Ég sat Sjöttu Cairo-ráðstefnuna um lýðræði og frið í Mið-Austurlöndum, sem fór fram dagana 27.–31. mars sl. Þegar dró að lokum ráðstefnunnar var ég spurður hvort ég vildi verða samferða allstórum hópi fólks sem ætlaði að freista þess að komast til Gaza-strandarinnar á mánudeginum 1. apríl. Ég ákvað að gera það. Planið var að aka snemma að morgni frá Cairo til borgarinnar El-Arish, héraðshöfuðborgar Sínaískaga. Þar átti að bíða okkar flutningabíll með hjálpargögnum, sem við mundum reyna að koma í gegn um landamærin við Rafah-borg. Þetta var tveim eða þrem mánuðum eftir að örvæntingarfullir Palestínumenn rufu landamæramúrinn og fóru yfir landamærin í hundraða þúsunda tali.

Ég mætti eins og til var ætlast þangað sem hópnum var safnað saman. Í hópnum voru á að giska 30 manns af 10-12 þjóðernum. Við fórum um borð í rútu og höfðum meðferðis mótmælaborða og spjöld sem við bjuggumst við að hafa not fyrir. Rútan ók sem leið lá, norður frá Cairo og austur yfir Súez-skurðinn (yfir brú sem heitir „Mubarak-friðarbrúin“).
Vegna Camp David-samkomulagsins frá 1979 eru Egyptar skuldbundnir til þess að aðstoða Ísraela við að halda landamærunum lokuðum og halda „röð og reglu“ sín megin. Á móti þiggur egypska ríkisstjórnin óhemjumikla „þróunaraðstoð“ frá Bandaríkjunum, sem réttara væri að kalla blóðpeninga. Lögreglan fylgdi þess vegna í humátt á eftir okkur. Egyptar njóta ekki fulls ferðafrelsis innan eigin lands, svo sums staðar á þjóðveginum eru vegatálmar þar sem skilríki eru skoðuð. Við vorum stöðvuð á einum slíkum ekki langt austan við Súez-skurð. Við áttum eins von á því að verða ekki hleypt lengra, en lögreglumennirnir höfðu ekki fyrirmæli um að hamla för okkar, svo okkur var hleypt í gegn. Þegar við komum að næsta vegatálma, sem heitir Balouza og er nærri samnefndum heitir Balouza og er nærri samnefndum bæ, vorum við stöðvuð aftur. Í millitíðinni höfðu lögreglumennirnir af fyrri vegatálmanum hringt einhver símtöl, svo lögreglumennirnir á Balouza bjuggust við okkur.
Talsmaður hópsins fór út úr rútunni og talaði við lögregluna og leyniþjónustumenn sem þarna voru líka staddir. Á meðan þær samræður fóru fram fylgdumst við hin með því út um gluggana hvernig hver einasti bíll var stöðvaður á vegatálmanum og leitað í honum. Lögreglan og leyniþjónustan leituðu í farangursgeymslum og á vörubílspöllum og hvar þar sem hefði mátt fela eitthvað. Þeir voru að leita að einhverju sem gæti nýst Palestínumönnum. Það er bannað að flytja vörur til El-Arish, umfram það sem heimamenn sjálfir þurfa að nota. Fólk er stöðvað með umframbirgðir af t.d. lyfjum – eða sígarettum eða pottum og pönnum eða einhverju öðru sem gæti freistað Palestínumanna – hugmyndin er að ef það er líka hörgull á lífsbjörgum fyrir sunnan landamærin, þá ætti freistingin að vera minni fyrir Palestínumenn að brjótast aftur yfir þau.
Talsmaðurinn okkar kom inn í rútuna, gekk aftur eftir henni í rútuna, gekk aftur eftir henni og safnaði saman lista með þjóðog safnaði saman lista með þjóðerni allra í hópnum: Spánn, Ítalía, Þýskaland, Austurríki, England, Ísland, Jórdanía, Indland, Bandaríkin . . . Fulltrúar skosku sam stöðunefndarinnar báðu um ráðrúm til að rökræða hvort þeir ættu að gefa þjóðerni sitt upp sem skoskt eða breskt! Hann fór aftur út með listann og við biðum áfram.
