börðust gyðingar og arabar í landinu. Það stríð hófst þegar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um að skipta Palestínu í 2 ríki, ríki araba og ríki gyðinga, þann 29. nóvember 1947. Stríðið stóð þar til Ísrael lýsti yfir sjálfstæði sínu þann 14. maí 1948. Á þeim degi hófst seinna stríðið, stríðið milli Ísraels og nágrannaríkjanna, sem tefldu herjum sínum fram til orrustu.

Þetta var ekki stríð tveggja ríkja um landsvæði sem lá á milli þeirra, eins og stríð Þjóðverja og Frakka um Alsace. Þetta voru ekki heldur bræðravíg, eins og borgarastríðið í Bandaríkjunum, þar sem báðar hliðar tilheyrðu sömu þjóð. Ég flokka þetta sem „þjóðernisstríð“. Slíkt stríð er háð milli mismunandi þjóða sem búa í sama landi og gera báðar tilkall til landsins. Þá er markmiðið ekki aðeins að vinna hernaðarlegan sigur heldur að leggja undir sig sem mest af landi og mögulegt er án þess að hin þjóðin fái að búa á því. Þetta gerðist þegar Júgóslavía klofnaði, og það er ekki tilviljun að það var þá sem hið ljóta orð „þjóðernishreinsun“ varð til.

– Var stríðið óumflýjanlegt?

Á sínum tíma vonaði ég til hinstu stundar að það mætti koma í veg fyrir það (nánar um það síðar). Þegar ég lít núna aftur er mér ljóst að það var orðið of seint.

Gyðingar voru staðráðnir í að stofna sitt eigið ríki. Þetta var eitt af grundvallarmarkmiðum Zíonista hreyfingarinnar. Hún hafði verið stofnuð hálfri öld fyrr og styrktist hundraðfalt eftir Helförina, sem lauk aðeins tveim og hálfu ári áður.

Arabar voru staðráðnir í að hindra að gyðingaríki yrði stofnað í landinu þeirra sem þeir álitu (réttilega) vera arabaland. Þess vegna hófu arabar stríðið.

– Hvað hugsuðuð þið gyðingar þegar þið lögðuð út í stríðið?

Þegar ég skráði mig í herinn í upphafi stríðsins, vorum við sannfærð um að við værum í hættu á að vera útrýmt og að við værum að verja okkur sjálf, fjölskyldurnar okkar og allt samfélag gyðinga á svæðinu. Frasinn „Það er enginn annar valkostur“ var ekki bara slagorð, heldur djúpstæð sannfæring. (Þegar ég tala um „okkur“ á ég við fólkið almennt og sér í lagi hermennina.) Ég held ekki að sannfæringin hafi verið alveg eins djúpstæð hjá aröbunum. Það varð þeim að falli.

Þetta skýrir hvers vegna samfélag gyðinga virkjaðist til baráttunnar frá fyrstu stundu. Það var samstaða um forystuna (meira að segja Irgun og Stern-hreyfingin viðurkenndu hana), og samstæður heraflinn tók fljótt á sig mynd eiginlegs fastahers.

Ekkert þvíumlíkt gerðist meðal arabanna. Það var engin samstaða um forystu meðal þeirra, enginn samstæður her araba eða Palestínumanna, sem þýddi að þeir gátu ekki einbeitt liði sínu á hernaðarlega mikilvægum stöðum. En við áttuðum okkur ekki á þessu fyrr en eftir stríðið.

– Álituð þið ykkur vera sterkari aðilann?

Alls ekki. Á þessu tíma voru gyðingar aðeins þriðjungur íbúanna. Hundruð arabaþorpa víðs vegar um landið lágu við lífæðarnar sem afkoma var háð. Við misstum marga menn þegar við reyndum að opna þær, einkum veginn til Jerúsalem. Við héldum í alvörunni að við værum „hinir fáu á móti hinum mörgu“.

Smám saman snerust valdahlutföllin við. Herinn okkar varð skipulagðari og lærði af reynslunni, á meðan arabarnir héldu áfram að reiða á „faz‘ah“ – einfalda herkvaðningu þar sem þorpsbúar voru virkjaðir, vopnaðir sínum eigin gömlu vopnum. Allt frá apríl 1948 fengum við mikið magn léttra vopna frá Tékkóslóvakíu, sem voru send til okkar að fyrirmælum Stalíns. Um miðjan maí, þegar við áttum von á innrás araba, réðum við yfir samhangandi landsvæði.

– Með öðrum orðum, þá hröktuð þið arabana burt?

