Spurningin um eitt ríki eða tvö hefur verið að skjóta upp kollinum í auknum mæli í umræðunni um Palestínu. Menn hafa líklega deilt um það síðan fyrst var stungið upp á stofnun Ísraelsríkis, hvort væri gæfulegra að hafa tvö ríki í Palestínu – eitt fyrir gyðinga og annað fyrir araba – eða aðeins eitt, annað hvort lýðræðisríki þar sem fólk væri jafnrétthátt óháð þjóðerni eða trú, ellegar þá „hreint“ ríki gyðinga eða araba. Í grófum dráttum mætti ef til vill segja að fólk sem beitir sér fyrir friði milli Ísraela og Palestínumanna hafi skipst milli fyrrnefndu hugmyndanna, en þeir sem vilja ekkert gefa eftir hafi viljað eitt, „ómengað“ ríki í öllu landinu.
Palestínska heimastjórnin á herteknu svæðunum stendur hvergi nærri undir nafni sem ríki, svo að núna er aðeins eitt ríki í landinu – Ísrael – og svo svæðin sem eru hernumin og á ábyrgð Ísraels, þótt palestínskir embættismenn fái sums staðar að sinna sumum borgaralegum verkefnum. Heimastjórnin er afurð Oslóaramkomulagsins, þar sem margir álíta að forysta Palestínumanna hafi samið af sér. Hvort sem þeir gerðu það eða ekki, virðist heimastjórnin vera andvana fædd og ekki til pólitískra stórræða. Það var kannski ekki við öðru að búast. Alþjóðlegir sáttmálar hafa jú tilhneigingu til að gagnast þeim best sem hafa völdin.
Á Sjöttu Cairo-ráðstefnunni um lýðræði og frið í Mið-Austurlöndum, sem fram fór í lok mars, var ein málstofa tileinkuð spurningunni um eitt ríki eða tvö. Hana sátu aktívistar, fræðimenn og áhugamenn um málefnið. Það segir kannski sitt að þar var enginn – ég endurtek, enginn – talsmaður tveggja ríkja leiðarinnar.
En tveggja ríkja lausnin, hvað er það? Er hún raunhæf, alvöru lausn? Í skiptum fyrir fulla viðurkenningu og eðlileg samskipti hafa Ísraelar boðið Palestínumönnum þykjusturíkisstjórn í þykjusturíki innan þykjustulandamæra. Klasa af ósjálfbjarga, einangruðum gettóum og bantústönum í stað samhangandi lands. Ekkert fyrir allt. Óréttlátan frið. Flóttamenn geti gleymt því að sjá föðurlandið aftur. Þessum kostum er vitanlega ekki hægt að taka, og á meðan er palestínskt ríki við hlið þess ísraelska ekki í sjónmáli. Hvaða kostir eru þá eftir í stöðunni?
Eitt lýðræðislegt ríki þar sem allir borgararnir búa saman jafnréttháir óháð þjóðerni eða trú. Annað hvort það eða að hreinsa Palestínu af Palestínumönnum í eitt skipti fyrir öll. Eins og er lítur frekar út fyrir að menn nálgist síðari „lausnina“. Á leiðinni til hinnar fyrri, eins ríkis, eru gildrur sem ber að varast. Flóttamannavandinn er ein þeirra. Milljónir palestínskra flóttamanna, dreifðar um nágrannalöndin, mega ekki gleymast. Málið getur ekki talist leyst nema þeir séu inni í lausninni. Palestínumenn verða að standa saman hvort sem þeir búa í Palestínu, Líbanon, Jórdaníu eða annars staðar. Standa saman um forystu sem bregst þeim ekki. Leikreglurnar eru önnur gildra. Ef Palestínumenn eftirláta Ísraelum, Bandaríkjunum og Evrópusambandinu að semja leikreglurnar, þá geta þeir eins lagt árar í bát. Eru þeir eina hernumda þjóðin í heiminum sem má ekki verjast hernáminu heldur verður bara að sætta sig við það?
Þriðja gildran er spurningin um zíonismann. Burtséð frá því hvort tveggja ríkja lausn er raunhæf eða ekki, þá þarf að velta því fyrir sér hvort hún er yfirhöfuð æskileg. Í hvaða stöðu væri palestínskt ríki – jafnvel innan 1967-landamæranna, með A-Jerúsalem sem höfuðborg og alla flóttamennina komna heim – við hliðina á zíonísku herveldi? Ísrael mundi væntanlega drottna áfram yfir því. Þótt drottnunin yrði kannski með öðrum hætti dags daglega en nú er, þá yrði kannski ekki langt að seilast í hervaldið ef því væri að skipta. Hvernig mundi Palestínumönnum líða í skugganum af þannig nágranna?
Ef stefnt væri að eins ríkis lausn, þá er helsta ljónið í veginum hugmyndafræði zíonismans, gyðinglega þjóðernisstefnan sem boðar að Ísrael eigi að ná yfir alla Palestínu og vera gyðinglegt ríki – það er að segja, að aðrir íbúar en gyðingar verði í minnihluta eða njóti að öðrum kosti ekki sömu réttinda og gyðingar í ríkinu. Í ljósi sögunnar – og samtíðarinnar – líst varla varla mörgum á það nú, að láta ríki vera stjórnað með aðskilnaðarstefnu byggðri á kynþáttum og trú.
Við hér á Vesturlöndum, sem styðjum Palestínumenn, styðjum þá auðvitað hvora leiðina sem þeim líst betur á. Við tökum þátt í samræðu og rökræðu um pólitíska kosti og galla. Vísbendingarnar benda þangað sem þær benda, en þegar öllu er á botninn hvolft er það þeirra að meta hvernig þeir heyja sína baráttu fyrir þjóðfrelsi og réttlæti.
Birtist í Frjáls Palestína.