
Mohamed Seif El-Dawla er egypskur prófessor í verkfræði. Hann hefur einnig numið lög, að sögn aðallega fyrir sjálfan sig. Ég er kynnt fyrir honum á Sjöttu Cairo-ráðstefnunni um frið og lýðræði, sem fram fór 27. – 30. mars 2008 í Cairo í Egyptalandi. Ég sest niður með honum og við förum að spjalla. Í ljós kemur að hann hefur frá mjög athyglisverðum hlutum að segja, frá öðru sjónarhorni en oftast heyrist. Hann segir til dæmis að það sé ekki tímabært að fjalla um þessa svokölluðu ríkjalausn. Áður en það er dagskrárhæft þarf að laga grundvallarþætti er snúa að svæði araba. Ég ákveð að taka við hann viðtal og miðla því sem hann hefur að segja. Í viðtalinu er þungamiðjan á stöðuna sem Egyptaland er í vegna þeirra samninga sem það hefur gert við vestræna valdhafa, sem hann segir að hafi stofnað fullveldi Egyptalands í hættu og sundrað Arabaheiminum. Það sé aðkallandi að frelsa Palestínu og arabaheiminn undan erlendu oki og sameina fólkið og landið á ný.
Fjölþjóðlegur NATÓ-her á egypsku landi
Útkoma Camp David-samkomulagsins 1978, sem leiddi til friðarsamningsins milli Egypta og Ísraela 1979, er að sögn Mohamed Seif meðal annars hrun þjóðaröryggis Egyptalands og yfirráð Bandaríkjanna og zíonista. Samningarnir, sem eiga rætur sínar að rekja allt aftur til 1973, eru skraddarasaumaðir fyrir Bandaríkin, sem lögðu línurnar og tryggðu að þeir kæmust á, til að tryggja öryggi Ísraels og búa svæði araba undir bandarískt forræði.
Hann segir þessa samninga ótæka og þeim beri að hafna á grundvelli margra þátta. Vegna þeirra hafa Egyptar ekki sjálfræði yfir hluta af eigin landi, Sínaí-skaganum, og því landi sem snýr að landamærunum við Palestínu, Gaza. Samningurinn gerir ráð fyrir takmörkuðum áhrifum egypsks hers í vörnum á Sínaí sé árás yfirvofandi á Ísrael. Til að framfylgja þessu ákvæði er fjölþjóðlegur her staðsettur á þessu svæði til að fylgjast með skuldbindingu Egyptalands við þetta ákvæði. Þessi útlendi her er ekki undir stjórn Sameinuðu þjóðanna (SÞ) heldur Bandaríkjanna. Multinational Forces and Observers (MFO), eða „appelsínugulu hattarnir“ eins og þeir eru kallaðir til að aðgreina þá frá bláum húfum SÞ, eru her samsettur af hermönnum frá 11 ríkjum sem eru öll í NATÓ. Flestir eru frá Bandaríkjunum, um 700 hermenn, en önnur ríki eru með táknræna þátttöku að undanskildum Fiji-eyjum og Kólumbíu. Í allt er um 1700 erlendir hermenn á svæðinu. Bandaríkjunum og Ísrael tókst að skipta eftirliti SÞ á svæðinu út fyrir MFO. Samkvæmt samskiptareglum sem voru undirritaðar 1981, er ekki hægt að afturkalla þennan her nema með samhljóma samþykki fastafulltrúa öryggisráðsins, sem eru Kína, Bandaríkin, Frakkland, Bretland og Rússland. Egyptaland hefur sem sagt ekki vald til að reka þennan her úr eigin landi. MFO er staðsett á tveimur herstöðvum, í El Gorah í Norður-Sínaí og á milli Sharm El Sheik og Naama-flóa. Til viðbótar eru um 30 eftirlitsstöðvar á svæðinu. Að auki er siglingaeftirlitsstöð á Tiran-eyju, sem er undir yfirráðum Saudi-Arabíu, en þeir viðurkenna ekki Ísraelsríki. „Hvernig er það þá mögulegt,“ spyr Mohamed Seif, „að þeir séu þátttakendur í öryggissamkomulagi Camp Davids samningsins?“
Samningarnir ógna fullveldi Egyptalands
Að sögn Mohamed Seif greiddi samkomulagið Bandaríkjunum leið að innviðum egypsks samfélags, til að ná djúpum tökum á því, meðal annars í gegnum fjárhagsaðstoð sína og ráðgjöf, og með því að framfylgja eftirliti vegna samninganna. Í samningunum er einnig gert ráð fyrir að þessir samningar hafi forgangsrétt yfir aðra samninga, þar á meðal samninga er lúta að sameiginlegum vörnum arabaþjóðanna, og hindra þar með Egyptaland í að standa með öðrum arabaríkjum ef þau verða fyrir áras frá Ísrael. Egyptaland má heldur ekki gera samninga við aðra, þar sem unnið er gegn þessu ákvæði. Egyptalandi eru þar með settar skorður til að mynda tengsl og gera samninga, sem gætu þjónað þeirra eigin hagsmunum. Í raun er búið að lama Egyptaland í þessum málum, þar sem þessi erlendi her á að gæta landamæranna við Gaza langt inni í landi Egyptalands. Þetta þjónar ekki hagsmunum Egyptlands, heldur er þetta gert til að tryggja öryggi Ísraels.