Þetta voru ekki ennþá „þjóðernishreinsanir“ þegar þarna er komið sögu, heldur hliðarverkun af stríðinu. Við vorum að búa okkur undir stórárás arabaherjanna og var ókleift að skilja fjölda fjandsamlegra íbúa fyrir aftan okkur. Þessi hernaðarlega nauðsyn var að sjálfsögðu fléttuð saman við meira eða minna meðvitaða löngun til að skapa þjóðernislega einsleitt yfirráðasvæði gyðinga.

Í áranna rás hafa andstæðingar Ísraels búið til samsæriskenningu um „áætlun D“ eins og hún hefði falið í sér allsherjar þjóðernishreinsun. Í raun var þetta hernaðaráætlun um að ná samfelldu landsvæði á okkar vald til að búa okkur undir úrslitaátökin við heri araba.

– Meinar þú að á þessu stigi hafi ekki enn verið ákveðið að hrekja alla arabana á brott?

Menn verða að muna hvernig stjórnmálaástandið var: Samkvæmt ályktun Sameinuðu þjóðanna átti meira en helmingur Palestínu (eins og verndarsvæðið var undir stjórn Breta árið 1947) að tilheyra „gyðingaríkinu“. Á því svæði voru meira en 40% íbúanna arabar. Talsmenn araba héldu því fram að það væri ómögulegt að stofna gyðingaríki þar sem nánast helmingur íbúanna væri arabar og þeir kröfðust þess að ályktunin um skiptingu landsins yrði dregin til baka. Gyðingarnir studdu ályktunina og vildu sanna að þetta væri hægt. Svo að það var talsvert reynt (t.d. í Haifa) að sannfæra arabana um að yfirgefa ekki heimili sín. En raunveruleiki stríðsins sjálfs olli fjöldaflóttanum.

Menn verða að skilja að arabarnir „flúðu landið“ ekki. Almennt gerðust hlutirnir svona: Í bardögunum varð arabaþorp fyrir miklum árásum. Íbúar þess – menn, konur og börn – flúðu auðvitað til næsta þorps. Svo skutum við á næsta þorp og þau flúðu yfir í það þarnæsta og svo koll af kolli, þangað til samið var um vopnahlé og allt í einu voru komin mörk (Græna línan) milli þeirra og heimila þeirra. Fjöldamorðin í Deir Yassin ýttu líka á þau að flýja. Meira að segja íbúar Jaffa yfirgáfu ekki landið. Gaza – þangað sem fólki flúði – tilheyrir þrátt fyrir allt líka Palestínu.

– Ef svo er, hvenær hófust þá „þjóðernishreinsunin“ sem þú talaðir um?

Í seinni hluta stríðsins, eftir að sókn arabarherjanna var hrundið, varð það að sjálfstæðu hernaðarmarkmiði að hrekja arabana burtu. Svo alls sannleika sé gætt, þá má ekki gleyma því að þetta var ekki einhliða. Það voru ekki margir arabar eftir á svæðunum sem við lögðum undir okkur, en það var heldur ekki neinn gyðingur eftir á svæðunum sem arabarnir lögðu undir sig, eins og Etzion-samyrkjubúunum eða gyðingahverfinu í gömlu borginni í Jerúsalem. Gyðingarnir voru drepnir eða flæmdir á brott. Það var stigsmunur: Á meðan gyðingar unnu stór landsvæði tókst aröbum aðeins að vinna lítil svæði.

Raunverulega ákvörðunin var tekin eftir stríðið, að leyfa ekki hinum 750 þúsund flóttamönnum að snúa aftur til heimkynna sinna.

– Hvað gerðist þegar arabaherirnir komu inn í stríðið?

Í upphafi virtist staða okkar mjög örvæntingarfull. Arabaherirnir voru fastaherir, vel þjálfaðir (aðallega af Bretum) og búnir þungavopnum – orrustuflugvélum, skriðdrekum og fallbyssum – á meðan við höfðum aðeins létt vopn – riffla, vélbyssur, léttar sprengjuvörpur og gagnslítil vopn ætluð gegn skriðdrekum. Það var ekki fyrr en í júní að okkur fóru að berast þungavopn.

Sjálfur tók ég þátt í að afferma fyrstu orrustuflugvélarnar sem okkur bárust frá Tékkóslóvakíu. Þær höfðu verið framleiddar fyrir þýska herinn. Yfir höfðum okkar börðust þýskar Messerschmitt-vélar okkar við breskar Spitfire-vélar Egypta.

– Hvers vegna studdi Stalín gyðingana?

