Frá árinu 1948 hafa Palestínumenn búið við hlið Ísraela, við nánast stanslaust áreiti og yfirgang. Fjögur stór stríð hafa verið háð á svæðinu ásamt því að Palestínumenn hafa tvisvar gert uppreisn, Intifada, gegn hersetu og kúgun Ísraela. Fyrsta Intifada-uppreisnin var árið 1987 og lauk henni árið 1993. Seinni Intifada-uppreisn Palestínumanna hófst árið 2000 og stendur hún enn yfir. Palestínumenn hafa barist fyrir auknum réttindum, frelsi og réttinum til að stofna sitt eigið ríki. Ísraelar hafa svarað þessu með mikilli hörku og beitt miklu ofbeldi, andlegu sem og líkamlegu, gegn Palestínumönnum. Stærsta og viðamesta árás sem Ísraelar hafa gert er samt aðskilnaðarmúrinn.
Í júní árið 2002 hóf ísraelska ríkisstjórnin að byggja múr við þorpin Jenin, Tulkarem og Qalqiliya, sem staðsett eru norðarlega á Vesturbakkanum. Múrinn aðskildi Palestínumenn frá landi sínu og öðrum Palestínumönnum og frá Ísrael. Landamæri Vesturbakkans og Ísraels eru 200 kílómetra löng, en í dag er múrinn orðinn 400 kílómetra langur og stefnir í að hann nái allt að 730 kílómetrum. Aðeins er um 20% múrsins er staðsettur á landamærunum frá 1967 en restin, 80%, nær allt að 16 kílómetra inn fyrir landamæralínu Vesturbakkans. Þetta þýðir það að ekki er verið að byggja múr í kringum Vesturbakkann, heldur á Vesturbakkanum. Með tilkomu múrsins hefur einhverskonar gettóvæðing orðið í Palestínu. Múrinn umkringir marga bæi og er oft aðeins ein leið inn og út úr bæjunum. Við þessar aðstæður einangrast þorpin frá umheiminum og samskipti og samgöngur verða mjög erfið. Bændum er meinað að fara inn á landið sitt sem er fyrir utan múrinn, og hefur þetta ollið miklu atvinnuleysi og fátækt, ásamt því að takmarkað magn er til af matvælum á svæðunum. Þegar múrinn er fullkláraður er talið að um 250 km² af ræktunarlandi Palestínumanna hafi farið undir við byggingu hans, a.m.k. 12 þorp verða algjörlega umkringd múrnum og mun hann einangra allt að 61 þúsund manns.

Hinn alræmdi Berlínarmúr var 3,6 metra hár, 1,2 metrar á breidd og var 155 kílómetrar að lengd. Aðskilnaðarmúrinn sem Ísraelar eru að byggja er 8 metra hár, 3 metrar á breidd og á að ná 730 kílómetrum. En ekki er allt upp talið enn, því við vegginn er svokallað öryggissvæði sem stranglega bannað er að fara inn á og er það svæði oft umvafið gaddavír eða rafmagnsgirðingu. Á mörgum stöðum á múrnum eru turnar þar sem hægt er að hafa yfirsýn yfir svæðið. Inni í þessum turnum eru vopnaðir hermenn og oftar en ekki hafa þeir notað þá til að skjóta á Palestínumenn. Myndavélar eru á mörgum stöðum til að fylgjast með því hvort Palestínumenn séu nálægt múrnum, og ef svo er eru hermenn sendir til að fæla þá í burtu. Við byggingu múrsins hefur þurft að rífa mörg hundruð hús sem Palestínumenn eiga og hefur það aukið fjölda flóttamanna, sumir eru nú að flýja í þriðja sinn. Ræktarland Palestínumanna hefur verið eyðilagt og hafa Ísraelar einnig rænt vatnsbólum þeirra í leiðinni. Ómögulegt er að komast yfir múrinn, en á vissum stöðum er hlið þar sem hægt er að fara í gegn. Þessum hliðum er stjórnað af Ísraelum og ráða þeir hverjir fara í gegn. Bændur í Qalqiliya og fleiri bæjum hafa t.d. oft lent í því að vera meinað að fara í gegn til að tína ólífur af landi sínu og hefur atvinnuleysi þar aukist gríðarlega. Atvinnuleysið, sem árið 2000 var 18%, hefur meira en fjórfaldast.
Alþjóðadómstólinn í Haag dæmdi þann 9. júlí 2004 að múrinn væri ólöglegur samkvæmt Genfarsáttmálanum og að Ísrael bæri að stöðva framkvæmdir, rífa múrinn og einnig að greiða skuli bætur fyrir það tjón sem Palestínumenn hafa orðið fyrir. Ekki hafa Ísraelar farið eftir þessum dómi og virðist vera sem þeir neiti lögsögu dómstólsins. Þó hafa Ísraelar skrifað undir fjórða Genfarsáttmálann sem var undirritaður árið 1949, en láta eins og þessi sáttmáli nái ekki til Palestínumanna.
Það er auðvelt að lesa út úr þessu: Ísraelar vilja landsvæði Palestínumanna en þeir vilja ekki fólkið. Það er auðvelt að hefja stríð, en mun erfiðara að fara eftir lögum og reglum sem alþjóðasamfélagið hefur samþykkt um hvernig á að hegða sér við stríðsrekstur og hernám. Ísraelar hafa brotið gegn þessum reglum í gríð og erg og virðast ekki ætla að fara eftir þeim á næstunni. Múrinn er aðeins eitt dæmi af mörgum um brot Ísraela á leikreglunum. Menn hafa lagt það á sig að semja reglur til að tryggja það að réttur borgara í stríðum sé tryggður. Til þess að reglur virki þá þarf að framfylgja þeim og virða, en það hefur Ísrael því miður ekki gert.
Birtist í Frjáls Palestína.