Að ráði eins í hópnum settum við okkur í viðbragðsstöðu: Ef svarið yrði neitandi, þá vorum við tilbúin með borðana og mótmælaspjöldin til þess að hlaupa út úr rútunni áður en það næðist að loka henni, og mundu halda mótmælafund þarna við vegatálmann.
Talsmaðurinn kom aftur inn í rútuna: Okkur yrði ekki hleypt lengra. Við hlupum út með borðana og spjöldin og stilltum okkur upp þvert yfir þjóðveginn. Verðirnir vissu ekki hvað þeir áttu að gera. Einhver benti á að það væri kannski ekki rétt að loka umferðinni fyrir saklausum bílstjórum; þær áhyggjur reyndust ástæðulausar: Bílstjórarnir flautuðu stuðningsflaut, sýndu okkur sigurmerki með fingrunum og virtust ekki kippa sér upp við að tefjast um nokkrar mínútur fyrir málstaðinn. Okkar lokun náði bara yfir hálfan veginn, þann helming sem liggur í austur. Lögreglan beindi þá umferðinni yfir á hina akreinina, vesturleiðina, og við færðum okkur þá þangað og svo aftur til baka.
Eftir nokkra hríð ákvað hópurinn að leggja af stað fótgangandi til El-Arish. Við sáum skilti þar sem stóð að það væru eitthvað um 160 kílómetrar þangað, þ.e.a.s. alls um 200 km til Rafah, þannig að þetta var auðvitað bara táknrænt. En við gengum af stað, með borðana og skiltin, og gengum einn eða tvo kílómetra austur fyrir vegatálmann. Leyniþjónustumennirnir fylgdu okkur allan tímann á tveim bílum. Þriðji bíllinn bættist fljótlega við. Þar var yfirlögreglustjórinn á Sínaí á ferðinni, karl með asnaleg sólgleraugu sem bar sig eins og honum þætti hann sjálfur ákaflega merkilegur maður. Hann sagði innfæddum talsmanni okkar að ef það yrði snert hár á höfði ein hvers útlendings, þá mundi hann missa vinnuna. Honum væri því mjög í mun að koma okkur í burtu án þess að það yrði neitt vesen. Hann bauð okkur að rútan gæti komið yfir vegatálmann og sótt okkur, og svo keyrt okkur beint aftur til Cairo. Það var samþykkt. Nokkrir úr okkar hópi vildu endilega halda áfram fótgangandi alla leiðina til El-Arish. Engu tauti varð við þau komið, og þar sem við vildum ekki skilja þau eftir til að drepast úr þorsta úti í eyðimörkinni, þá fór fólk inn í rútuna þegar hún kom, og allt vatn, matur, sólarvörn og annað slíkt var handlangað út til þeirra sem ætluðu að halda áfram. Svo gengu þau í austur en við hin ókum í vestur. Við vorum auðvitað stöðvuð aftur á vegatálmanum, þar sem lögreglumaður tók lykilinn úr svissinum og við vorum látin bíða á meðan fótgönguliðið sneri til baka í fylgd lögreglunnar.
Við ókum því til baka til Cairo, í lögreglufylgd alla leiðina. Rútan stöðvaði fyrir framan ræðisskrifstofu Evrópusambandsins, sem tekur fullan þátt í herkvínni á Gaza, og þar var haldin blanda af blaðamannafundi og mótmælafundi. Flest okkar breiddum úr borðunum fyrir framan ræðisskrifstofuna og hrópuðum slagorð, og blaðamenn og fréttamenn margra helstu fjölmiðla Egyptalands komu og tóku viðtöl við ýmsa úr hópnum. Fréttir af ferðinni birtust í nokkrum arabískum fjölmiðlum og nokkrum vestrænum. Lærdómurinn sem við drógum af henni var dapurlegur: Það eru ekki bara Ísraelar sem halda Gaza í herkví, heldur er egypska ríkisstjórnin samsek þeim.
Birtist í Frjáls Palestína.