Þegar ályktun Sameinuðu þjóðanna lá fyrir flutti fulltrúi Sovétríkjanna, Andrei Gromkyo, ákaflega zíoníska ræðu. Skammtímamarkmið Stalíns var að losna við Breta frá Palestínu, þar sem þeir hefðu annars getað heimilað uppsetningu bandarískra eldflauga. Hér er vert að nefna nokkuð sem oft vill gleymast: Sovétríkin voru fyrsta ríkið sem viðurkenndi Ísrael de jure, strax eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna. Á þeim tíma viðurkenndu Bandaríkin Ísrael aðeins de facto.

Stalín sneri ekki baki við Ísrael fyrr en nokkrum árum seinna þegar Ísrael gekk opinberlega til liðs við Bandaríkin og bandamenn þeirra. Á þeim tíma var vænisjúk gyðingaandúð Stalíns líka að koma í ljós. Stefnumótendurnir í Moskvu töldu að rísandi alda arabískrar þjóðernishyggju væri öruggari hestur að veðja á.

– Hvað fannst þér sjálfum á meðan stríðið geisaði?

Rétt fyrir stríðið trúði ég ennþá á „semítíska“ samstöðu allra landsmanna. Mánuði áður en stríðið skall á gaf ég út bæklinginn „Stríð og friður á landsvæði semíta“, þar sem ég talaði fyrir þessari hugmynd. Þegar ég lít til baka er mér ljóst að það var orðið allt of seint.

Þegar stríðið braust út gekk ég samstundis til liðs við Givati-herdeildina. Rétt áður náði ég – ásamt hópi vina – að gefa út annan bækling sem nefndist „Frá vörn í stríð“, þar sem ég lagði til að stríðið yrði háð með friðinn á eftir í huga. (Ég var undir miklum áhrifum frá Basil Liddell Hart, Breta sem talaði fyrir slíkri stefnu í síðari heimsstyrjöldinni.)

Vinir mínir reyndu mjög að sannfæra mig um að skrá mig ekki í herinn, svo ég hefði ráðrúm til að sinna því mun mikilvægara verkefni að tjá skoðanir mínar á meðan stríðið stæði yfir. Mér fannst þeim skjátlast – ég áleit að við þessar aðstæður bæri heiðarlegum ungum manni í góðu formi að fara og berjast með hersveitunum. Hvernig gat ég verið heima á meðan þúsundir úr mínum aldursflokki hættu lífi sínu dag og nótt? Fyrir utan það, hver myndi nokkurn tíma framar hlusta á mig ef ég brygðist skyldu minni við þjóð mína á ögurstundu?

Í upphafi stríðsins var ég óbreyttur hermaður í fótgönguliðinu og barðist í kring um veginn til Jerúsalem og í seinni hluta þess þjónaði ég í vélvæddu herdeildinni Refum Samsons við landamæri Egyptalands. Þar fékk ég tækifæri til að sjá stríðið frá mörgum mismunandi hliðum.

Allt stríðið skráði ég það sem ég upplifði. Skýrslurnar mínar birtust í dagblöðum og seinna var þeim safnað saman og gefnar á bók sem nefnist Á Fílisteavöllum 1948 (ensk útgáfa er væntanleg). Ritskoðarar hersins leyfðu mér ekki að fara ítarlega út í neikvæðu hliðarnar, svo ég skrifaði aðra bók strax að stríðinu loknu, sem nefnist Hin hliðin á peningnum. Hún var dulbúin sem bókmenntaverk til þess að ég þyrfti ekki að afhenda hana til ritskoðunar. Þar greindi ég frá því, meðal annars, að við hefðum fengið fyrirskipanir um að drepa alla araba sem reyndu að snúa aftur.

– Hvað lærðir þú af stríðinu?

Voðaverkin sem ég varð vitni að gerðu mig að sannfærðum, virkum friðarsinna. Stríðið kenndi mér að það er til palestínsk þjóð og að við munum aldrei ná friði nema palestínskt ríki verður ekki til við hlið okkar ríkis. Sú staðreynd að þetta hefur enn ekki ræst er ein af ástæðum þess að segja má að stríðið sem hófst 1948 geisi fram á þennan dag.

Höfundur er ísraelskur rithöfundur og stjórnmálamaður.

Þýðing: Einar Steinn Valgarðsson

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er ísraelskur rithöfundur, fyrrum hermaður, stjórnmálamaður ,blaðamaður og aktívisti sem hefur helgað langt líf sitt friðarbaráttunni og er meðal stofnenda friðarsamtakanna Gush Shalom.

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top