Með þessum samningum varð Egyptaland fyrsta arabaríkið til að viðurkenna Ísraelsríki. Mohamed Seif segir að þessi viðurkenning hafi veitt zíonistum lögmætingu á hernámi Palestínu og klofið arabaheiminn og sundrað. Baráttan gegn hernámi Palestínu varð einnig öll erfiðari. Sú samstaða sem var sýnileg á Khartoum-ráðstefnunni 1967 og seinna í stríðinu 1973 hafi horfið eftir Camp David-samningana.
Mohamed Seif bendir einnig á að þessir samningar brjóti í bága við stjórnarskrá Egyptalands, þar sem meðal annars segi að Egyptaland sé hluti af heimshluta araba og þrífist á einingu hans. Samningarnir eru einnig í trássi við alþjóðalög sem kveða á um að samningar séu ógildir ef þeir eru samþykktir undir valdi eða hótun um valdbeitingu, en á meðan samningaviðræðum stóð var Egyptaland að hluta hernumið af Ísrael. Undir öllum ferlinum vofði hótun Bandaríkjanna um innrás, væri hagsmunum Ísraels ógnað, sem olli þrýstingi á samningamenn Egyptalands um að undirrita samninginn.
Mikilvægt að losa Egyptland og arabaheiminn við afskipti erlendra aðila
Til að leysa hættuástandið sem enn ríkir vegna þessara samninga þarf að losa Egyptaland undan þessum skuldbindingum við erlenda aðila, undan samningum sem heimila erlendu herliði eftirlit með landamærum Egyptalands og Palestínu. Egyptaland og Palestína þurfa að gera samninga sín á milli – óháð erlendum afskiptum. Það þarf að koma á eðlilegum samskiptum Egyptalands við Palestínu, líkt og með samskipti Egyptalands við önnur lönd. Egyptaland er fullfært um að hafa landamæraeftirlit við eigin landamæri með sínum eigin lögum og reglugerðum, án afskipta annara þjóða. Það er ótækt að öryggi Ísraels skipti meira máli í Egyptalandi en öryggi Egyptalands! Það er sjálfsögð krafa að arabaheimurinn fái að vera í friði fyrir erlendum afskiptum og það er sjálfsögð krafa að fullveldinu sé ekki ógnað. Palestínumenn eru ekki rót hryðjuverka eins og Bandaríkin og Ísrael ganga út frá og hernám Palestínu er ólöglegt. Það er einnig ótækt að þessar hömlur séu á flutningi á vörum yfir landamærin og að fólki sé meinað um ferðafrelsi. Nýir samningar þurfa að innihalda ákvæði sem leysa þetta.
Eitt land – ein þjóð
„Við höfum áhyggjur af hernáminu. Við þurfum að frelsa landið og koma á jafnvægi. Með þessum samningi fyrir 30 árum síðan, gekk Egyptaland úr hópi þeirra ríkja sem vildu frelsa Palestínu. Undir forsæti Bandaríkjanna var Sínaí-skagi, sem er hluti af Egyptlandi, tekinn undir hagsmuni Ísraels. Svipaðar ráðstafanir voru gerðar 1956 og 1967, og þetta var í þriðja sinn. Þetta veikir landið okkar og hræðir ríkisstjórnina. Landið var okkar. Við vitum að Ísrael er mikilvægt fyrir Bandaríkin. Gyðingar sættu ofsóknum og það var reynt að bjarga þeim með því að flytja þá burtu frá Evrópu. Þeir voru fluttir til okkar og við eigum erfitt með að skilja hvers vegna. Það voru engin vandamál með sambúðina fyrr en þeir tóku landið okkar og drápu fólkið okkar. Við erum að reyna að frelsa landið okkar og þá segir Bandaríkjastjórn að við séum þeir vondu. Ef Evrópubúar vissu sannleikann mundu þeir skilja okkar málsstað og styðja okkur.“
Eru Palestínumenn fólkið ykkar?
„Við erum eitt fólk. Tölum sama tungumál. Við viljum vera sameinuð og viljum fá að vera sameinuð í friði. Viljum fá að sameinast. Alveg eins og Frakkland, sem var skipt í margar einingar áður fyrr, en er ein þjóð í dag. Við erum ein þjóð. Við erum ekki betri en aðrir, við erum bara arabar. Eitt land – ein þjóð. Ekki vegna menningar eða trúarbragða, heldur vegna landsins. Rafah er borg sem er hálf egypsk og hálf palestínsk. Þeir sundruðu okkur. Það er líka verið að sundra Írak núna. Við vorum einu sinni á Spáni, en við fórum þaðan því það var ekki landið okkar, okkur var sagt að fara þaðan, því við værum ekki hluti af fólkinu þar. Og við fórum. Það sama gildir um þetta. Þeir eru ekki vondir af því að þeir eru gyðingar heldur vegna þess að þeir eru að taka landið okkar og drepa fólkið okkar.“
Hvernig ríkjakerfi er lausnin fyrir Ísrael og Palestínu?
„Það er ekki tímabært að ræða þetta núna. Ísrael sýnir ekki sanngirni. Gyðingar þurfa ekki að fara, bara átta sig á því að þetta er landið okkar. Við getum öll lifað í sátt og samlyndi, en það þarf að koma til viðurkenning á tilveru okkar og landinu okkar, þetta er arabískt land. Þetta er ójafn leikur og það þarf að jafna hann áður en við getum farið að tala um ríkjalausnir. Gyðingar og arabar geta búið saman en arabar og Ísraelsríki í núverandi mynd ekki.“
Almenningsálitið mikilvægt
Hvernig er baráttu ykkar háttað? „Við eigum við vandamál að stríða, öfl í heiminum eru á móti okkur. Bandaríkin eru á móti okkur. Á hverjum degi eykst andstaðan við okkur, og sú skoðun að það sé ekki hægt að semja um frið við okkur. Þetta er mjög alvarlegt vandamál. Fyrir nokkrum vikum drápu Ísraelar 60 manns. Þegar Palestínumenn drepa 5-6 manns er það vont, en ef Ísrael drepur, þá er það í lagi. Þetta er tvískinnungur. Við þurfum á stuðningi að halda, að það sé hlustað á okkur, að saga okkar sé skoðuð, þjóðin okkar, sem er ein. Við þurfum á einu ríki að halda, einni sterkri heild.“
Hvernig beitir þú þér í baráttunni?
„Mitt hlutverk er að upplýsa og benda á þessa þætti, svo við getum við unnið saman að lausn. Hér á þessari ráðstefnu tekur fólk frá ólíkum löndum höndum saman. Sumir vilja berjast, aðrir vilja skrifa, enn aðrir tala, fólk ákveður hvernig það vill berjast fyrir málstaðinn, að frelsa landið. Það verður að bara að vera í rétta átt. Það er mjög mikilvægt að fá almenningsálitið með okkur. Núna erum við að tala saman, hver veit nema þetta litla samtal okkar eigi eftir að hafa góð og mikil áhrif fyrir framtíðina!“
Viðtal eftir G. Rósu Eyvindardóttur
Birtist í Frjáls Palestína.